7.desember 2016. Þegar norrænn lofsöngur var frumfluttur við veitingu verðlauna Norðurlandaráðs á dögunum hefur vafalaust fáa grunað að hugmyndina mætti rekja hvorki til Oslóar né Stokkhólms, eða annara höfðborga Norðurlanda, heldur alla leiðina austur til Teheran.
Víst er að parið Arta Ghavami og Amir Ghomi féllu illa að staðalímyndinni um ljóshærða og bláeyga Norðurlandabúa þegar þau hlýddu stoltust allra á frumflutning lofsöngs Norðurlanda í tónleikasal danska ríkisútvarpsins í byrjun nóvember. Flutningurinn var í höndum kórs danskra, íslenskra, færeyskra og grænlenskra söngvara við undirleik hljómsveitar að viðstöddum danska krónprinsinum og forsætisráðherrum Norðurlanda.
Eins og nöfn Arta og Amirs bera með sér eru þau ekki af norrænu bergi brotin þó þau hafi alist upp í Kaupmannahöfn frá blautu barnsbeini, og séu að tungu, menningu og ríkisfangi Danir.
Arta er klassískt menntaður píanóleikari og Amir er upptökustjóri og tónlistarfrömuður. Þau eru pólitískir flóttamenn frá Íran í Danmörku.
Margir ráku upp stór augu þegar hugmyndin um norrænan söng var kynnt, og sumir létu í ljós efasemdir um að hægt væri að skilgreina hið samnorræna hvað þá að túlka það í tónum og orðum.
Eins og dæmin sanna eru Norðurlandabúar uppteknari af þvi að tíunda það sem skilur þá að en það sem sameinar þá, þótt því sé öfugt farið þegar útlendingar eru annars vegar. Þannig er notast við skjátexta þegar rætt er við Dani í norskum sjónvarpsfréttum, þótt færa megi rök fyrir þvi að þá beri lika að texta marga norska mállýskuna.
Arta Ghavami, er fljót að benda á að menn séu á villigötum ef þeir einskorða kjarna norræns eðlis við uppruna og tungumálið, og óþarfi að leita langt yfir skammt þegar finnska er annars vegar, grænlenska og tungumál Sama.
En ef hið norræna er ekki bundið við tungumálið, hvað er það þá? Til að undirbúa verkefnið boðuðu Arta og Amir, með stuðningi Norðurlandaráðs og Icelandair, hóp Norðurlandabúa saman til fundar í Reykjavík fyrir tæpum þremur árum. Í þeim hópi voru tónlistarmenn, útgefendur, blaðamenn, skriffinnar úr menningargeiranum, og meira að segja fulltrúi Sameinuðu þjóðanna. Fundarsalinn lánaði Hönnunarsafnið og þar með var minnt á að norræn hönnun er víðfræg um allan heim.
„Stjórnmálamenn tala stöðugt um sérstakt þjóðareðli í Danmörku og hinum Norðurlöndunum, en gleyma þvi að erum hluti af einstökum norrænum félagsskap sem byggir á trausti, jafnrétti og öryggi. Óðurinn er til heiðurs þessu,” segir Arta Ghavami.
Niðurstöður hópsins voru þær að margir ólíkir þættir væru Norðurlandabuum sameiginlegir og mætti nefna stolt og sæmd, sameiginlega sögu og gildi, þar á meðal hið svokallaða „norræna módel”, mannréttindi og tjáningarfrelsi, að ógleymdri sköpunargleði. „Við nálgumst hlutina á mismunandi hátt, en við byggjum á sama grunni. Og grunnurinn er sá að byggja á umræðu. Við köfum djúpt og kryfjum til mergjar,” segir Arta og bætir við að norræni liturinn sé blár!
Textinn að norræna söngnum (sjá hér) er verk dansk-norska rithöfundarins Kim Leine, höfundar Spámannanna í Eilifðarfirði, sem vann Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2013 og gerist að verulega leyti í Grænlandi.
Tónlistin er svo eftir færeyska tónskáldið Sunleif Rasmussen. Enginn er dómari í sinni sök og ef til villi þarf utanaðkomandi innherja eins og þau Amir og Arta til að greina hismið frá kjarnanum í norrænu þjóðarsálinni.
Arta leynir því ekki að íranskur uppruni þeirra eigi stóran þátt í því að áhugi þeirra kviknaði.
„Þegar ég var að alast upp var ég meðvituð um að eitt sinn hafi verið til Íran, þar sem samstaða ríkti á milli íbúanna, enda deildu þeir sameiginlegu gildismati. Þetta er annað Íran en við þekkjum í dag,” segir Arta. Hún og Amir eru bæði alin upp við þá trú sem kennd er við spámanninn Zaraþústra, og eru ein elstu trúarbrögð heims.
Arta var fjögurra mánaða gömul þegar fjölskylda hennar leitaði hælis i Danmörku en faðir hennar var þekktur fyrir leik i í verkum sem höfðu pólítíska undirtóna. Hún var komin vel á þrítugsaldur þegar hún heimsótti Íran í fyrsta skipti fyrir sjö árum Hún lýsir þeirri reynslu sem „tilvistarlegu uppgjöri.” Þekking hennar á Íran kom ekki síst úr írönsku sjónvarpi sem hægt var að horfa á í Danmörku en lífshættir fjölskyldunnar voru danskir.
„Það var i Íran sem ég varð fyrst fyrir alvöru meðvituð um tvöfaldan uppruna minn. Hingað til hafði ég alltaf talið mig Dana, en að vísu uppruninn í Íran eins og aðrir sögðust vera frá Fjóni eða Jótlandi.”
Hún fór að velta vöngum yfir þvi hver hún væri í eðli sínu og hvað hún ætti og ætti ekki sameiginlegt með Dönum og Írönum. Þegar hér var komið við sögu hafði hún hitt Amir, sem var að vinna við norræna rapp—hátið. Norræni söngurinn var sú lausn sem Amir bauð henni upp á í heilabrotum hennar. „Það er hið norræna, þú finnur eðli þitt í hinu norræna.” sagði Amir.
Leit hennar að sjálfri sér var þannig á sama tíma leit að norræna kjarnanum og leiðin til hins norræna óðs.
„Og frá þeim degi sem ég byrjaði að vinna í þessu norræna samstarfi hef ég hitt Færeyinga, Íslendinga, Finna og smám saman fundið fleiri púsl í púsluspilinu.“
Hún fann margt í fari hinna Norðurlandabúanna sem hún gat samsamað sig við. Hinir yfirveguðu Finnar minntu hana á föður hennar og hún segir að íslenska kjötsúpan eigi sér systur-súpu í Íran!
„Og ég hef tautað í barminn: „Kannski er ég bara norræn – fyrst ég er hvorki írönsk né dönsk,” heldur Arta áfram. ” Og á þessu mótunarskeiði datt úr úr mér: „Amir, ég held að Íran í mínum huga sé einhvers staðar á milli Finnlands og Noregs, Færeyja og Íslands. Það er á norðurslóðum míns eigin huga.” Það er jafnstórt og hin löndin og ég held að ég sé í raun og veru fyrst og fremst norræn.”
Myndir: Arta Ghavami og Magnus Fröderberg/Norden.org
(Greinin birtist einnig Norræna fréttabréfi UNRIC og í Fréttatímanum).