Í Chişinău höfuðborg Moldavíu njóta íbúarnir vorblíðunnar. Kastaníutrén eru í blóma, ungt fólk fyllir útikaffíhúsin og hvarvetna heyrast ljúfir tónar. En þótt allt sé friðsælt á yfirborðinu eru allir að tala um stríðið í Úkraínu og margir eru uggandi um framtíðina.
Moldavía var eins og Úkraína hluti af Sovétríkjunum sálugu. Frá innrás Rússlands í Úkraínu 24.febrúar hafa 450 þúsund flóttamenn streymt yfir landamærin frá Úkraínu. Um hundrað þúsund hafa leitað tímabundins skjóls á meðal fjögurra milljóna heimamanna.
Natalia og eins árs gömul dóttir hennar frá Ódessa hafa fengið skjól á MoldExpo sýningarsvæðinu sem breytt hefur verið í flóttamannabúðir.
„Mér bauðst að fara tl Evrópuríkis, Frakklands,“ sagði hin 34 ára gamla móðir. „En eg vil ekki fara svo langt í burtu. Ég vona að þessu ljúki og ég geti snúið heim.“
Í stríðsbyrjun var sýningarsvæðið troðfullt.
„Það var ekki einn fermetri laus. Ég hef aldrei séð annað eins og straumurinn var endalaus,“ segir Svetlana. Hún hefur starfað sem túlkur fyrir Sameinuðu þjóðirnar og önnur erlend samtök.
Hlýlegt viðmót
„Íbúar Moldavíu hófu þegar fjársöfnun og fyrr en varði hafði sýningarsvæðið fyllst af alls kyns hlutum,“ heldur hún áfram. „Vinkona mín, lögfræðingur, hélt strax til landamærana til að veita nýkomnum flóttamönnum lögfræðilega aðstoðs. Það voru hundruð annara sem gerðu slíkt hið sama, hver á sínu sviði.“
MoldExpo-svæðið var áður notað sem COVID-spítali en nú eru þra 360 flóttamenn. Á fyrstu dögunum var þar svefnpláss fyrir 1200 manns.
Svæðið er notað sem miðstöð fyrir flóttafólk þegar það kemur örþreytt eftir erfiða ferð og geðveiki styrjaldarinnar. Þar fær það húsaskjól, heita máltíð, lagalega ráðgjöf og það sem mest er um vert hlýlegt viðmót.
Andrými
Fólkið fær þar andrými til að ákveða næstu skref.
Úkraínska sendiráðið í Moldóvu stendur í ströngu. Margir þeirra sem hafa flúið eru skilríkjalausir.
„Við erum Róma-fólk frá Dnieper,“ segir eina konan. „Ég á dóttur í Þýskalandi. Við komumst ekki tl hennar því við höfum ekki persónuskilríki og það tekur tíma að fá ný.“
Í bili býr hún með systrum sínum og dætrum í litlu rými í MoldExpo en vonast til að komast til Þýskalands.
Starfsfólk Sameinuðu þjóðanna og almannasamtaka á MoldExpo ann sér ekki hvíldar. Sameinuðu þjóðirnar starfrækja „bláa bletti“ fyrir fjölskyldur og börn og UNFPA veitir „appelsínugult“ skjól fyrir stúlkur og konur.
Og sumt fólk þarf á lyfjum og læknisaðstoð að halda. Á appelsínugulu svæðunum eru lagðar línur til þess að flóttafólkið verði síður ginkeypt og verði mansali að bráð.
Óttast um ættingja
Natalia segist stundum eiga erfitt með að hemja tilfinningar sínar þegar hún hittir fólk sem hefur misst allt sitt á augabragði.
Hún nefnir sem dæmi, konu, 75 ár gamlan háskólaprófessor frá Kharkiv. Sonur hennar er í hernum, dóttir og tengdadóttir læknar og tengdasonur lögregluþjónn. Allt fólk sem á ekki heimangengt vegna skyldustarfa.
Gamla konan tók því að sér að koma fimm barnabörnum á aldrinum fjögurra til fjórtán í skjól.
„Hun gat ekki hætt að gráta,“ segir Natalia. „Hún hringdi stöðugt í tvo daga en náði ekki sambandi. Hún óttast að eitthvað hafi komið fyrir þau enda er stöðugar stórskotaliðsárásir á Kharkiv. Allir hér reynda að hughreysta hana, við reynum að hringja og hafa ofan af fyrir krökkunum.“
Loks náðist samband eftir nokkrar daga og allir voru heilir á húfu. Símasamband hafði legið niðri.
Erfitt að þiggja aðstoð
Tugir þúsunda fá fjárhagsaðstoð frá stofnunum Sameinuðu þjóðanna.
„Fólk á erfitt með að þiggja fjárhags-aðstoð, en hefur engan annan kost,“segir Natalia.
„Við heyrum oft hjá fólki að það hafi ekki vanhagað um nokkurn skapaðan hlut heima fyrir sem gerir enn erfiðara að þiggja hjálp. Margir vilja leggja hönd á plóginn sem sjálfboðaliðar.“
Fjölskyldum sem hýsa flóttamenn er veittur fjárstuðningur að upphæð 190 Bandaríkjadalir eða um 25 þúsund íslenskar krónur, í að minnsta kosti viku. En snýst þetta bara um peninga?
Margarita Yevgenievna er 73 ára kennari sem stundar enn kennslu af fullum krafti. Hún deilir lítilli tveggja herbergja íbúð með flóttamönnum.
„Þau eru þrjú frá Odessa sem eru í öðru herberginu og ég er í hinu. Þau fá að búa hjá mér þangað til stríðið er búið,“ segir hún og bætir við að hún kenni þremur börnum frá Úkraínu að auki.
Enn bætist við
Enn er straumur flóttamanna þótt dregið hafi úr honum.
Sameinuðu þjóðirnar og ríkisstjórn Moldavíu hafa komið upp tjaldbúðum fyrir flóttamenn við landamærin um tveggja tíma akstur frá Chişinău.
Þar geta flóttamenn hvílst, eða dvalið næturlangt eftir því hvernig stendur á ferðum áætlunarbíla til borgarinnar eða áleiðis til Rúmeníu.
Hjartanlegar mótttökur
„Við bjuggumst ekki við slíkum móttökum. Við vissum ekkert hvert við ættum að fara, við vildum bara komast burt frá hættunni,“ segir Irina sem er nýkomin frá Odessa. „Við erum þakklát Moldavíu og Sameinuðu þjóðunum“.
Á Chişinău flugvelli hefur verið komið fyrir skilti þar sem stendur: „Moldavía er lítið land með stórt hjarta.“ Það eru orð að sönnu.
Staðreyndir um Moldavíu:
Moldavía hefur verið sjálfstætt ríki síðan 1991 og er Chişinău höfuðborg landsins. Það á landamæri að Rúmeníu í vestri. Úkraín er hins vegar fyrir norðan, austan og sunnan. Á austurlandamærunum er svo klofningshéraðið Transnistria sem lýst hefur yfir sjálfstæði. Moldavía er 34 þúsund ferkílómetrar að stærð, nokkru minni en Danmörk og um þriðjungur Íslands. Íbúarnir eru 2.6 milljónir.