Þúsundir Líbana og Sýrlendinga hafa flúið til Sýrlands í örvæntingu í kjölfar loftárása Ísraels á Líbanon. UNHCR, Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur aukið aðstoð sína við uppflosnað fólk.
Að sögn líbanskra yfirvalda hafa rúmlega 27 þúsund manns flúið heimili sín á nokkrum sólarhringum og fjölgar á hverri mínútu. Áður höfðu rúmlega 110 þúsund flúið að heiman frá í október.
558 létust, þar af 50 börn og 1838 særðust á mánudag í hefndarárásum Ísraels eftir eldflaugaárásir Hesbolla samtakanna.
Hundruð bifreiða hafa beðið í röð við sýrlensku landamærin. Margir eru einnig fótgangandi og bera þær eigur sem þeir geta. Fjöldi fólks, þar á meðal konur og ungabörn eru á meðal þeirra sem eru í biðröð. Fólkið hefur orðið að finna sér náttstað utandyra en hitastig fer lækkandi. Sumir eru særðir eftir loftárásirnar.
Vernda ber óbreytta borgara
„Þessar blóðugu árásir hafa tekið sinn toll og flæmt tugir þusunda frá heimilum sínum,“ segir Filippo Grandi, forstjóri Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR).
„Mið-Austurlönd mega ekki við enn einum flóttamannavanda. Það verður að vera forgangsatriði að vernda óbreytta borgara.”
UNHCR og samstarfsaðilar þeirra í sýrlenska Rauða hálfmánanum, eru í viðbragðsstöðu við landamærin og útvega fólkinu mat, vatn, teppi og dýnur. Milljónir manna í landinu þurfa á aðstoð að halda.
Líbanon má ekki verða annað Gasa
1.5 milljónir Sýrlendinga eru landflótta í Líbanon og rúmlega 11 þúsund frá öðrum ríkjum, auk palestínskra flóttamanna.
Antonio Guterres sagði í opnunarræðu sinni í almennum umræðum þjóðarleiðtoga hjá Sameinuðu þjóðunum að Líbanon „rambaði á barmi hengiflugs.”
Líbanska þjóðin og heimurinn allur „gætu ekki látið Líbanon verða að öðru Gasa.“