6. apríl 2009 – Blaðamaðurinn og ritstjórinn Lasantha Wickrematunge sem var myrtur á Sri Lanka 8. janúar síðastliðinn, hlýtur fjölmiðlafrelsis-verðlaun UNESCO í ár.
Wickrematunge var lögmaður sem einnig starfaði sem rannsóknarblaðamaður fyrir dagblaðið the Sun/Davasa, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá UNESCO, Mennta- vísinda- og menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna.
Árið 1994 hleypti hann af stokkunum the Sunday Leader ásamt bróður sínum og helgaði ritið andstöðu við stríðið á milli stjórnarhers Sri Lanka og Tamíl-Tígrana (LTTE).
Árið 2000 vann Wickrematunge sigur í dómsmáli sem leiddi til þess að lög sem heimiluðu ríkisstjórninni að setja hömlur á fjölmiðla voru afnumin. Í nóvember 2007 var eldur lagður að skrifstofum the Sunday Leader og líkti Wickrematunge þeim atburði við “hernaðaraðgerð.”
“Hann bjóst við því að falla fyrir morðingjahendi og gekk svo langt að semja leiðara til birtingar eftir dauða sinn,” segir í tilkynningu UNESCO. Í leiðaranum sem birtist í the Sunday Leader þremur dögum eftir dauða hans, sagðist Wickrematunge vera staðráðinn í að gjalda stuðning sinn við frelsi fjölmiðla með lífi sínu, ef nauðsynlegt reyndist. “…það er til köllun sem er meira virði en há embætti, frægð, frami og öryggi. Það er sú köllun sem samviskan leggur manni á herðar.”
Valnefnd skipuð 14 blaðamönnum alls staðar að úr heiminum valdi Wickrematunge en hann er annar blaðamaðurinn í tólf ára sögu verðlaunanna sem hlýtur þau að sér látnum. Rússneski blaðamaðurinn og mannréttindafrömuðurinn Anna Politkovskaya sem myrt var 2006 hlaut verðlaunin árið eftir.
“Nefndarmenn voru nánast einhuga í mati sínu. Þeir voru djúpt snortnir af þessum manni sem gerði sér skýra grein fyrir hættunni en kaus að láta rödd sína heyrast, meira segja út yfir gröf og dauða, sagði formaður nefndarinnar Joe Thloloe, Umboðsmaður fjölmiðla í Suður Afríku og skírskotaði til leiðarans sem birtist að blaðamanninum látnum.
“Lasantha Wickrematunge mun halda áfram að vera blaðamönnum um allan heim fyrirmynd,” bætti hann við. Koïchiro Matsuura, forstjóri UNESC mun afhenda verðlaunin við hátílega athöfn í Doha, höfuðborg Katar 3. maí.
“World Press Freedom verðlaunin 2009 falla í skaut baráttufúsum blaðamanni sem barðist gegn stríði. Með því viðurkennir UNESCO, í félagi við atvinnu fjölmiðlamenn um allan heim, mikilvægi fjölmiðlafrelsis í að auka skilning og stuðla að sáttum en þetta eru einmitt þemu Alþjóðlegs baráttudags fyrir frelsi fjölmiðla í ár,“ sagði Matsuura.
Alþjóðleg verðlaun UNESCO kennd við Guillermo Cano voru fyrst veitt árið 1997 í því skyni að heiðra fjölmiðlafrelsi. Markmiðið er að heiðra árlega einstakling eða samtök sem hafa varið eða eflt tjáningarfrelsi um allan heim, sérstaklega ef einstaklingur hættir lífi sínu. Aðildarríki UNESCO og samtök sem berjast á alþjóðlega vísu fyrir tjáningarfrelsi geta tilnefnt til verðlaunanna. Þau nema 25 þúsund Bandaríkjadölum. Þau heita eftir Guillermo Cano, kólombíska útgefandanum sem myrtur var 1987 fyrir að standa uppi í hárinu á eiturlyfjabarónum í heimalandi sínu.