8.júní 2016. Franska verðlaunamyndin ,,Á morgun“ (Demain) var sýnd í gær í Bíó Paradís í tilefni af Aþjóða umhverfisdeginum.
Aðsókn var mjög góð og urðu líflegar umræður um efni myndarinnar og tóku þátt í þeim Áslaug Guðrúnardóttir, höfundur bókar um minimalískan lífsstíl, Ragna Benedikta Garðarsdóttir, sálfræðingur sem rannsakað hefur hegðun fólks andspænis loftslagsbreytingum og Guðni Jóhannesson, orkumálastjóri. Umræðum stjórnaði Hrönn Sveinsdóttir, forstjóri Bío Paradísar. Franski sendiherrann, Philippe O´Quin flutti aðfararorð. Á meðal gesta voru Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands og Birgitta Jónsdóttir, alþingismaður en hún kemur fram í myndinni.
Að sýningu myndarinnar stóðu UNRIC, Upplýsingaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna, Franska sendiráðið, Utanríkis- og umhverfisráðuneyti og Félag sameinuðu þjóðanna auk Bíó Paradísar.
Visir.is birti í gær eftirfarandi grein eftir Árna Snævarr, upplýsingafulltrúa UNRIC undir fyrirsögninni ,,Hættum að víða eftir pólitíkusum“ og fjallar um efni myndarinnar:
Hvernig væri ef einhver tæki sig nú til og sýndi okkur allt það sem verið væri að gera heiminum til gagns í stað þess að klifa á heimsósóma á borð við fátækt, hungur, ofneyslu og ójöfnuð?
Þetta er hugmyndin að baki heimildamyndinni Demain, „ Á morgun“- sem hefur slegið í gegn víða um heim, og átt þátt í að koma af stað hreyfingu venjulegs fólks, sem vill ekki sitja auðum höndum á meðan heimurinn virðist vera að fara til andskotans. Meir en ein milljón manna sá myndina í heimalandi hennar Frakklandi og 150 þúsund manns fylgjast með Facebooksíðu hennar.
Myndin verður sýnd á sérstakri sýningu í Bíó Paradís í tilefni af Alþjóðlegum degi umhverfisins 7.júní og hafa Sameinuðu þjóðirnar, utanríkisráðuneytið og franska sendiráðið tekið höndum saman um þetta verkefni. Umræður verða að lokinni myndinni.
Myndin var frumsýnd á Loftslagsráðstefnunni COP21 í lok síðasta árs og var valin besta heimildarmynd ársins í Frakklandi.
Jákvæðar lausnir
Segja má að sú leið sé farin í myndinni að í stað þess að sýna allt sem miður fer og hvað sé hugsanlega hægt að gera, séu leitaðar uppi jákvæðar lausnir og það sem best er gert í heiminum.
Farið er um allan heim í leit að dæmum um það sem vel er gert og þar á meðal komið við á Íslandi. Boðið er upp á ýmsar sjálfbærar lausnir og valkosti og hefur verið haft á orði að bókin sé eins og handbók eða leiðarvísir um Sjálfbæra þróun.
Og í stað þess að bíða eftir því að ríkisstjórnir hefjist handa við að hrinda í framkvæmd Sjálfbærum þróunarmarkmiðum sem aðildarríki Sameinuðu þjóðanna samþykktu síðastliðið haust, er leitað í smiðju grasrótarinnar.
„Það er kominn tími til að við hættum að bíða eftir þvið að leiðtogar komi með lausnirnar færandi hendi,” sagði leikstjórinn Cyril Dion í viðtali.
„Ef eitthvað á að breytast verður fólkið sjálft að fylkja liði og skapa þrýsting á kjörna fulltrúa og við þurfum líka nýja fulltrúa sem þoka hugmyndum morgundagsins fram á við.“
Fram kemur í máli margra að vandamál heimsins séu svo stór og svo mörg að fólk verði brjálað af því að brjóta heilann um þau og fyllist vanmáttarkennd. Af þessum sökum sé líklegra til árangurs að hluta vandamálin niður og leita að staðbundnum lausnum á hverju fyrir sig. Þetta má gera á ýmsan hátt en á vefsíðu kvikmyndarinnar hafa verið tekin saman fimm góð ráð, sem ríma býsna vel við ráð Sameinuðu þjóðanna um hvernig letingjar geti bjargað heiminum!
Sem dæmi má nefna að borða minna kjöt og velja helst mat úr heimahéraði, borða lífrænt ræktað, nota endurnýjanlega orku, versla hjá kaupmanninum á horninu og sjálfstæðum verslunum, að ekki sé minnst á að gera við í stað þess að henda, endurnýta og minnka neyslu
„Almenningur er til í að gera eitthvað. Við höfum heyrt talað í áratugi sem alla þess óáran, en aðgerða er þörf!”, segir Dion leikstjóri.
„Kreppunum fjölgar sífellt. Við heyrum í síbylju um atvinnuleysi, öfgastefnur, lýðskrum og hryðjuverk og það er mikil þörf á vonarglætu um framtíðina, að geta sagt sér sjálfum að allt sé ekki unnið fyrir gýg, að enn sé von.”
http://www.visir.is/haettum-ad-bida-eftir-politikusum/article/2016160609303