Sænsk yfirvöld hafa tilkynnt að mpx veirusýking hafi greinst í Svíþjóð. Þetta er í fyrsta skipti sem mpx veirusýking, sem áður var kennd við apabólu, greinist utan Afríku. Skammt er stórra högga á milli því í dag var tilkennt um nýtt tilfelli í Pakistan.
Um svokallað Clade 1 afbrigði er að ræða. Hingað til hafa rúmlega tvö þúsund dæmi um mpx veirusýkingu verið staðfest á rannsóknastofum á þessu ári, einkum í Lýðveldinu Kongó og ellefu öðrum ríkjum. Þrettán hafa látist.
Alþjóða heilbrigðismálstofnunin (WHO) hafði lýst yfir að þessi veirusýking sé nú alþjóðleg heilbrigðisvá áðu en tilfellið greindist í Svíþjóð. Veiran herjaði fyrst á Kongó en hefur síðan breiðst þaðan út til nágrannaríkja og nú út fyrir Afríku, í Svíþjóð og Pakistan.
„Við vinnum hörðum höndum í framlínunni í baráttu við veiruna í nánu samráði við innlend yfirvöld og samfélög,“ segir dr. Matshidiso Moeti Afríkustjóri WHO.
![Apabóla](https://unric.org/is/wp-content/uploads/sites/10/2022/07/image1170x530cropped-1-1-392x178.jpg)
Nærri tvöfalt fleiri tilfelli í ár
Mpx -áður- apabóla er sjaldgæfur smitsjúkdómur sem hingað til hefur einungis verið landlægur í nokkrum löndum mið- og vesturhluta Afríku, segir á Vísindavef Háskóla Íslands. Hér er á ferðinni svokölluð súna (e. zoonosis), en það þýðir að sjúkdómurinn berst fyrst og fremst frá dýrum (aðallega nagdýrum) til manna; hins vegar er smit milli manna mögulegt.
Fyrsta tilfellið sem greindist var árið 1970. Á síðasta ári voru 1145 staðfest dæmi um mpx veirusýkingu en það sem af er árinu hafa greinst 2100 eins og fyrr segir.
![Apabólueinkenni birtast oft í lófum](https://unric.org/is/wp-content/uploads/sites/10/2022/07/image1170x530cropped-1-392x177.jpg)
Einkenni
Útbrot eru langsamlega algengasta birtingarform apabólu og koma fram í 95-100% tilfella. Útbrotin byrja sem rauðleitir, flatir blettir á húð sem þróast síðan á eftirfarandi máta: upphleyptir blettir, blöðrur með tærum vökva, blöðrur með greftri, opin sár, sár með skán sem síðan fellur af, heilbrigð húð grær yfir. Útbrotin byrja gjarnan (en ekki alltaf) á andliti og dreifast þaðan yfir á líkama og útlimi.. Útbrot geta einnig myndast á slímhúðum, til dæmis í munni, endaþarmi og á kynfærum., segir á Vísindavef Háskóla Íslands.
Sjá nánar hér.