Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna segir það áfall að Bandaríkin sniðgangi kynþáttaráðstefnu

Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna segir það áfall að Bandaríkin sniðgangi kynþáttaráðstefnu 

Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna segist harma ákvörðun Bandaríkjanna um að sækja ekki alþjóðlega ráðstefnu gegn kynþáttahatriði sem hefst í dag. Mannréttindafulltrúinn, Navi Pillay, hvetur ríki til að breyta áherslum sínum og taka baráttuna gegn kynþáttahatri fram yfir dægurpólitík. 

Tákn kynþáttaráðstefnunnar sem kennd er við endurskoðun Durban samkomulagsins frá 2001.

Ákvörðun Bandaríkjanna var tekin skömmu eftir að samkomulag náðist um uppkast að lokaályktun svokallaðrar Durban endurskoðunarráðstefnu í Genf. 
“Ég tel það áfall og mikil vonbrigði að Bandaríkin skuli ákveða að sniðganga ráðstefnu sem hefur að markmiði að berjast gegn kynþáttahatri, útlendingahatri, mismunun á grundvelli kynþáttar og hvers kyns skorti á umburðarlyndi um allan heim,” sagði Pillay.   

Hún lagði áherslu á að hægt hefði verið að koma til móts við sjónarmið Bandaríkjanna.  
“Það hefði auðveldlega mátt skýra í neðanmálsgrein að Bandaríkin hefðu ekki staðfest upphaflega skjalið og gæti því ekki ítrekað staðfestingu sína. Slíkt er alvanalegt í milliríkjaviðræðum í því skyni að varðveita einhug en leyfa einstökum ríkjum að tjá sérstöðu sína,” benti Pillay á. “Og þá hefðum við getað haldið áfram og skilið við vandamálin frá 2001.”

Í yfirlýsingu Bandaríkjanna kemur fram að þau geti trauðla samþykkt ákvæði ályktunarinnar um hatursfullan undirróður. Engu að síður er þetta hugtak vel þekkt í Alþjóðasáttmálanum um borgaraleg og pólitísk réttindi (International Covenant on Civil and Political Rights (ICCPR)).

Þessu ákvæði var ætlað, að sögn Mannréttindafulltrúans, að banna “hatursáróður af því tagi sem áróðursvél nasista notaði á fjórða og fimmta áratugnum.”

Þörf á slíku samkomulagi hefði berlega komið í ljós þegar fjölmiðlar og stjórnmálamenn sköpuðu það andrúmsloft sem leiddi til þjóðarmorðsins í Rúanda fyrir fimmtán árum í þessum mánuði. Þá voru 800 þúsund Tútsar og hófsamir Hútúar brytjaðir niður með sveðjum á aðeins eitt hundrað dögum.

Samkvæmt fréttum nokkura fjölmiðla á ákvörðun Bandaríkjanna um að sniðganga ráðstefnuna rætur að rekja til þess að enn sé vikið að ófrægingu trúarbragða og finna megi dæmi gyðingahaturs í lokaskjalinu. Pillay segir ekkert slíkt sé að finna í uppkastinu sem samþykkt var í síðustu viku.
Hún benti á að skýrt sé tekið fram að “helförin megi aldrei gleymast”, og harmi hvers kyns skort á umburðarlyndi, þar á meðal andúð á íslemskri trú og gyðingdómi. 

Nærri fjögur þúsund manns, þar á meðal Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hafa skráð sig til þátttöku í vikulangri ráðstefnunni í Genf, þar á meðal fulltrúar 100 aðildarríkja SÞ og fulltrúar 2500 frjálsra félagasamtaka.