Stríðið í Úkraínu er á allra vörum, en hvernig er ástandið á hamfarasvæðum annars staðar í heiminum? Önnur lönd eru sjaldnar í fyrirsögnum fjölmiðla en verðskulda þó vissulega athygli heimsins.
Sameinuðu þjóðirnar og stofnanir þeirra eru umfangmestu hjálparstofnanir heims. Samræmingarskrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir mannúðaraðstoð sinnir til dæmis ríkjum á borð við Jemen, Mynamar og Venesúela.
Venesúela.
Venesúela gleymist oft en ástandið þar er talið mjög alvarlegt. Skæð pólitísk og efnahagsleg kreppa hefur ríkt í landinu í mörg ár. Fjölmargar fjölskyldur hafa orðið fátækt að bráð vegna óðaverbólgu og geta ekki brauðfætt sig. Margar milljónir hafa yfirgefið landið og leitað skjóls í nágrannaríkjum.
Mörg börn þjást af vannæringu. Rafmagnsleysi er viðvarandi. Heilbrigðiskerfi landsins hefur hrunið að hluta og það er skortur á lyfjum og hjúkrunarbúnaði.
Ekkert lát er á neyðarástandinu í Venesúela og COVID-19 faraldurinn bætir ekki úr skák. Um sjö milljónir manna reiða sig nú á mannúðaraðstoð, þar af 3.2 milljónir barna.
Myanmar: 14 milljónir þurfa mannúðaraðstoð
Hvenær heyrðuð þið síðast um Myanmar? Kannski í febrúar 2021 þegar valdaráni hersins í kjölfar þingkosninga var mótmælt. Kreppan í landinu hefur síðan stigmagnast.
Fyrir þessa atburði töldu Sameinuðu þjóðirnar að ein milljón manna reiddi sig á mannúðaraðstoð. Sú tala hefur nú hækkað í 14.4 milljónir, þar af 5 milljónir barna.
Ástæðurnar eru sambland pólitískrar kreppu, vaxandi ofbeldis, afleiðinga COVID-19 og náttúruhamfara, að hluta til vegna loftslagsbreytinga. Fátækt er almennari en hún hefur verið í mörg ár. Fjórðungur íbúanna veit ekki hvenær næsta máltíð verður fáanleg.
Sameinuðu þjóðirnar fylgjast náið með síversnandi ástandi í Rakhine-fylki. Tómt mál er að tala um endurkomu flóttamanna af Rohingja-kyni sem flúði til Bangladesh fyrr en ástandið skánar.
Jemen: Sjö ára stríð eykur hungur
Sífellt fleiri íbúar Jemen þjást af hungri og margir verða að sætta sig aðeins eina daglega máltíð. Hungur hefur ekki verið jafn útbreitt áður og illa gengur að afla fjár til hjálparstarfs. Eldnseytisskortur eykur á neyðarástandið. Börn eiga sérstaklega undir högg að sækja og eiga á hættu að veikjast, fái þau ekki nauðsynlega næringu. Fleiri en tvær milljónir barna yngri en fimm ára þjást af bráða-vannæringu. Hálf milljón þeirra er í lífshættu.
Sýrland: enginn friður í augsýn
Stríðið í Sýrlandi hefur staðið yfir í ellefu ár. Margir hlutar landsins eru rústir einar og jarðsprengjur og sprengiefni skapa hættu. Á síðasta ári létust eða slösuðust nærri 900 börn samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna.
Matarverð hefur rokið upp í Idlib og noður-Aleppo í marsmánuði. Lítrinn af steikingarolíu hækkaði um 45% á 4 vikum. Lamb og kjúklingur hækkaði um 25-45%. Rafmagn kemur að mestu frá Tyrklandi. Eldsneytisverð hefur stöðugt farið hækkandi og rafmagnsverð hefur hækkað um 125% frá því í janúar.
Verðhækkanir hafa áhrif á framleiðslukostnað helstu vara sem framleiddar eru í héraði. Ýmis smáfyrirtæki, sem áttu þegar í vök að verjast vegna COVID-19, kunna að verða hárri verðbólgu, auknu atvinnuleysi og fátækt, að bráð.
Sómalía: á barmi hungursneyðar
Einn mesti þurrkur sem um getur í áratugi herjar nú á Sómalíu. Í sumum landshlutum hefur regn brugðist þriðja árið í röð. Jarðvegur hefur þornað upp og skortur er á drykkjarvatni. Sex milljónir Sómala eru taldir þjást af skæðu fæðuóöryggi eða 40% landsmanna. Þetta er tvöfalt fleiri en í ársbyrjun. Hungursneyð er yfirvofandi á sex svæðum og fjárhagslegrar aðstoðar er þörf til að bjarga milljónum úr lífshættu.