9.1 Þróaðir verði traustir innviðir, sjálfbærir og sveigjanlegir, hvort sem er staðbundnir eða yfir landamæri, í því skyni að styðja við efnahagsþróun og velmegun þar sem lögð verði áhersla á jafnt aðgengi á viðráðanlegu verði fyrir alla.
9.2 Stuðlað verði að sjálfbærri iðnþróun fyrir alla og eigi síðar en árið 2030 hafi hlutur iðnaðar í atvinnulífi og vergri landsframleiðslu aukist verulega í ljósi aðstæðna heima fyrir og tvöfaldast í þeim þróunarlöndum sem skemmst eru á veg komin.
9.3 Aukið verði aðgengi lítilla iðnfyrirtækja og annars konar fyrirtækja, einkum í þróunarlöndum, að fjármálaþjónustu, meðal annars að hagstæðum lánum. Einnig verði þáttur þeirra í verðmætakeðjum og á mörkuðum aukinn.
9.4 Eigi síðar en árið 2030 verði innviðir styrktir og atvinnugreinar endurskipulagðar til að gera þær sjálfbærar, nýting auðlinda verði skilvirkari og í auknum mæli innleiði hvert og eitt land tækni og umhverfisvæna verkferla eftir getu.
9.5 Vísindarannsóknir verði efldar og tæknigeta atvinnugreina í öllum löndum endurbætt, þar á meðal í þróunarlöndum. Eigi síðar en árið 2030 verði ýtt undir nýsköpun og fjölgað störfum við rannsóknir og þróun fyrir hverja milljón íbúa, auk þess sem útgjöld til rannsókna og þróunar hins opinbera og einkageirans verði aukin.
9.a Stuðlað verði að sjálfbærri uppbyggingu innviða í þróunarlöndum með sveigjanleika að viðmiði, auknum fjárhagsstuðningi og tæknilegum stuðningi við Afríkuríki, þróunarlönd sem eru skemmst á veg komin, landlukt þróunarlönd og þróunarlönd sem eru smáeyríki.
9.b Stutt verði við tækniþróun, rannsóknir og nýsköpun í þróunarlöndum, meðal annars með því að festa í sessi stefnumótandi umhverfi sem stuðlar til dæmis að fjölbreyttu atvinnulífi og virðisauka.
9.c Aðgengi að upplýsinga- og fjarskiptatækni verði aukið verulega og lagt kapp á að almenningur hafi aðgang að netinu á viðráðanlegu verði í þeim þróunarlöndum sem eru skemmst á veg komin.