Vopnahlé og lausn gísla
Staða mannúðarmála, nauðsyn aukinnar mannúðaraðstoðar og fyrstu skref að enduruppbyggingu Gaza voru í brennidepli á ráðstefnunni. Friðaráætlun Bandaríkjaforseta sem öryggisráðið ályktaði um í gærkvöldi hefur vakið vonir um að vopnahlé komist á og hafa leiðtogar víða um heim hvatt til þess að stríðandi fylkingar setjist að samningaborðinu.
Í ávarpi sínu beindi Ásmundur Einar athyglinni einkum að skelfilegum veruleika barna og ungs fólks á Gaza og lagði sérstaka áherslu á að fjárfesting í velferð þeirra yrði höfð í hávegum í enduruppbyggingu að loknu stríði. „Morð, limlestingar og gíslataka barna er aldrei réttlætanleg og sú þjáning og skortur sem þau líða nú getur grafið undan trausti og friði milli framtíðarkynslóða Palestínumanna og Ísraela,“ sagði Ásmundur í ræðu sinni. Hann ítrekaði ákall Íslands eftir tafarlausu vopnahléi, auknu mannúðaraðgengi og lausn gísla.
Mikilvægt að koma á vopnahléi
Í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu er haft eftir Þórdísi Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra að íslensk stjórnvöld muni halda áfram að leggja sitt af mörkum til mannúðaraðstoðar, og friðar- og enduruppbyggingar á svæðinu. Hún segir jafnframt mikilvægt að vopnahléi verði komið á hið fyrsta, svo hægt sé að hlúa að þjáðum og hungruðum á Gasa, og að gíslum sem enn eru í haldi Hamas verði sleppt. „Við hvetjum til þess að öryggisályktun gærdagsins verði innleidd strax – þessari hringrás ofbeldis verður að linna,“ segir Þórdís Kolbrún.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tekur í sama streng. „Börn geta aldrei borið ábyrgð á stríðsrekstri annarra og það er óásættanlegt að þau gjaldi fyrir með lífi sínu. Ísland mun nú, líkt og áður fyrr, beita sér fyrir vopnahléi, lausn gísla og varanlegum friði á grundvelli tveggja ríkja lausnarinnar.“
(Heimild: utanríkisráðuneytið)