Gasasvæðið. Mannnúðaraðstoð. Utanríkisráðherra hefur ákveðið að veita 100 milljóna króna viðbótarframlag vegna átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs. Framlagið verður veitt til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) og Alþjóðlega sakamáladómstólsins (ICC). Ráðherra kynnti aukin framlög á fundi ríkisstjórnarinnar í dag, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.
„Mannúðarástandið á Gaza fer enn versnandi og þörfin fyrir aðstoð og nauðþurftir er mikil. Við Íslendingar höldum áfram að leggja okkar af mörkum við þessar aðstæður. UNRWA er meginviðbragðsaðili Sameinuðu þjóðanna í þeirri neyð sem ríkir meðal almennra borgara og Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn hefur lögsögu í Palestínu þegar kemur að því að rannsaka alþjóðaglæpi, þar á meðal stríðsglæpi,“ segir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra.
Með framlaginu sem tilkynnt var um í dag nema heildarframlög Íslands, vegna átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs, 240 milljónum króna, til viðbótar við framlög til Alþjóðlega sakamáladómstólsins. Þetta er í þriðja sinn frá því átökin hófust sem íslensk stjórnvöld veita viðbótarframlag til UNRWA og í ár er Ísland meðal hæstu framlagsríkja miðað við höfðatölu.
UNRWA gegnir lykilhlutverki
UNRWA gegnir lykilhlutverki við að koma nauðþurftum á borð við mat og vatn inn á Gaza og dreifa þeim. Um 830 þúsund manns, eða helmingur allra vegalausra einstaklinga á svæðinu, hafa leitað skjóls í neyðarskýlum stofnunarinnar sem áður hýstu skólastarf, heilsugæslu og aðra þjónustu á hennar vegum. UNRWA er ein af samstarfsstofnunum Íslands í mannúðarmálum, en virkt innra og ytra eftirlit er með störfum og ráðstöfun fjármuna hennar líkt og annarra stofnana Sameinuðu þjóðanna, meðal annars af hálfu framlagsríkja.
Í þingsályktunartillögu sem samþykkt var af öllum flokkum á Alþingi þann 9. nóvember síðastliðinn var kallað eftir tafarlausu vopnahléi af mannúðarástæðum á Gaza, óhindruðu aðgengi að nauðþurftum og skýr krafa gerð um að alþjóðalög séu virt. Þá voru hryðjuverk Hamas, sem kostuðu á annað þúsund almennra borgara í Ísrael lífið, fordæmd og krafa gerð um tafarlausa lausn yfir 240 gísla í haldi Hamas, en þar af eru um 30 börn.
Sama ákall hefur ítrekað komið fram í yfirlýsingum íslenskra stjórnvalda á opinberum vettvangi og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.