Hundruð þúsunda manna hafa flúið Úkraínu til bláfátæks nágrannaríkis, Moldavíu. Samt sem áður sjást fá merki um stórar flóttamannabúðir, sem oft hafa einkennt slíkar aðstæður. Ástæðan er einföld: Moldóvar hýsa flóttamennina á einkaheimilum.
![Heimamenn skilja gesti sína.](https://unric.org/is/wp-content/uploads/sites/10/2022/05/image770x420cropped-392x214.jpg)
Vasiliy og Klavdia Turkanu eru hjón sem komin eru á eftirlaun. Þau hafa skotið skjólshúsi yfir móður, dóttir og ömmu. Allar eru þær frá Nikolayev, en áður hýstu þau tvo karla frá Odessa.
„Við skiljum það sem fólkið hefur mátt þola,” segir Klavdia og bætir við að fólkinu sé velkomið að gista þar til stríðinu lýkur.
„Okkur nægir að ferðast til að finna fyrir heimþrá, en þau geta ekki snúið aftur heim.”
Eiginmaður hennar spyr sig „hvers vegna getur fólk ekki lifað í friði og samið sín á milli friðsamlega um það sem ber á milli.”
Antnónio Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur undanfarna daga heimsótt Moldavíu. Hann segir það að Moldavía sé til fyrirmyndar um samstöðu með flóttamönnum.
Reiðfé virkar best
![Guterres heilsar Maia Sandu forseta Moldavíu.](https://unric.org/is/wp-content/uploads/sites/10/2022/05/Moldova-392x178.jpg)
Guterres segir bestu aðstoðina felast í því að afhenda flóttamönnum reiðufé. Stofnanir Sameinuðu þjóðanna, hvort heldur sem er Flóttamannahjálpin (UNCHR) eða Barnahjálpin (UNICEF) hjálpa þeim sem eru á flótta með þessum hætti.
95% flóttamanna í Moldavíu búa hjá heimamönnum, en sumir hafa þó leitað skjóls í flóttamannamiðstöðinni á sýningarsvæðinu MoldExpo. Irina, fjögurra barna móðir frá Odessa-héraði sagði Guterres þegar hann kom í heimsókn að hún hefði flúið skömmu eftir að stríðið byrjaði. “Ég var hrædd um börnin okkar. Og í gær frétti ég að verslunarmiðstöðin okkar hafi verið lögð í eyði.”
Nærri 460 þúsund Úkraínubúar flúðu til Moldóva, en flestir hafa haldið áfram ferð sinni. Giskað er á að um hundrað þúsund séu eftir. Fólkið nýtur aðstoðar frá Flóttamannahjálpinni, UNICEF, Mannfjöldastofnuninni (UNFPA), Alþjóða fólksflutningastofnuninni (IOM) og Matvælastofnunini and World Food Program (WFP).
Konur og börn
Aðalframkvæmdastjórinn bendir á að flóttafólkið sé lengflest konur og börn.
„Körlum er ekki leyft að fara frá Úkraínu. Þess vegna eru konur og börn ein og eru þess vegna í erfiðari stöðu,” sagði hann á fundi með Jafnréttisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UN Women) og félagasamtökum sem hún starfar með.
„Þess vegna er sérstaklega hætta á kynbundnu ofbeldi og mansali.”