7.nóvember 2016. Daninn Jens Lærke er fyrrverandi lausamaður í blaðamennsku og almannatengill í Afríku, en frá 2004 hefur hann starfað fyrir Sameinuðu þjóðirnar. Fyrst var hann í Afríku og Mið-Austurlöndum og inn á milli í Asíu og í skamman tíma í Kosovo. Lærke er nú talsmaður Samræmingarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) í Genf í Sviss.
Hann er Norðurlandabúinn á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í Norræna fréttabréfi UNRIC í nóvembermánuði.
En hvernig byrjaði sá ferill?
„Ég byrjaði í Kinshasa í Kongó snemma árs 2004 stuttu eftir að friðarsamkomulag tókst eftir langvinnt borgarastríð. Ég bar ábyrgð á upplýsingagjöf í teymi sem vann að afvopnun, upplausn vígasveita og endurkomu vígamanna í raðir óbreyttra borgara. Fjöldinn allur af vígasveitum höfðu barist á banaspjót aðallega í norðausturhluta Kongóg undir forystu stríðsherra sem voru meira eða minna glæpamenn. Ég þurfti að sinna samskiptum og upplýsingagjöf til þeirra sem létu fé af hendi rakna til þess að stilla til friðar, til almannasamtaka sem við störfuðu með, ríkisstjórnarinnar og svo síðast en ekki síst vígamannanna. Við þurftum að sannfæra þá, meðal annars barnahermenn, um að leggja niður vopn, yfirgefa vígasveitirnar og snúa aftur til síns fólks. Þetta var gert í krafti ýmiss konar þróunarverkefna.
Hvað hefur reynt mest á í þínu starfi hjá Sameinuðu þjóðunum?
„Ég hef nánast eingöngu fengist við upplýsingastarf á átakasvæðum en einnig vegna náttúruhamfara. Í vinnu af þessu tagi reynir maður á eigin skinni margt af því versta sem manneskjur geta gert hver annari en líka sumu af því besta sem við getum gert fyrir hvert annað. Þessar öfgakennd aðstæður snerta grundvallar mannleg gildi og snúast um virðingu fyrir hinu mannlega, réttlæti, mannréttindum, samstöðu og stundum hreinlega að lifa af. Og þar að auki þarf að takast á við neikvæðar tilfinningar og aðstæður; ótta og hatur á öllum öðrum, nísku, kúgun og óréttlæti.
Það sem mér hefur gramist mest og það hefur reynt mest á mig, er að upplifa skeytingarleysi eða áhugaleysi fólks um hag annara. Fyrir mann eins og mig sem starfa við almannatengsl er það fagleg áskorun að vekja áhuga fólks, láta það skynja það sem er rétt og rangt og vekja það af værum blundi skeytingarleysins.”
Er eitthvað sér-danskt eða norrænt sem þú hefur upp að bjóða í þínu starfi?
„Auðvitað tekur maður eftir ýmsu sérstöku í eign fari þegar maður er lengi í einu að heiman, en það er erfitt að segja til um hvort gildi manns og sannfæring eiga rætur að rekja til þjóðernisins, uppeldis, stéttar, kynþáttar, trúar eða einhvers annars. Ég held þó að danskt þjóðerni mitt skín í gegn í afstöðu minni til jafnréttis kynjanna. Ég get orðið mjög reiður ef ég verð var við að stúlkur eða konur sæta mismunun vegna kynferðis. Að þessu leyti tel ég að Norðurlöndin hafi gengið í gegnum byltingu – sem er vissulega ekki lokið – á meðan þessi þróun er varla byrjuðu víða annars staðar. “
(Birtist fyrst í Norræna fréttabréfi UNRIC, október-nóvember 2016 https://www.unric.org/is/frettabref.)