Jafnrétti. Fjallamennska.
Þegar Soffía Sigurgeirsdóttir framkvæmdastjóri almannatengslafyrirtækisins Langbrókar var lítil stúlka dreymdi hana um tinda Himalajafjalla. Seinna, þegar hún hóf afskipti af jafnréttismálum kynntist hún bágbornum aðstæðum kvenna í Nepal.
Nú, hafa þessi tvö mál komið saman í einum skurðpunkti. Soffía og Lukka Pálsdóttir eru farnar til Nepals í Himalajafjöllunum. Þær hafa tekið höndum saman við nepalskar fjallgöngukonur um verkefnið Klifið í þágu breytinga (Climb for Change).
Hér er um að ræða kvennaleiðangur á rúmlega sex þúsund metra háan austurtind Lobuche-fjalls í Himalajafjöllum. Markmiðið er að stuðla að valdeflingu Sherpa-kvenna, hvetja þær til að taka forystu í fjallgönguleiðangrum og í fjallaferðamennsku, en þær greinar hafa lengi verið lokaðar konum.
Sherpar er þjóðflokkur í Nepal og Tíbet, sem löngum hefur liðsinnt erlendum fjallgöngumönnum.
Ekki lengur hvítur karlaklúbbur
Fjallamennska hefur sögulega haft orð á sér fyrir að vera íþrótt fyrir yfirstéttakarla. Íþrótt sköpuð af hvítum körlum fyrir hvíta karla. Konur eru hlutfallslega færri í þessari grein, enn þann dag í dag, en glerþakið hefur þó verið brotið.
Ekki aðeins halda vestrænar konur til Himalajafjalla, heldur hafa konur á þessum slóðum haslað sér völl, þótt í smáum stíl sé enn sem komið er, í fjallaleiðsögn og fjallaferðamennsku.
Þegar Soffía Sigurgeirsdóttir komst á snoðir um þetta fékk hún þá hugmynd að sameina nokkur áhugamál sín.
„Ég hef hugsað um þetta lengi,“ segir Soffía í viðtali við UNRIC, en það eru 14 mánuðir síðan ég hófst handa.“
Kvennateymi
Hún hafði samband við nepalskar fjallakonur og fékk íslenska konu, Lukku Pálsdóttur, til liðs við sig. Þótt hæsti tindur Íslands sé aðeins þriðjungur af hæstu fjöllum Nepals, eru Soffía og Lukka þrautreyndar fjallakonur. 17. október héldu þær af stað til Nepals til móts við nepalskar fjallasystur.
„Ég hef eiginlega verið á leið til Nepals alla ævi,“ útskýrir Soffía. Hún blaðaði í National Geographic á æskuheimili sínu og heillaðist af „menningu, trú, litbrigðum og fegurð landsins.”
Áreiðanlega var það svo ástæðan fyrir því að hún lagði sig eftir upplýsingum um Nepal og nepalskar konur í starfi hennar við jafnréttismál. Soffía var í átta ár í stjórn UN Women á Íslandi og framkvæmdastýra í eitt ár, auk þess sem hún starfaði fyrir ABC Barnahjálp.
Jafnrétti: Númer 1 hittir númer 117
„Ég var ekki síst slegin yfir tölum um hvað margar konur í Nepal sættu mansali; voru seldar í kynlífsþrælkun. Mér fannst ég verða að gera eitthvað, sem ég get sem íslensk kona, og þær geta ekki.“
Og það er reyndar ginnungagap á milli stöðu íslenskra og nepalskra kvenna. Ísland hefur mörg undanfarin ár verið efst á lista World Economic Forum í jafnréttismálum en Nepal er númer 117 af 146 ríkjum á nýjasta listanum.
Hins vegar bendir Soffía á að það er skammt síðan jafnréttisbaráttan skilaði árangri hér á landi, „á líftíma mínum, mömmu minnar og ömmu.“
Samstaða kvenna
Auk íslensku kvennanna tveggjam eru þrautreyndar nepalskar fjallakonur í teyminu, að ógleymdum burðarkonum. Pasang Lhamu Sherpa Akita, mun leiða gönguna. Hún varð fyrst kvenna í Nepal til að öðlast fjallaleiðsöguréttindi og í hópi fyrstu þriggja kvenna sem klifu K2 án aukasúrefnis.
Purnima Shrestha er fyrsta manneskja sem klifið hefur Everest fjall þrisfvar sinnum á einni vertíð. Loks hefur Pasang Doma Sherpa klifið marga 6-7 þúsund metra háa tinda.
„Félagsskapur íslenskra og nepalskra kvenna í þessum leiðangri er tákn um alþjóðlega samstöðu kvenna í þeirri viðtleitni að jafna tækifærin fyrir allar konur hvar sem þær eru í heiminum,“ segir Soffía. Og hún minnir á að þrátt fyrir allt deili Íslendingar og Nepalbúar þeirri reynslu að vera umlukin fjöllum og snjó.
Eina leiðin til að öðlast fjárhagslegt sjálfstæði
Markmið leiðangursins er að styðja konur af Sherpa-kyni til að hasla sér völl í fjallamennskuþjónustu.
„Ferðamennska er eina leið nepalskra kvenna til að öðlast fjárhagslegt sjálftæði“, segir Soffía. Með því að sjá Sherpa-konum fyrir nauðsynlegri þjálfun og tækifærum, hyggst “Climb for Change” átakið, leggja lóðar á vogarskálarnar til að stuðla að jafnfrétti og valda varanlegum straumhvörfum í ferðaþjónustu og fjallamennsku í Nepal.
Viska og gæfa
„Við teljum að nú hafi opnast gluggi og tækifæri sé til breytinga,“ segir Soffía. „Það er mikilvægt að sýna feðrum og foreldrum að það borgi sig að fjárfesta í dætrum frekar en selja þær mansali. Að láta þær læra og ganga í skóla. Þess vegna er mikilvægt að segja sögur þeirra og afla fjár svo stúlkurnar geti látið drauma sína rætast.”
Til þess að svo verði er þörf bæði visku og gæfu. Og svo skemmtilega vill til að nöfn forsprakkanna, Soffíu og Lukku þýða einmitt það, viska og gæfa.