Loftslagsmál. 78. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tekur þátt fyrir Íslands hönd i leiðtogafundi metnaðar í loftslagsmálum í dag 20.september. Einungis ríkjum, sem hafa lýst sig fús til að bæta í aðgerðir gegn loftslagsmálum, er leyft að ávarpa fundinn.
Í gær, 19.september stýrði forsætisráðherra ásamt Filipe Nyusi, forseta Mósambík, hluta leiðtogafundarins þar sem fjallað var um mikilvægi þess að efla fjölþjóðasamvinnu til að styðja við aðgerðir til að ná heimsmarkmiðunum, fylgja þeim eftir og endurskoða. Forsætisráðherra lagði áherslu á skuldbindingar Íslands til að ná settum markmiðum og ítrekaði mikilvægi alþjóðasamvinnu til að takast á við alþjóðlegar áskoranir, að því er fram kemur í tilkynningu forsætisráðuneytisins.
Velsældarhagkerfið
Fyrr í gær flutti forsætisráðherra opnunarræðu á hliðarviðburði um velsældarhagkerfið á vegum norskra stjórnvalda, Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Þar gerði hún grein fyrir velsældaráherslum íslenskra stjórnvalda þar sem horft er til allra sviða samfélagsins. Velsældarhagkerfið sé mun betur til þess fallið til að takast á við loftslagsvandann en það efnahagskerfi sem við búum við í dag.
Þá átti forsætisráðherra fund með Feridun Sinirlioglu, sérstökum skýrsluhöfundi Sameinuðu þjóðanna um stöðuna í Afganistan, en hann mun skila skýrslu sinni um stöðu mannréttinda þar í landi á næstu vikum.
Sjá nánar um loftslagsfundinn hér.