Íslandi hrósað fyrir jafnrétti kynjanna, en spurt um kynbundið ofbeldi og trúmál

Ragna Bjarnadóttir skrifstofustjóri var formaður íslensku sendinefndarinnar.
Ragna Bjarnadóttir skrifstofustjóri var formaður íslensku sendinefndarinnar. Mynd: SÞ

Alþjóðasamningur um borgaraleg og pólitísk réttindi

Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna lauk í gær sjöttu yfirferð yfir málefni Íslands og Alþjóðasamningsins um borgaraleg og pólitísk réttindi. Sérfræðingar nefndarinnar luku lofsorði á framúrskarandi árangur Íslands í jafnréttismálum. Spurt var um heimilis- og kynbundið ofbeldi og stöðu þjóðkirkjunnar.

Aðildarríki Alþjóðasamningsins um borgaraleg og pólitísk réttindi þurfa að gera grein fyrir því með reglulegu millibili hvernig staðið hefur verið að því að standa við ákvæði samningsins.

Ragna Bjarnadóttir, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu var í fyrirsvari nefndarinnar sem var skipuð fulltrúum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins.
Ragna Bjarnadóttir, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu var í fyrirsvari nefndarinnar sem var skipuð fulltrúum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins.

Í skýrslu Íslands, sem lá til grundvallar yfirferðinni, var fjallað um hvernig Ísland hefur uppfyllt skyldur sínar samkvæmt samningnum og þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í því skyni að taka tillit til tilmæla nefndarinnar um nauðsynlegar úrbætur.

Ísland fullgilti samninginn árið 1979 og tryggir hann ýmis grundvallarréttindi, svo sem jafnrétti og bann við mismunun, friðhelgi einkalífs, tjáningarfrelsi, bann við pyndingum og ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, og réttinn til réttlátrar málsmeðferðar.

Í fyrirtökunni var fjallað um stöðu mannréttinda í íslensku samfélagi og hvernig íslensk stjórnvöld hafa unnið að því að koma lokaathugasemdum nefndarinnar frá árinu 2012 í framkvæmd segir í frétt frá stjórnarráðinu.

Skýrsla Íslands var tekin fyrir á fundum 15.og 16.október.
Skýrsla Íslands var tekin fyrir á fundum 15.og 16.október. Mynd: SÞ

Fjöldi kvenna í forystusveit

Einn nefndarmanna benti á framfarir sem orðið hefðu á Íslandi við að efla borgaraleg og pólitísk réttindi og að bregðast við fyrri ráðleggingum nefndarinnar. Sérstaklega hefði Ísland náð athyglisverðum árangri í jafnréttismálum. Konur væru fjölmennar í forystusveit í stjórnmálum, bæði á þingi og í sveitarstjórnum.

Nokkrir nefndarmanna gerðu heimilis- og kynbundið ofbeldi að umræðuefni. Spurt var um framhald á vitundarvakningu um heimilisofbeldi, þar á meðal hjá innflytjenda-konum. Þá var spurt um áhrif aðgerða til að efla svör réttarkerfisins við heimilisofbeldi.

Sendinefndin var skipuð fulltrúum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins.
Sendinefndin var skipuð fulltrúum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins. Mynd: SÞ

Staða þjóðkirkjunnar

Lúthersk-evangelíska kirkjan var til umræðu, sérstaklega í ljósi lagalegrar stöðu hennar sem þjóðkirkju og fjárhagslegs stuðnings  Spurt var hvort ójafnræði ríkti á milli hennar og annara trúarhópa. Sérstaklega var spurt um hvað væri gert til að tryggja að þessi sérstaka staða bryti ekki í bága við réttindi samkvæmt samningnum.

Til stóð að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, ráðherra mannréttindamála leiddi sendinefndina, en í hans forföllum leiddi Ragna Bjarnadóttir, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu sendinefndina sem var skipuð fulltrúum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins.

Friðarhöllinn (Palais des Nations), höfuðstöðvar SÞ í Genf.
Friðarhöllinn (Palais des Nations), höfuðstöðvar SÞ í Genf.

Ragna Bjarnadóttir skrifstofustjóri benti á í kynningu sinni að Alþingi hefði samþykkt lög í júní síðastliðnum þess efnis að sérstök Mannréttindastofnun hæfi störf í byrjun árs 2025.

Íslenska sendinefndin sagði að undanfarin ár hefði ríkisstjórn Íslands lagt þunga áherslu á að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi, þar á meðal með vitundarvakningarherferð og aðgerðaáætlun. Jafnréttissjóður væri starfræktur og kvennaathvarf á Norðurlandi hefði  verið styrkt fjárhagslega. Ákvæði um kynferðisofbeldi á stafrænum miðlum hefði verið tekið inn í lagasetningu 2021. Þá hefði nauðgun verið skilgreind upp á nýtt árið 2018, með áherslu á samþykki.

Nefndin sagði að skráð trúar- og lífsspekifélög fengju sömu styrki og þjóðkirkjan. Um skráningu í trúfélög sagði nefndin að börn væru skráð í trúfélag ef báðir foreldrar tilheyrðu sama félagi. Annars þyrftu foreldrar að ná samkomulagi um skráningu.

Sjá má ítarlega samantekt á yfirferðinni hér.

Hér má sjá sjöttu skýrslu (CCPR/C/ISL/6)

Hér að neðan eru krækjur á upptöku UNTV af yfirferðinni 

Part 1: https://webtv.un.org/en/asset/k1t/k1tncakrsp

Part 2: https://webtv.un.org/en/asset/k14/k1475ar19e