Noregur og Rúanda hafa tekið höndum saman um að fylkja liði þeirra þjóða sem mestan metnað hafa í að stöðva plastmengun í heiminum. Ísland og öll hin Norðurlöndin hafa gengið til liðs við átakið.
Ætlunin er að bandalag þessara viljugu þjóða skapi reglur og leiðbeiningar um hvernig binda megi enda á plastmengun fyrir 2040.
„Við tókum frumkvæðið í að safna saman hópi metnaðarfullra ríkja til að vinna að skilvirkum umhverfissamningi með alþjóðlegum reglum í þessu skyni,“ sagði Espen Barth Eide loftslags- og umhverfisráðherra Noregis í fréttatilkynningu.
Áður hafði Umhverfisþing Sameinuðu þjóðanna samþykkt í mars á þessu ári að viðræður um bindandi samning um stöðvun plastmengunar skyldu hefjast.
Ein alvarlegasta ógnin
Plastmengun hefur fjórfaldast undanfarna fjóra áratugi. 85% mengunar í hafinu er úr plasti Á hverju ári eru á bilinu 8 til 12 milljónir tonna af plasti losaðar í hafið. Búist er við að 2050 verði meira plast en fiskar í sjónum. António Guterrers aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur ítrekað hvatt til þess að hætt verði notkun einnota plasts til þess að vernda hafið.
„Okkar dýrmæta haf er notað eins og ruslahaugur og er að drukna í plastmengun. Það er kominn tími til að venja okkur af einnota plasti.“
Ef ekkert verður að gert má búast við að plastrusl í ám og vötnum aukist úr 109 milljónum tonna 2019 í 348 milljón tonna 2060. Á sama tíma er reiknað með að plast í hafinu aukist úr 30 milljónum tonna í 145.
Óásættanleg byrði fyrir komandi kynslóðir
Plastiðnaðurinn notar meir en 10 þúsund efni, og eru 2400 þeirra talin skaðleg heilsu og umhverfi. Plastmenung er meiri háttar ógnun við vistkerfi, líffræðilegan fjölbreytileika, loftslagið og heilsu mannsins.
„Þetta er óásættanleg byrði fyrir komandi kynslóðir. Plastmengun felur í sér vá fyrir plánetuna sem skaðar heilsuna, líffærðilega fjölbreytni og loftslagið,“ sagði Jeanne d’Arc Mujawamariya umhverfisráðherra Rúanda
Rúanda hefur áður gripið til harðra aðgerða gegn plastnoktun og bannaði plastpoka þegar árið 2008. 2019 bannaði Afríkuríkið notkun einnota plasts.
Alþjóðleg samvinna
Auk Norðurlandanna hafa Bretland, Chile, Costa Rica, Dóminíkanska lýðveldið, Ekvadór, Frakkland, Kanada, Portúgal, Suður Kórea og Sviss gengið í bandalagið.
Til þess að ná því markmiði að stöðva plastmengun fyrir 2040 þarf að ná þremur undir-markmiðum. Að takmarka plastnotkun og framleiðslu svo að hún verði sjálfbær. Koma á hringrásarhagkerfi fyrir plast með það að markmiði að verdna umhverfið og heilsu mannkyns. Og í þriðja lagi að tryggja skynsamlega stjórnun og endurvinnslu plastrusls.
Norska stjórnin hefur lýst yfir að bandaglag metnaðarfullu ríkjanna muni hittast að máli áður en fyrsta hrina alþjóðlegra viðræðna um málið heft í Punta del Este í Úrúgvæ 28.nóvember á þessu ári.