Gasasvæðið. UNRWA. Ísland. Utanríkisráðherra hefur ákveðið að svara kalli Sameinuðu þjóðanna um framlög til neyðaraðstoðar í Palestínu með 70 milljóna króna framlagi frá íslenskum stjórnvöldum til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA). Framlagið bætist við reglubundið framlag Íslands til stofnunarinnar, sem er ein af samstarfsstofnunum Íslands í mannúðarmálum.
Langt samstarf
Ísland hefur átt í samstarfi við UNRWA um áratuga skeið en stofnunin sinnir Palestínuflóttafólki á Gaza, Vesturbakkanum og í Austur-Jerúsalem auk þeirra sem hafast við í Jórdaníu, Líbanon og Sýrlandi. Stofnunin veitir víðtæka mannúðaraðstoð og vernd, grunnmenntun, heilbrigðis- og félagsþjónustu. UNRWA er meginviðbragðsaðili Sameinuðu þjóðanna í þeirri neyð sem nú ríkir og aðstoðar jafnt flóttafólk sem aðra sem eiga um sárt að binda vegna átakanna.
Í september sl. undirritaði utanríkisráðherra rammasamning við UNRWA um áframhaldandi stuðning íslenskra stjórnvalda við stofnunina til næstu fimm ára. Með viðbótarframlaginu sem tilkynnt var í dag verða framlög Íslands til stofnunarinnar í ár á pari við samningsbundin framlög næstu ára.
(Heimild: Utanríkisráðuneytið)