
Norðurlöndin fimm hafa varað við því í sameiginlegri yfirlýsingu að loftslagsbreytingar og umhverfisspjöll grafi undan alþjóðlegum frið og öryggi.
Yfirlýsingin var gefin út á sérstökum fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í gær um loftslags- og öryggismál.
Fundur ráðsins var sóttur af háttsettum fulltrúum aðildarríkja þess. Micheál Martin, Taoiseach (forsætisráðherra) Írlands stýrði fundi en á meðal þátttakenda voru utanríkisráðherrar Bandaríkjanna, Frakklands og Rússlands, auk forseta Eistlands.
Í sameiginlegu yfirlýsingunni sagði að vernd, endurreisn og sjálfbær stjórnun umhverfisins væri grundvallar atriði. „Eyðing umhverfisins og tap á líffræðilegum fjölbreytileika eru olía á eld óöryggis og átaka um allan heim. Þetta hefur í vaxandi mæli áhrif á alþjóðlegan frið og öryggi.“
Einnig var bent á að hættuástand sem rekja mætti til loftslags og náttúruvár skaraðist oft og tíðum og eflust innbyrðis. „Þar sem ekki er hægt að einbeita sér að einum þætti í einu er mikilvægt að lausnir tengist innbyrðis. Unnt er að minnka hættu af loftslaginu með aðgerðum sem miða að því að vernda, endurreisa og stýra á sjálfbæran hátt vistkerfum. Þetta hefur í för með sér að fólk hefur áframhaldandi aðgang að matvælum, vatni og orku. Þar með er hægt að vinna að loftslagsaðlögun og minnka hættu á hamförum.“
Djarfari loftslagsaðgerða er þörf

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði í ávarpi sínu á fundi Öryggisráðsin sað „mun djarfari loftslagsaðgerða væri þörf“ til að viðhalda alþjóðlegum frið og öryggi.
Hann hvatti G20 hóp helstu iðnríkja til að auka og fylgja eftir aðgerðum í aðdrganda Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP26) í byrjun nóvember.
Í ljósi gróðurelda, flóða, þurrka og annars öfgaveðurfars sem herjað hefur á heimsbyggðina, minnti yfirmaður Sameinuðu þjóðanna á að „enginn heimshluti er undanskilinn“ afleiðingum loftslagsbreytinga.
Hann benti einnig á að loftslagskreppan hefði „sérstaklega djúpstæð áhrif“ þar sem saman færu veikburða samfélög og átök.
Hann sagði að loftslagsbreytingar og óstjórn umhverfismála væru „margföldunar þáttur“. Benti hann á að 30 milljónir manna hefðu orðið að yfirgefa heimili á síðasta ári vegna loftslagstengdra hamfara og að 90% flóttamanna komi frá þeim ríkjum sem síst gætu aðlagast loftslagsvánni.