Ísland í yfirferð hjá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna

Friðarhöllinn (Palais des Nations), höfuðstöðvar SÞ í Genf.
Friðarhöllinn (Palais des Nations), höfuðstöðvar SÞ í Genf.

Alþjóðasamningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna.

Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna fer í saumana á borgaralegum og pólitískum réttindum á Íslandi 15.og 16.október. Ísland er eitt af hundrað sjötíu og fjórum aðildarríkjum Alþjóðasamningsins um borgaraleg og pólitísk réttindi. Farið er yfir stöðu mála í hverju aðildarríki með reglubundnu millibili á vettvangi mannréttindanefndarinnar og nú er röðin komin að Íslandi auk Pakistans, Grikklands, Frakkland, Tyrklands og Ekvadors.

Íslenskum stjórnvöldum og almannasamtökum hefur nú þegar gefist kostur á að skila inn gögnum. 15.og 16.október fara 18 óháðir mannréttindasérfræðingar yfir þau og fulltrúar stjórnvalda sitja fyrir svörum. Sérfræðingarnir gaumgæfa hvernig hvert land fyrir sig hefur staðið við sáttmálann eða hvort pottur sé brotinn. Jafnframt er þeim gert að gera grein fyrir hvernig þau hafa brugðist við fyrri meðmælum nefndarinnar.

Í beinni útsendingu

Fundirnir eru haldnir í Genf og eru haldnir í heyrandi hljóði og auk þess sendir út beint á  vefsjónvarpi Sameinuðu þjóðanna.

Ísland er á dagskrá (að íslenskum tíma):
15.október 13:00 – 16:00

Fundarsalur Sameinuðu þjóðanna í Genf.
Fundarsalur Sameinuðu þjóðanna í Genf.

16 October 08:00 – 11:00

 Nánari upplýsingar, þar á meðal skýrslur aðildarríkja og nánari dagskrá funda má finna hér.

Afleggjarar Mannréttindayfirlýsingarinnar

Alþjóðasamningurinn um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 16. desember 1966. Samningurinn var undirritaður af hálfu Íslands 30. desember 1968, fullgiltur 22. ágúst 1979.

Samningurinn er annar tveggja sáttmála sem gerðir voru út frá Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, en hún markaði mikil tímamót í afstöðu alþjóðasamfélagsins til mannréttinda þegar hún var samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þann 10. desember 1948. Hinn samningurinn var Alþjóðasamningur um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.