A-Ö Efnisyfirlit

Mannréttindayfirlýsingin

Eleanor Roosevelt - holding the UDHRMannréttindayfirlýsingin eða Heimsyfirlýsing um mannréttindi var samþykkt og birt á þriðja allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 10. desember 1948. Yfirlýsingin var samþykkt með 48 atkvæðum, ekkert land greiddi atkvæði á móti en 8 lönd sátu hjá.

Opinber texti yfirlýsingarinnar er á þeim sex málum, sem Sameinuðu þjóðirnar nota opinberlega: arabísku, ensku, frönsku, kínversku, rússnesku og spönsku. Alls hefur Mannréttindayfirlýsingin verið þýdd á 375 tungumál og mállýskur og hefur ekkert skjal verið þýtt á jafnmörg mál, að því er talið er.

Íslenska þýðingin var endurskoðuð og gefin út að nýju á sextugsafmæli yfirlýsingarinnar árið 2008 og sá Jakob Þ. Möller um það verk.

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna

Sérhver manneskja er borin frjáls og jöfn öðrum að virðingu og réttindum. Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna kveður á um mannréttindi sem allir eiga jafnt tilkall til án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna. Þetta eru þín mannréttindi! Kynntu þér þau. Leggðu þitt af mörkum til að efla virðingu fyrir mannréttindum – þínum eigin og annarra.

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna Samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hinn 10. desember 1948.

Inngangsorð

Þar sem viðurkenning þess að allir séu jafnbornir til virðingar og óafsalanlegra réttinda er undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum,

þar sem mannréttindi hafa verið vanvirt og smánuð hefur það leitt til siðlausra óhæfuverka, sem ofboðið hafa samvisku mannkynsins, og þar sem því hefur verið yfir lýst sem æðsta markmiði mannsins að lifa í heimi þar sem allir fái notið tjáningar- og trúfrelsis, séu óttalausir og þurfi ekki að líða skort,

þar sem brýnt er að vernda mannréttindi með lögum svo eigi verði gripið til þess örþrifaráðs að rísa upp gegn harðstjórn og kúgun,

þar sem brýnt er að efla vinsamleg samskipti þjóða,

þar sem trú á grundvallarmannréttindi, göfgi og gildi mannsins og jafnrétti kvenna og karla hefur verið staðfest í stofnskrá Sameinuðu þjóðanna og þar sem samtökin hafa einsett sér að stuðla að félagslegum framförum og betri lífskjörum við aukið frelsi,

þar sem aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa heitið því að efla, sjálf og í samvinnu við samtökin, almenna virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsi í orði og verki,

þar sem sameiginlegur skilningur á réttindum þessum og frelsi er forsenda þess að slík fyrirheit verði að veruleika,

kunngjörir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna mannréttindayfirlýsingu þessa

sem sameiginlegt markmið allra þjóða og ríkja með það fyrir augum að sérhver einstaklingur og allar stofnanir samfélagsins hafi yfirlýsinguna ávallt í huga og kappkosti með fræðslu og menntun að stuðla að virðingu fyrir réttindum þessum og frelsi með framsæknum aðgerðum, heima fyrir og á alþjóðavettvangi, svo að tryggja megi um heim allan að ákvæði yfirlýsingarinnar séu viðurkennd og þeim sé framfylgt í raun, bæði meðal þjóða aðildarríkjann sjálfra og þjóða á yfirráðasvæðum þeirra.

  1. grein

Allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum. Allir eru gæddir skynsemi og samvisku, og ber að breyta bróðurlega hverjum við annan.

  1. grein

Allir eiga kröfu á réttindum þeim og því frelsi, sem fólgin eru í yfirlýsingu þessari, og skal þar engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna. Eigi má heldur gera greinarmun á mönnum fyrir sakir stjórnskipulags lands þeirra eða landsvæðis, þjóðréttarstöðu þess eða lögsögu yfir því, hvort sem landið er sjálfstætt ríki, umráðasvæði, sjálfstjórnarlaust eða á annan hátt háð takmörkunum á fullveldi sínu.

  1. grein

Allir eiga rétt til lífs, frelsis og mannhelgi.

  1. grein

Engum skal haldið í þrældómi eða þrælkun. Hvers konar þrældómur og þrælaverslun skulu bönnuð.

  1. grein

Enginn skal sæta pyndingum, grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

  1. grein

Allir eiga rétt á viðurkenningu að lögum, hvar í heimi sem er.

  1. grein

Allir skulu jafnir fyrir lögunum og eiga rétt á jafnri vernd þeirra, án nokkurrar mismununar. Ber öllum jafn réttur til verndar gegn hvers konar mismunun, sem í bága brýtur við yfirlýsingu þessa, svo og gagnvart hvers konar áeggjan til slíkrar mismununar.

  1. grein

Hver sá sem sætir meðferð sem brýtur í bága við grundvallarréttindi þau, sem tryggð eru í stjórnarskrá eða lögum, skal eiga rétt á raunhæfu úrræði fyrir lögbærum dómstólum landsins.

  1. grein

Enginn skal að geðþótta handtekinn, sviptur frelsi eða gerður útlægur.

  1. grein

Allir skulu jafnir fyrir dómstólum og njóta réttlátrar, opinberrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómi, þegar skorið er úr um réttindi þeirra og skyldur eða sök sem þeir eru bornir um refsivert brot.

  1. grein
  2. Hvern þann, sem borinn er sökum fyrir refsivert brot, skal telja saklausan, uns sekt er sönnuð að lögum í opnu réttarhaldi, enda hafi verið tryggð öll nauðsynleg úrræði til að halda uppi vörnum.
  3. Engan skal telja sekan um refsivert brot, vegan athafnar eða athafnaleysis sem var refsilaust að landslögum eða þjóðarétti, þegar athöfnin eða athafnaleysið átti sér stað. Eigi má heldur dæma neinn til þyngri refsingar en lög þá leyfðu.
  4. grein

Eigi má að geðþótta raska einkalífi, fjölskyldulífi, heimili eða bréfaskriftum nokkurs einstaklings, né heldur ráðast á æru hans eða mannorð. Ber öllum lagavernd gagnvart slíkum afskiptum eða árásum.

  1. grein
  2. Allir skulu frjálsir ferða sinna og dvalar innan landamæra hvers ríkis.
  3. Allir skulu eiga rétt til að fara af landi burt, hvort sem er af sínu landi eða öðru, og eiga afturkvæmt til heimalands síns.
  4. grein
  5. Allir eiga rétt til að leita og njóta griðlands erlendis gegn ofsóknum.
  6. Enginn má þó skírskota til slíkra réttinda, sem lögsóttur er með réttu fyrir ópólitísk afbrot eða háttsemi, er brýtur í bága við markmið og grundvallarreglur Sameinuðu þjóðanna.
  7. grein
  8. Allir hafa rétt til ríkisfangs.
  9. Engan má að geðþótta svipta ríkisfangi eða rétti til þess að skipta um ríkisfang.
  10. grein
  11. Fulltíða konur og karlar hafa rétt til að ganga í hjónaband og stofna fjölskyldu, án tillits til kynþáttar, þjóðernis eða trúarbragða. Þau skulu njóta jafnréttis við stofnun og slit hjúskapar, svo og í hjónabandinu.
  12. Til hjúskapar skal ekki stofnað nema með frjálsu og fullu samþykki hjónaefna.
  13. Fjölskyldan er í eðli sínu frumeining samfélagsins og ber samfélagi og ríki að vernda hana.
  14. grein
  15. Öllum skal heimilt að eiga eignir, einum sér eða í félagi við aðra.
  16. Enginn skal að geðþótta sviptur eign sinni.
  17. grein

Allir skulu frjálsir hugsana sinna, samvisku og trúar. Felur sá réttur í sér frelsi til að skipta um trú eða sannfæringu og enn fremur frelsi til að rækja trú sína eða sannfæringu einslega eða með öðrum, opinberlega eða í einrúmi, með boðun, breytni, tilbeiðslu og helgihaldi.

  1. grein

Allir skulu frjálsir skoðana sinna og að því að láta þær í ljós. Felur sá réttur í sér frelsi til að hafa skoðanir óáreittur og að leita, taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum með hverjum hætti sem vera skal og án tillits til landamæra.

  1. grein
  2. Allir hafa rétt til að koma saman með friðsömum hætti og mynda félög með öðrum. 2. Engan má skylda til að vera í félagi.
  3. grein
  4. Allir hafa rétt til að taka þátt í stjórn lands síns, beint eða með því að kjósa til þess fulltrúa í frjálsum kosningum.
  5. Allir eiga jafnan rétt til þess að gegna opinberum störfum í landi sínu.
  6. Vilji þjóðarinnar skal vera grundvöllur að valdi ríkisstjórnar. Skal hann látinn í ljós með reglubundnum, óháðum og almennum kosningum, enda sé kosningarréttur jafn og leynileg atkvæðagreiðsla viðhöfð eða jafngildi hennar.
  7. grein

Allir þjóðfélagsþegnar skulu fyrir atbeina hins opinbera eða á grundvelli alþjóðasamstarfs, og í samræmi við skipulag og bjargráð hvers ríkis, eiga rétt á félagslegu öryggi og þeim efnahagslegu, félagslegu og menningarlegu réttindum, sem eru nauðsynleg til þess að virðing þeirra og þroski fái notið sín.

 

  1. grein
  2. Allir eiga rétt til atvinnu að frjálsu vali, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða og til verndar gegn atvinnuleysi.
  3. Allir skulu, án nokkurrar mismununar, eiga rétt á sömu launum fyrir sömu störf.
  4. Allir sem vinnu stunda, skulu bera úr býtum sanngjarnt og hagstætt endurgjald, er tryggi þeim og fjölskyldum þeirra mannsæmandi lífskjör. Þeim ber og önnur félagsleg vernd, ef þörf krefur.
  5. Allir hafa rétt til að stofna stéttarfélög og ganga í þau til verndar hagsmunum sínum.
  6. grein

Allir hafa rétt til hvíldar og tómstunda, og telst þar til hæfileg takmörkun vinnutíma og reglubundið orlof á launum.

  1. grein
  2. Allir eiga rétt á lífskjörum sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra. Telst þar til fæði, klæði, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg félagsleg þjónusta, svo og réttur til öryggis vegna atvinnuleysis, veikinda, fötlunar, fyrirvinnumissis, elli eða annars sem skorti veldur og menn geta ekki við gert. 2. Mæðrum og börnum ber sérstök vernd og aðstoð. Öll börn, hvort sem þau eru fædd innan eða utan hjónabands, skulu njóta sömu félagslegu verndar.
  3. grein
  4. Allir eiga rétt til menntunar. Skal hún veitt ókeypis, að minnsta kosti á grunnskóla- og undirstöðustigum. Grunnskólamenntun skal vera skylda. Starfsmenntun og sérmenntun skal standa öllum til boða og háskólamenntun vera öllum jafnfrjáls á hæfnisgrundvelli.
  5. Menntun skal beina í þá átt að þroska persónuleika einstaklinganna og auka virðingu fyrir mannréttindum og grundvallarfrelsi. Hún skal miða að því að efla skilning, umburðarlyndi og vináttu meðal allra þjóða, kynþátta og trúarhópa og að styrkja starf Sameinuðu þjóðanna í þágu friðar.
  6. Foreldrar skulu öðrum fremur ráða hverrar menntunar börn þeirra skuli njóta.
  7. grein
  8. Öllum ber réttur til þess að taka frjálsan þátt í menningarlífi samfélagsins, njóta lista, eiga þátt í framförum á sviði vísinda og verða aðnjótandi ábata er af þeim leiðir. 2. Allir skulu njóta verndar þeirra hagsmuna, í andlegum og efnalegum skilningi, er leiðir af vísindaverki, ritverki eða listaverki, sem þeir eru höfundar að.
  9. grein

Allir hafa rétt til þess samfélags- og alþjóðaskipulags, er hrindi að fullu í framkvæmd þeim réttindum og því frelsi sem í yfirlýsingu þessari eru upp talin.

 

  1. grein
  2. Allir hafa skyldur við samfélagið, enda getur það eitt tryggt fullan og frjálsan persónuþroska einstaklingsins.
  3. Við beitingu réttinda sinna og frelsis, skulu allir háðir þeim takmörkunum einum sem settar eru með lögum í því skyni að tryggja viðurkenningu á og virðingu fyrir réttindum og frelsi annarra og til þess að fullnægja réttlátum kröfum um siðgæði, almannareglu og velferð almennings í lýðfrjálsu þjóðfélagi.
  4. Réttindum þessum og frelsi má aldrei beita þannig, að í bága fari við markmið og grundvallarreglur Sameinuðu þjóðanna.
  5. grein

Ekkert í yfirlýsingu þessari má túlka á þann veg að nokkru ríki, hópi eða einstaklingi sé heimilt að aðhafast nokkuð það er stefni að því að gera að engu einhver þau réttindi eða frelsi sem hér hafa verið upp talin.

Sjá einnig hér og  hér.

 

Um SÞ

Mannréttindayfirlýsingin