Loftslagsbreytingar. COP28. Hitamet í heiminum hafa verið slegin hvað eftir annað og nú í árslok hitnar undir stjórnarerindrekum sem koma saman á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Hún mun standa yfir í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum frá 30.nóvember til 12.desember. Markmiðið er að kortleggja framhaldið í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
Ráðstefnan er haldin á þýðingarmiklu augnabliki í loftslagsaðgerðum.
Simon Stiell forstjóri Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna skrifar í kjallaragrein að líklega verði yfirstandandi ár „það heitasta í 125 þúsund ár.“
„Ekki er hægt að skrúfa fyrir krana og hætta notkun jarðefnaeldsneyti í einu vetfangi. Hins vegar eru mörg tækifæri til aðgerða enn ónotuð. Sem dæmi má nefna þá voru 7 trilljónir dala sóttir í vasa skattgreiðenda eða sparnað þeirra til að fjármagna niðurgreiðslur á jarðefnaeldsneyti,“ skrifar Stiell í grein, sem meðal annars birtist á visir.is.
Af hverju er COP28 svo mikilvæg?
Á COP28 gefst tækifæri til að leggja kalt mat á staðreyndir. Þar verður til umfjöllunar nákvæmt yfirlit (svokallað ”Global Stocktake”) um hversu langt heimurinn er kominn í baráttunni við loftslagsbreytingar og hve mikið þarf að leiðrétta kúrsinn.
Frá því Parísarsamkomulagið var undirritað á COP21 árið 2015 hafa loftslagsráðstefnur snúist um hvernig hrinda beri í framkvæmd helsta markmiðinu: að halda meðalhlýnun jarðar innan við 2°C. Jafnframt að halda áfram viðleitni til að takmarka hlýnunina við 1.5°C miðað við upphaf iðnbyltingar.
Alheims-úttektin er ferli sem er hannað til að skilgreina hvað ber að gera. Hún á að vera ríkjum leiðarvísir í átt til metnaðarfyllri og skjótari loftslagsaðgerða.
Árið 2020 sömdu hvert ríki fyrir sig landsáætlanir um loftslagsaðgerðir. Þær miðuðu að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auk aðlögunar að afleiðingum loftslagsbreytinga.
Uppfæra ber landsáætlanir 2025 og niðurstöður alheims-úttektarinnar kunna að verða einstökum ríkjum hvatning til að auka metnaðinn og setja ný markmið til viðbótar við núverandi stenfumörkun og skuldbindingar.
Hvað er í húfi?
Hreint út sagt er heilbrigði plánetunnar okkar og velferð mannkynsins í húfi.
„Suðurskautslandið hefur verið kallað sofandi risi, en nú er hann að vakna vegna loftslagsringulreiðarinnar,“ sagði António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Hann heimsótti Suðurskautslandið um síðustu helgi í aðdraganda COP28.
Hafís við Suðurskautslandið hefur aldrei verið minni. Nýjar tölur frá septembermánuði sýna að hann þakti 1.5 milljón ferkílómetra minna svæði en að jafnaði á þessum árstíma. Það er „um það bil samanlögð stærð Portúgals, Spánar, Frakklands og Þýskalands,“ sagði Guterres.
„Allt er þetta reiðarslag fyrir fólk hvar sem það býr í heiminum.“
2023 er á leið með að verða heitasta ár sem um getur. Þá hafa undanfarin átta ár verið átta heitustu ár frá því mælingar hófust sökum uppsöfnunar gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu og hitaaukningar í kjölfarið.
Guterres hefur varað við því ítrekað að ef ekki verði að gert, muni hitastig á jörðinni hafa hækkað um 3 °C en slíkt hefði í för með sér hættuástand og óstöðugleika í heiminum.
„Mannkynið hefur hrundið upp dyrum helvítis. Óbærilegur hiti mun hafa óbærilegar afleiðingar,“ sagði hann.
Hvað er átt við með öflugri loftslagsaðgerðum?
Dómur vísindanna er afdráttarlaus: það er hægt að afstýra 1.5°C hækkun hitastigs og þar með verstu afleiðingum loftslagsbreytinga. Til að svo megi verða þarf að grípa til tafarlausra og róttækra loftslagsaðgerða. Þar á meðal þarf:
- 45% minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 miðað við árið 2010.
- Að ná núll nettó-losun fyrir 2050.
- Að stuðla að „réttlátum og jöfnum umskiptum“ frá jarðefnaeldsneyti (olía og gas) í endurnýjanlega orkugjafa
- Að auka fjárfestingar í aðlögun og viðnámi við loftslagsröskun.
En meira þarf til. Uppfylla þarf fjárhagslegar skuldbindingar í þágu þróunarríkja og tryggja 100 milljarða Bandaríkjadala framlög til loftslagsfjármögnunar árlega. Hleypa þarf af stokkunum sjóði vegna taps og tjóns, samkvæmt samkomulagi um loftslagsréttlæti á COP27 ráðstefnunni.
Staðan er hins vegar sú að samkvæmt skýrslu Loftslagsstofnunar Sameinuðu þjóðanna um fyrirliggjandi landsáætlanir eru fyrirhugaðar aðgerðir ekki fullnægjandi tili að ná tökum á loftslagsvánni.
Hvernig er hægt að fylgjast með COP28?
Hægt er að fylgjast með gangi mála á COP28 í Dubai með því að smella á þessar krækjur: