Kurr yfir kynjahalla í umræðum á Allsherjarþinginu

Utanríkisráðherra Kína á leið í ræðustól
Wang Yi utanríkisráðherra Kína á leið í ræðustól.UN Photo: Felipe

Jafnréttismál. 79.Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.

Konur voru innan við tíu af hundraði ræðumanna í almennum umræðum ríkja heims á 79.Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. 

Nítján konur ávörpuðu Allsherjarþingið fyrir hönd þjóða sinni. Þar af voru fimm þjóðhöfðingjar, þrjár forystumenn ríkisstjórna og ellefu utanríkisráðherrar.

Allsherjarþingið fékk hins vegar að heyra í 175 körlum, þar á meðal 67 yfirmönnum ríkisstjórna og 47 þjóðhöfðingjum, auk utanríkisráðherra og fastafulltrúa.

Mia Amor Mottley forsætisráðherra Barbados
Mia Amor Mottley forsætisráðherra Barbados

Guterres: óásættanlegt

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna vakti athygli á þessum kynjahalla í opnunarræðu sinni í almennu umræðunum og sagði að þetta væri „óásættanlegt.“

„Mér þykir leitt að taka eftir því að eftir áralangar umræður, blasir kynjamisréttið við okkur í þessum fundarsal,“ sagði Guterres.

„Við höfum gripið til markvissra aðgerða til að ná kynjajöfnuði í æðstu forystusveit Sameinuðu þjóðanna. Það er hægt. Ég hvet pólítískar og efnahagslegar stofnanir, sem karlar drottna yfir, að fara að dæmi okkar.“

Á 79. Allsherjarþinginu.
Á 79. Allsherjarþinginu.

Ræðumenn hvetja til umbóta

Þetta ójafnvægi fór ekki framhjá ræðumönnum.

„Konur eru 50 prósent mannkyns, en samt sem áður eru innan við 10 prósent ræðumanna í þessari viku konur. Það er hægt að gera miklu betur,“ sagði Maria Malmer Stenergard utanríkisráðherra Svíþjóðar  í ræðu sinni í umræðunum.

Starfsystir hennar, Þórdís Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, gerði þetta einnig að umræðuefni og sagði: „Ég hélt við værum komin lengra en þetta.”

Auk aðildarríkja, ávarpa fulltrúar nokkurra heimshlutasamtaka á borð við Evrópusambandið, þingið, auk til dæmis Palestínu og Páfagarðs.

Annalena Baerbock utanríkisráðherra Þýskalands.
Annalena Baerbock utanríkisráðherra Þýskalands.

Enginn kvenkyns aðalframkvæmdastjóri

Það gera aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og foreti Allsherjarþingsins einnig. Engin kona hefur gegnt starfi aðalframkvæmdastjóra, en níu karlar hafa gert það hver á fætur öðrum frá stríðslokum og stofnun samtakanna. Fjórar konur hafa valist til forsætis Allsherjarþingsins en sjötíu og fimm karlar.

Pedro Sanchez forsætisráðherra Spánar hefur gengið fram fyrir skjöldu og krafist þess að konur veljist bæði í aðalframkvæmdastjórastöðuna og í forsæti Allsherjarþingsins næst. Eftir það skiptist karlar og konur á að gegna þessum æðstu stöðum Sameinuðu þjóðanna.