Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna 75 ára. Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna hefur tekið saman safn ljósmynda, sem sýna starf friðargæsluliða í 75 ár. Sýningin, sem opnuð var í New York, mun ferðast til margra þeirra landa sem lagt hafa til friðargæsluliða, auk þess að vera aðgengileg á netinu.
Sýningin er hluti árslangrar herferðar undir heitinu „Friður byrjar hjá mér“ í tilefni af 75 ára afmæli friðargæslusveita Sameinuðu þjóðanna. Herferðinni er ætlað að vekja athygli á þeim úrslitaáhrifum sem starf friðargæslu Sameinuðu þjóðanna og samstarfsaðila þeirra, getur haft á líf milljóna manna sem eru leiksoppar í vopnuðum átökum víða um heim.
Myndirnar spanna alla sögu friðargæslunnar frá því fyrstu eftirlitsmenn voru sendir til Mið-Austurlanda 1948 og til þeirra tólf sveita sem starfræktar eru í dag. Þær sýna þau flóknu og margvíslegu störf sem friðargæsluliðar vinna af hendi við erfiðar og oft og tíðum hættulegar aðstæður.
Að tryggja varanlegan frið
„Í 75 ár hefur Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna lagt lóð sín á vogarskálarnar við að binda enda á átök, vernda óbreytta borgara, tryggja framgang pólítskra lausna og koma á varanlegum friði,“ segir Jean-Pierre Lacroix framkvæmdastjóri Friðargæslunnar. „Friðargæsluliðar eru venjulegt fólk sem vinnur við erfiðar og oft hættulegar aðstæður. Dæmi um árangursríkt starf þeirra má sjá í Líberíu, Namibíu, Kambódíu, Sierra Leone og Tímor-Leste.“
Frá 1948 hafa meir en 2 milljónir friðargæsluliða frá 125 ríkjum starfað í 71 friðargæsluverkefni. Í dag eru 87 þúsundm manns að störfum á hættusvæðum í Afríku, Evrópu og Mið-Austurlöndum.
Rúmlega 4200 friðargæsluliðar hafa týnt lífi við störf undir fána Sameinuðu þjóðanna. Sýningunni er ætlað að minnast fórna þeirra og hvetja til aðgerða í þágu friðar.
Sýningin í New York stendur til 6.júní í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna en hana má einnig sjá hér.
Sjá einnig hér, hér og hér um 75 ára afmæli friðargæslunnar.