Gasasvæðið. Mannfall. Fjöldi látinna í átökunum á Gasasvæðinu er enn rúmlega 35 þúsund að sögn talsmanns Sameinuðu þjóðanna, þrátt fyrir misvísandi tölur frá heilbrigðisráðuneyti Hamas. Ísraelar höfðu gripið á lofti nýjar tölur þaðan sem virtust benda til að mannfallið væri minna en talið hefði verið.
Farhan Haq talsmaður Sameinuðu þjóðanna segir skýringuna þá að heilbrigðisráðuneytið hefði birt tölur yfir þá sem hefði tekist að nafngreina, eða rétt tæplega 25 þúsund manns. Tíu þúsund til viðbótar hefðu ekki endanlega verið nafngreindir, margir eru í fjöldagröfum og aðrir grafnir undir rústum. Heildartalan; yfir 35 þúsund látnir, hefði því ekki breyst.
Sameinuðu þjóðirnar hafa frá upphafi hinnar banvænu árásar Hanas á Ísrael 7.október notað tölur um mannfall frá heilbrigðisráðuneyti Gasasvæðisins, en bent á að ókleift væri að staðfesta þær
Tíu þúsund vantaldir
Í síðustu viku greindi heilbrigðisráðuneytið frá fjölda þeirra sem tekist hefði að nafngreina og lýsa formlega látna. Þetta var hins vegar ekki heildartala og ósamanburðarhæf við fyrri tölur.
Sameinuðu þjóðirnar segja að hvorki heildarfjöldinn né hlutfall barna og kvenna hafi lækkað. Miðað við aldurs- og kyndreifingu þeirra sem hafa verið nafngreindir má gera ráð fyrir að hlutfall kvenna og barna sé enn um 60%.
Hlutfall kvenna og barna kann þó að vera hærra
Christian Lindmeier talsmaður Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) benti á á blaðamannfundi í Genf að hlutfall kvenna og barna sem grafist hefðu undir hrundum húsum væri hugsanlega hærra því þau væru oftar heima við á meðan karlarnir færu út að leita matar og lífsviðurværis fyrir fjölskyldur.
Loks var skýrt frá því að starfsmaður öryggismálsdeildar Sameinuðu þjóðanna hefði drepinn og annar særður þegar skotið var á bíl hans á leið frá Rafah til Khan Younis á Gasasvæðinu í gær.
UNRWA, Palestínu-flóttamannahjálpin, telur að 450 þúsund Palestínumenn, sem flúið höfðu til borgarinnar Rafah, hafi nú orðið að flýja annað vegna árása Ísraelshers.
Sjá einnig hér.