Heimsmarkmið um sjálfbæra þróun. Veraldarleiðtogar hafa samþykkt brýnar aðgerðir til að hrinda Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun í framkvæmd fyrir 2030. Leiðtogafundur um heimsmarkmiðin stendur yfir á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 18.-19.september og liggur pólitísk yfirlýsing fundarins þegar fyrir.
Leiðtogar aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna skuldbundu sig árið 2015 í sögulegri samþykkt að tryggja réttindi og velferð allra jarðarbúa í svokallaðri Áætlun 2030 (the 2030 Agenda) og 17 heimsmarkmiðum.

Heimsmarkmiðin í uppnámi
Hins vegar þegar framkvæmdatíminn er hálfnaður er ljóst að Heimsmarkmiðin eru í uppnámi. Tugir milljóna hafa orðið örbirgð að bráð frá 2020. Rúmlega 110 milljónum manna hefur verið stökkt á flótta með valdi. Ójöfnuður hefur aukist, sérstaklega þegar konur og stúlkur eru annars vegar.

Mörgum ríkisstjórnum er nauðugur einn kostur að velja á milli þess að standa skil á lánum og fjárfesta í heilsugæslu og menntun. Loftslagshamfarir valda miklum búsifjum. Þróunarríkin og fátækasta fólk heims, sem verður harðast fyrir barðinu á þessu getur ekki haldið áfram að bera þyngstu byrðarnar.
„Heimsmarkmiðin eru ekki bara listi yfir markmið. Þau fela í sér vonir, drauma, réttindi og væntingar fólks um allan heim,“ sagði António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ræðu á leiðtogafundinum „Samt sem áður eru aðeins 15% markmiðanna á áætlun. Á sumum sviðum hefur orðið afturför. Í stað þess að skilja engan eftir, er hætt við því að Heimsmarkmiðin verði skilin eftir.“

Stjórnmálayfirlýsing
Leiðtogarnir hafa samþykkt afdráttarlausa stjórnmálayfirlýsingu, þar sem aðgerðir eru efstar á blaði. Þar er áhersla á sameiginlegar skuldbindingar til að byggja sjálfbæran, velmegandi heim í allra þágu fyri 2030.
Í yfirlýsingunni er fjallað um framkvæmd og sérstaklega fjármögnun þróunar. Viðurkennt er að það þurfi heljarstökk í fjárfestingum ella verði markmiðunum ekki náð.

Enn er hvatt til þess í yfirlýsingunni að gripið verði til tafarlausra aðgerða til að hrinda í framkvæmd Hvataaðgerðum í þágu Heimsmarkmiðanna, en aðalframkvæmdastjórinn telur að til þess þurfi 500 milljarða Bandaríkjadali árlega. Í yfirlýsingunni er einnig tekið kröftuglega undir kröfur um endurskipulagningu alþjóðlegs fjármálakerfis til að endurspegla betur alþjóðlegan efnahag dagsins í dag.