Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Poznan hefst á mánudag

Tveggja vikna loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna hefst í Poznan í Póllandi mánudaginn 1. desember. Þetta er fjórtánda ráðstefna hundrað níutíu og tveggja aðila að Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (UNFCCC) og jafnframt fjórði fundur hundrað áttatíu og þriggja aðila að Kyoto-bókuninni.

Viðræður um nýjan loftslagssáttmála hófust af alvöru í Bali fyrir ári og er stefnt að því að nýr sáttmáli verði undirritaður að ári í Kaupmannahöfn. Tíminn til að ljúka samningnum er því hálfnaður. Nýr sáttmáli á að taka gildi 2013 þegar fyrstu liðir Kyoto-bókunarinnar renna út.

Búist er við níu þúsund þátttakendum á ráðstefnuna í Poznan frá 185 aðiljum UNFCCC auk fulltrúa atvinnulífs, iðnfyrirtækja, umhverfisverndarsamtaka og rannsóknarstofnana.

 

 Forsætisráðherrar Póllands og Danmerku,  Donald Tusk og Anders Fogh Rasmussen. verða viðstaddir opnunina á mánudag. Hundrað og fimmtíu umhverfisráðherrar taka síðan þátt í lokahrinu viðræðnanna sem Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sækir, 11. til 12. desember.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra verður fulltrúi ríkisstjórnar Íslands  í lokahrinu viðræðnanna en fulltrúar frá umhverfis-, iðnaðar og utanríkisráðuneytum, samtökum atvinnulífsins og náttúruverndarsamtaka sækja einnig ráðstefnuna.

Eitt helsta viðfangsefni ráðstefnunnar verður að koma á fót ferli til þess að fjármagna aðgerðir, koma tækni og kunnáttu á framfæri til að draga úr losun; efla grænan hagvöxt og takast á við óumflýjanlegar afleiðingar loftslagsbreytinga. Tæknimálefni verða einnig ofarlega á blaði auk þess sem áætlanir sem miða að því að stjórna og draga úr áhættu, verða brotnar til mergjar. 

Búist er við að á ráðstefnunni verði smiðshöggið rekið á aðlögunarsjóð Kyoto-bókunarinnar með það fyrir augum að hann geti styrkt verkefni strax á næsta ári. 

Yvo de Boer, forstjóra UNFCCC og Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri SÞ.

“Það hefur aldrei verið brýnna að ná raunverulegum árangri í baráttunni gegn loftslagsbreytingum,” segir Yvo de Boer, forstjóri UNFCCC. “Afleiðingar loftslagsbreytinga sem vísindamenn hafa skilgreint, herja nú þegar á þá sem standa höllustum fæti. Þeir bíða þess í ofvæni að gengið verði frá fjárhagslegum og tæknilegum úrræðum til að takast á við afleiðingarnar.” 

De Boer varaði sérstaklega við því að ráðamenn létu alþjóðlegu fjármálakreppunna dreifa athygli sinni frá baráttunni gegn loftslagsbreytingum. “Við verðum nú að einbeita okkur að grænum hagvexti sem getur verið leið alþjóða efnahagskerfisins í átt til stöðugleika og sjálfbærni.”
Sjá upplýsingar fyrir fjölmiðla á heimasíðu UNFCCC. http://unfccc.int/meetings/cop_14/press/items/4496.php

Nánari upplýsingar veitir Árni Snævarr, upplýsingafulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum sem verður í Poznan 9. til 12. desember. Snaevarr@unric.org; 0032-497458088