Hringrás. Sjálfbærni. Hönnun.
300 milljónir tennisbolta í landfyllingum á hverju ári. Belgíski listamaðurinn Mathilde Wittock hefur hleypt af stokkunum nýju verkefni sem miðar að því að gefa þeim nýtt líf. Wittock vill með þessu vekja fólk til vitundar um afleiðingar sóunar.
Fyrir þá sem ekki þekkja til skal tekið fram að tennisboltar hafa tvö einkenni: þeir eru gulir með hvítra rönd. Mathilde Wittock byrjaði á að lita þá í ýmsum skærum litum og nema hvítu röndiuna á brott til að búa þá undir nýtt líf, sem háskynjunarhúsgögn eða hljóðplötur.
Mathilde Wittock er belgísk en lagði stund á nám í líf- og iðnaðarhönnun við Central Saint Martins-skólann í London.
„Ég er skapandi,” segir Mathilde, sem er 26 ára, í viðtali við UNRIC. „Minni kynslóð hefur verið uppálagt að við séum síðasta kynslóð, sem getur raunverulega gripið til aðgerða í þágu plánetunnar. Ég vildi gera eitthvað, en upp á hvað hafði ég að bjóða? Mér fannst ég ekki vera lausnin heldur hluti af vandamálinu.”
Að tengjast skynfærum okkar á ný
Í lokaprófritgerð sinni fitjaði hún upp á háskynjunarstól, með öðrum orðum stól sem örvaði öll skynfæri. Hún vildi sameina snertingu, lykt, heyrn, næmni og hvernig líkaminn bregst við rými. Hún setti sig í samband við miðstöð um háskynjun og á þessu byggði hún uppfinningu sína, sem snýst um að endurtengjast skynfærum okkar.
„Við erum ekki tengd skynjuninni. Við erum miklu frekar inni í höfðinu á okkur, og það er mikil aukning á geðheilbrigðisvandamálum,” bendir Mathilde Wittock á. „Ef maður finnur virkilega fyrir líkamanum, hættir maður að hugsa. Þegar þú einbeitir þér að einhverju tæmist hugurinn. Ég vildi búa til stól, sem lætur mann tengjast skynjuninni.”
Wittock hannar húsgagnaramma og hljóðplötur. Endursköpuðum tennisboltum er síðan raðað inn í þar til gerð op. Þannig er yfirborðið „rúllandi“ og kemur í stað venjulegs bólsturs, og dempar hljóð verulega í leiðinni. Boltarnir eru ekki límdir og ekki festir að öðru leyti en því að þeim er stungið í götin. Með því móti er hægt er að endurnýta þá enn á ný. Hún telur að yfirborð tennisbolta örvi öll skynfæri.
„Ég vil forðast að búa til enn meira efni. Af hverju kjósum við ekki efni sem hægt er að endurnota, eins og sorpð okkar? Ég var líka að leita að hljóðeinangrun. Ég fékk öll svör sem ég þurfti frá fólki sem ég ræddi við. Auk samtala við sérstaklega skynjunarnæms fólks fékk ég innblástur í hugleiðslu, rannsóknum, vísindum og hugsun fyrir utan kassann.”
Flestir boltar enda í landfyllingum
Mathilde Wittock stundar tennis af kappi. Hún segir að tennisbolta sé hægt að nota um það bil níu sinnum í leik atvinnumanna. Þá minnkar innri þrýstingurinn og þeim er fleygt. Það er líka erfitt að endurnýta tennisbolta. Nærri öllum þeim 330 milljónum tennisbolta sem framleiddir eru í heiminum á ári, er kastað á haugana. Það þýðir oftast að þeir enda í landfyllingum, þar sem það tekur 400 ár að leysast upp í frumeindir sínar.
„Vistvæn hönnun snýst ekki bara um varanleika eða sjálfbærni, heldur um hringrás; að búa til hluti sem má nota, laga og endurnýja, að sjá til að efnið sé nothæft allan líftíma sinn,“ segir Mathilde í viðtalinu við UNRIC.
Stærsti þröskuldurinn er að fjarlægja flókaefnið af gúmmikjarnanum, svo rammlega er það límt. Flókinn er líka vandamál, því hann er blanda ullar og óendurvinnanlegs nælons.
„Það eru til tennisboltar um allan heim, og því getur þessi hugmynd nýst um víða veröld. Ég vil kenna fólki víðar að feta í fótspor mín. Ég hef fengið athygli víða og verið ráðlagt að fá einkaleyfi, sem ég og gerði. Ég hef fengið viðurkenningu, hugmyndin er vernduð og hugsanlega hægt að framkvæma hana í stærri stíl. Jafnvel greiða fyrir frekari rannsóknum og þróun á þessu efni.“
Hljóðmengun er mitt fag
Eftir nám í London sneri hún heim til Belgíu. Tennisboltaverkefni hennar hafði þá vakið athygli og verið fjallað um það á CNN og í ICON Magazine.
Hún hefur nú hannað tíu bekki, sem kaupa má á vefsíðu hennar. Hún gerði níu frumgerðir af hægindastólnum áður en henni tókst að finna yfirborðsefni sem fullnægir öllum skilyrðum um hringrás, og hægt er að taka í sundur, enda ekkert lím notað.
„Allt í kringum okkur er hljóðáreiti, það er hljóðmengun alls staðar. Hún stuðlar að því að við leitum inn á við, hlöðum upp hindrunum til að vernda okkur og verðum síður næm á umhverfið. Þetta er vítahringur. Hjlóðmengun er mitt svið og ég hef mikinn áhuga á áhrifum hennar á lifandi verur. Hönnun er oft og tíðum eyrnamerkt augunum, en hvað með eyrun? Hvað ef við gætum séð með öllum skynfærum okkar, ekki bara augunum? Ég tek fagnandi ófullkomleika efnisins sem ég nota. Ég er hrifnust af því að fjarlægjast fullkomnun, gallaleysi og samræmi í hönnun. Hver einasti dagur kemur á óvart og er umhugsunarverð reynsla.“
Hún hefur fengið tennisbolta að gjöf frá íþróttafélögum, þar á meða tennissambandi Walloniu-héraðs, sem gaf henni 100 þúsund stykki. Þeir duga henni fyrir níu mánaða framleiðslu.
Sjá einnig hér á ensku.