Mikilvægt að minnast Helfararinnar

 Von er þema alþjóðlega minningardagsins um Helförina að þessu sinni. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti árið 2005 að 27. janúar ár hvert skyldi Helfararinnar minnst en þann dag frelsuðu bandamenn dauðabúðir nasista í Auschwitz árið 1945.  

“Í dag minnumst við milljóna fórnarlamba nasista þar á meðal þriðjungs allra Gyðingar og fjölda fólks úr röðum annara minnihlutahópa, sem máttu þola hrikalega mismunun, skort, grimmdarverk og morð,” segir Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi sínu í tilefni dagsins. 

 “Við verðum að halda áfram að brjóta til mergjar hvers vegna umheimurinn kom ekki í veg fyrir Helförina og önnur grimmdarverk síðar. Með því móti erum við betur í stakk búin til að vinna bug á Gyðingahatri og hvers kyns umburðarleysi,” segir Ban.

 

 Hann leggur áherslu á nauðsyn þess að kenna börnum þessa myrku kafla mannkynssögunnar. “Við verðum að berjast gegn afneitun Helfararinnar,” segir Ban í ávarpi sínu.
 
Ban flutti ræðu á minningarfundi um Helförina í Park East sýnagógunni í New York um helgina. Hann gerði þar að umræðuefni för sína til Miðausturlanda þar sem hann kynnti sér með eigin augum þjáningar bæði Ísraela og Palestínumanna.

 “Ég sagði öllum sem ég hitti að máli: Þetta verður að stöðva,” sagði hann.“Ég snéri heim ákveðnari en nokkru sinni fyrr í að vinna að því að tvö ríki, Ísrael og Palestína geti þrifist hlið við hlið í öryggi og friði. Stríð getur aldrei verið svarið.”