Tæpu hálfu ári eftir komuna til Ísland hafa tuttugu nemendur fengið prófskírteini sín frá Alþjóðlega jafnréttisskólanum (GRÓ-GEST) við Hugvísindasvið Háskóla Íslands. Hér er um að ræða diplóma á meistarastigi í alþjóðlegum jafnfréttisfræðum og er námið sem áður var hluti af Háskóla Sameinuðu þjóðanna nú undir verndarvæng UNESCO, Mennta-, vísínda og menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna.
Tuttugumenningarnir, 6 karlar og 14 konur, komu til Íslands í svartasta skammdeginu en eru nú að búa sig til brottfarar heim á leið þegar bjartasti tími ársins fer í hönd.
COVID-19 hefur hins vegar sett strik í reikninginn og nú í byrjun júní eiga flestir í erfiðleikum með að finna flug til alls tíu heimalanda í þremur heimsálfum.
„Þessi önn hefur verið mjög óvenjuleg fyrir nemendurna,” segir dr Irma Erlingsdóttir forstöðumaður Jafnréttisskólans. „Þeir höfðu verið tvo mánuði að aðlagast óvenjulegu umvherfi þegar loka varð háskólanum um miðjan mars vegna COVID-19. Þau sýndu mikinn styrk, ákveðni og aðlögunarhæfni og luku námínu á tilsettum tíma.“
Erfitt að komast heim
„Ég veit ekki hvort ég fæ flug á morgun, hinn daginn eða hvenær það verður,“ sagði Fathuma Faleela Nadhiya Najab í viðtali við vefsíðu UNRIC. Í stað rúmlega þrjátíu fluga frá Keflavík eru nú flug til þriggja borga erlendis og ekki einu sinni daglega. Og að koma ölluu heim og saman við tengiflug til heimaborgar Nadhiya, eins og hún er oftast kölluð, í Colombo á Sri Lanka er ekki heyglum hent.
Samstúdent hennar Brenda Apeta frá Úganda glímir við sama vanda. „Ég veit enn ekki hvenær ég kemst heim,“ sagði hún í samtali við UNRIC. Á meðan skemmtir hún fjölskylduna heima með því að sýna þeim myndir af björtum sumarnóttum þegar rétt skyggir um miðnættið. Og víst er eyjan Ísland norður í Ballarhafi ólík hinu sólríka en landlukta heimalandi hennar Úganda.
„Við komuna var ég eintaklega spennt að sjá landið, en þegar ég kom út úr flugstöðinni feykti kaldur vindurinn mér næstum um koll og ég hljóp beint inn í bíl,“ sagði Brenda um komuna til Ísalnds 8.janúar. Þá var stundum eina birtan tunglskinið sem enduvarpaðist af drifhvítum snjónum.
Nadhiya stallsystir hennar frá Sri Lanka er kannski að grínast þegar hún segir helsta frek sitt á hálfu ári vera það að hafa aðeins einu sinni misst fótanna á svelli, en öllu gríni fylglir nokkur alvara. En núna saknar hún snævarins.
Fáir nemendanna höfðu mikla reynslu af ísi og snjó þótt ein þekkti slíkt mætavel enda frá Jakútíu í Síberíu. Bakgrunnur þeirra var ólíkur, líka þegar staða kynjanna er annars vegar.
Ólík lönd innbyrðis
Sum koma frá múslímaríkjum (Palestína, Afganistan) en önnur frá mjög blönduðum Afríkjuríkjum á borð við Gana, Kamerún, Malavíu, Mósambík, Nígeríu, Suður-Afríku og Úganda.
Brenda segir að þessi ólíki bakgrunnur og mismunandi þróun hafi verið ótæmandi uppspretta umræðu. „Það var áhugavert að heyra um mismunandi vandamál og mismunandi lausnir en einnig að heyra um reynslu Íslendinga.“
Og það má til sanns vegar færa að eitthvað megi læra af gestgjöfunum enda benti Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra á við brautskráninguna í Jafnfréttisskólanum að Ísland hafi verið ofarlega á blaði í jafnréttismálum til dæmis á lista World Economic Forum í meir en áratug.
En á meðan háskólanum var lokað var námið fært yfir á netið allt þar til hann var opnaður aftur í byrjun maí.
Áhugaverðar umræður
Nadhiya segist hafa saknað umræðna alls hópsins þann tíma sem lokað var en bætir við að starfsfólk og nemendur hafi aðlagast aðstæðum ótrúlega vel.
„Auk kennslustunda, var sérstaklega áhugavert að læra af hinum námsmönnunum og bera saman bækur um ástandið í hinum ýmsu löndum,“ segir hún. „Miðað við mörg önnur ríki hefur orðið töluverð framþróun í heimalandi mínu Sri Lanka, td. borði saman við sum Afríkuríkin. En það eru aðeins tvær konur á þingi þar sem 122 sitja, á meðan 11% nígeríska þingsins eru konur. Hins vegar höfum við bæði haft kvenkyns forseta og forsætisráðherra. Okkur hefur farið aftur að því er virðist en byggjum þó á góðum grunni.“
Brenda Apeta og Fathuma Faleela Nadhiya Najab fengu verðlaun sem kennd er við Vigdísi Finnbogadóttur, fyrstu konu sem kosin var þjóðhöfðingi í almennum kosningum árið 1980.
GEST, eða Alþjóðlegi jafnréttisskólinn er nú hluti Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu Íslands, og er frá ársbyrjun í tengslum við UNESCO.
Hinir tuttugu nýútskrifuðu jafnréttisfræðingar bætast í hóp 132 frá 24 ríkjum sem þegar hafa lokið námi.
Engan skyldi undra þótt einhver í hópnum tæki upp merki Vigdísar Finnbogadóttur sem var viðstödd útskriftina ásamt utanríkisráðherra, Jóni Atla Banediktssyni rektor Háskóla Íslands og Guðmundi Hálfdanarsyni forseta hugvísindasviðs.
„Heimaland mitt sem konu er gjörvallur heimurinn,“ sagði Irma forstöðumaður Erlingsdóttir í útskriftarræðu sinni og vitnaði þar í rithöfundinn Virginia Wolf. „Og það er það sem þetta nám snýst um : að skapa vettvang fyrir námsmenn til að vera aflvakar breytinga.“