Fyrsti sjálfboðaliði á vegum Sameinuðu þjóðanna með stuðningi Íslands hefur tekið til starfa á Indlandi.
Chinenye Anekwe hefur starfað sem sjálfboðaliði í jafnréttismálum og félagslegri inngildingu hjá Indlandsskrifstofu UNESCO, Mennta-, vísinda- og menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna frá því í ágúst. Hún var nemandi hjá GRÓ í jafnréttisnámi og þjálfun á Íslandi 2018.
![Simon Williams / Ekta ParishadCreative Commons Attribution-Share Alike 3.0](https://unric.org/is/wp-content/uploads/sites/10/2024/10/Young_Baiga_women_India-392x260.jpg)
Fjármagnað af Íslandi
Sjálfboðaliðar Sameinuðu þjóðanna (United Nations Volunteers (UNV)) og Ísland hafa með milligöngu GRÓ tekið höndum saman um að efla sjálfboðaliðastarf með því að fjármagna að fullu starf sjálfboðaliðans í Nýju Delhi.
„Stuðningur Sameinuðu þjóðanna við þróun, mannréttindi og mannlega reisn eru í góðu samræmi við mín persónulegu gildi. Ég er þakklát Íslandi og GRÓ fyrir að gefa mér þetta tækifæri,” segir Chinenye Anekwe.
Chinenye hefur áður starfað við verkefni GRÓ GEST við valdeflingu kvenna í dreifbýli í Nígeríu. Hún þjálfaði konur í samsetningu, uppsetningu, viðhaldi og viðgerðum á sólorkukerfum til matseldar og lýsingar.
![Heimsmarkmið um Sjálfbæra þróun](https://unric.org/is/wp-content/uploads/sites/10/2021/02/Heimsmarkmid-um-Sjalfbaera-throun-Facebook-367x308.png)
Heimsmarkmiðin
Nemendur sem lokið hafa námskeiðum GRÓ hafa um árabil unnið þarft starf við að þoka Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun áleiðis í heimalöndum sínum. 22 Indverjar hafa tekið þátt í námskeiðum GRÓ.
„Samstarfið við Sjálfboðaliða Sameinuðu þjóðanna er gott tækifæri til að styðja starf UNESCO í Suð-austur Asíu ríkjum og gefa nemendunum áhugaverð tækifæri,” segir Bendikt Höskuldsson sendiherra Íslands á Indlandi.