Norðurlöndin hafa þungar áhyggjur af lagafrumvarpi sem er til umfjöllunar á Knesset, þingi Ísraels. Þau telja að ef það verði samþykkt muni það hindra starf Palestínu-flóttamannahjálparinnar (UNRWA) á Vesturbakka Jórdanar, þar á meðal Austur-Jerúsalem og á Gasasvæðinu.
Í sameiginlegri yfirlýsingu utanríkisráðherra Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar segir að UNRWA sé nú miðlægasta mannúðarstofnunin, sem sinni þörfum palestínskra flóttamanna í Mið-Austurlöndum.
Hrikalegar afleiðingar
„Það hefði hrikalegar afleiðingar fyrir hundruð þúsunda óbreyttra borgara, sem nú njóta þjónustu UNRWA, ef einhver starfsemi stofnunarinnar stöðvaðist,” segja utanríkisráðherrarnir í yfirlýsingu sinni.
„Tómarúm sem myndaðist við slíka ákvörðun í þjónustu og dreifingu mannúðaraðstoðar til palestínskra flóttamanna á Gasa og Vesturbakkanum, þar á meðal Austur-Jerúsalem, gæti enn aukið á óstöðugleika á þessum svæðum, í Ísrael og í heimshlutanum öllum.“
Hugsanlegt brot á alþjóðalögum
Utanríkisráðherrarnir vöruðu við því að lagafrumvörpin, sem myndu setja skorður við starfi UNRWA, kunni að fela í sér brot á skuldbindingum Ísraels samkvæmt alþjóðalögum, þar á meðal alþjóðlegum mannúðarlögum og lagalega bindandi úrskurðum Alþjóðadómstólsins.
Norðurlöndin ítrekuðu að samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum eru stríðandi fylkingar skuldbundnar til að tryggja að íbúar fái nauðsynlega mannúðaraðstoð, búi við fullnægjandi efnalegar aðstæður, og öryggi mannúðarstarfsmanna sé tryggt.
Tryggja ber aðgang UNRWA
„Á þessum forsendum hvetja Norðurlöndin til að fyrirliggjandi lagafrumvörp verði endurskoðuð. Ísrael er eindregið hvatt til þess að tryggja áframhaldandi og óhindraðan aðgang UNRWA í mannúðarskyni til þess að stofnunin geti þjónað því hlutverki, sem henni er ætlað,“ segja utanríkisráðherrarnir.
Ráðherrarnir eru Lars Løkke Rasmussen utanríkisáðherra Danmerkur, Elina Valtonen utanríkisráðherra Finnlands, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra Íslands, Espen Barth Eide utanríkisráðherra Noregs og Maria Malmer Stenergard utanríkisráðherra Svíþjóðar.