Íris Björg Kristjánsdóttir er sérfræðingur hjá UN Women, Jafnréttisstofnun Sameinuðu þjóðanna og starfar hjá svæðisskrifstofu fyrir Evrópu og mið-Asíu með starfstöð í Istanbul í Tyrklandi. Starf hennar snýst um friðar og mannúðarmál. Hún hóf störf hjá UN Women í Ankara maí 2017, þá á vegum íslensku friðargæslunnar sem heyrir undir utanríkisráðuneytið. Áður vann hún í meir en fimmtán ár að málefnum farand- og flóttafólks heima á Íslandi. Við ræddum við Írisi Björg í röð viðtala við norræna starfsmenn Sameinuðu þjóðanna.
Nú er hún hluti starfsliðs UN Women og hefur á sinni könnu málaflokkinn konur, friður og öryggi, aðgerðir í mannúðarmálum, framlag kvenna til friðar, fyrirbyggjandi starf og viðbrögð í tenglum við náttúruhamfarir eða átök, verkefni í tengslum við þvingaða fólksflutninga og viðbrögð við COVID-19 faraldrinum svo eitthvað sé nefnt.
Tilviljun
„Það var fyrir tilviljun sem ég fór að vinna á þessu sviði 2002 til 2003. Þá var ég beðin um að vinna að sumar-verkefni fyrir Reykjavíkurborg sem snérist um aðgang farandfólks að uppplýsingum. Ég hef rannsakað kynjamál um nokkurt skeið og ég hef haft sérstakan áhuga á þeim málaflokki. En þarna setti ég upp önnur gleraugu og fór að huga að málefnum innflytjenda og flóttafólks. Það má segja að ég hafi aldrei tekið þau niður,“ útskýrir hún.
Hjá UN Women hefur hún aðallega sinnt mið-Asíu, suðurhluta Kákasus-svæðisins, vesturhluta Balkanskagans og Tyrklandi.
„Vinna mín er svæðisbundin og felst í að styðja skrifstofur okkar í hverju landi; tryggja samkvæmni og sjálfbærni í hvers kyns aðgerðum í þágu jafnréttis kynjanna. Þá er mikilvægt að styðja við bakið því að áætlunum um málaflokkinn konur, friður og öryggi sé hrint í framkvæmd. Við vinnum með mörgum stofnunum á lands- og staðarvísu, borgaralegu samfélagi og samtökum undir forystu kvenna, auk heimshlutasamtaka og samráðsvettvanga. Og nú, 2020, höfum við beint kastljósinu að andsvörum við alheimsfaraldrinum.“
Flóttakonur og stúlkur í Tyrklandi
Tyrkland hýsir fleiri flóttamenn en nokkuð annað ríki í heiminum eða 3.6 milljónir Sýrlendingar auk tæplega 400.000 frá öðrum löndum.
UN Women hefur frá 2016 haslað sér völl sem afl í þágu breytinga í málefnum flóttafólks. Markmiðið hefur verið að efla stöðu og völd kvenna og stúlkna og tryggja að þær njóti tækifæra, réttinda og þjónustu.
„Konur og fólk sem stendur höllum fæti eða er á jaðri samfélagsins verður fyrir þyngri höggum þegar á bjátar en fólk almennt. Sú er raunin með sýrlenskar konur í Tyrklandi.
„Tyrkland hefur sýnt af sér mikla rausn og lagt hart að sér við að tryggja öryggi fólks. Það er mikil ábyrgð fólgin í því að taka á móti svona mörgum einstaklingum og fjölskyldum sem þurfa á vernd að halda,“ segir hún.
Flóttafólk
Aðalverkefni UN Women í Tyrklandi er að efla kynjaþáttinn í aðgerðum í þágu flóttafólks. Þar á meðal að auka vitund lands- og sveitastjórna um þörf á áætlunum og aðgerðum sem taka jafnt mið af þörfum kvenna, karla, stúlkna sem drengja.
„Konur og karlar hafa mismunandi þarfir og glíma við ólíkan vanda. Þegar átök eða hamfarir steðja að eða ganga yfir þá er þýðingarmikið að meta faglega og gera úttekt á hugsanlegum mun á aðstæðum fólks. Með þeim hætti er hægt að bregðast betur við og koma betur til móts við hvort kyn fyrir sig, þannig að þau njóti lausnanna til jafns,“ segir Íris.
„Þegar maður setur á sig kynja-gleraugun er það ekki aðeins til þess að tryggja kynbundna nálgun, heldur tryggir það þverfaglegri nálgun. Það greiðir fyrir því að draga fram hverja þá einstaklinga og hópa sem standa sérstaklega höllum fæti og ná til þeirra sem af ólíkum ástæðum er hætt við að verði útundan eða eru sérstaklega jaðarsettir,“ bætir hún við.
SADA-miðstöðin
UN Women hóf starfsemi SADA-miðstöðvarinnar í þágu kvenna einna í Tyrklandi 2017. Þar er konum, bæði þeim sem njóta tímabundinnar verndar og þeirra sem fyrir voru boðin upp á ýmis færni og kunnáttunámskið, auk þess sem veitt er félagsleg þjónusta og sálrænn stuðningur. Þar er unnið að valdeflingu kvenna og stutt við bakið á þeim í félagslegri virkni og á vinnumarkaði. Þar fá konur tækifæri til að efla hæfni og þekkingu til að takast á breyttar aðstæður í nýju landi með tilliti til vinnumarkaðar. Einnig er greitt fyrir því að þær geti komið á fót eigin atvinnustarfsemi með það fyrir augum að bæta efnahagslega stöðu kvenna og öryggi þeirra almennt.
Með því að hafa meiri aðgang að vinnumarkaði og aukið fjárhagslegt sjálfstæði dregur úr neyð kvennanna og gerir þeim kleift að mæta grunnþörfum sínum og dregur úr líkum að á að þær neyðist til að nota aðferðir til sjálfbjargar sem hafi skaðleg áhrif á þær og fjölskyldur þeirra. Þar að auki einbeitir miðstöðin sér að því að efla tengsl á milli flóttakvenna og heimakvenna, bæði pólitískt og félagslega. Stutt er við bakið á konum til að taka forystu í samfélaginu, og stuðla að auknum samskiptum og samfélagsþáttöku kvenna með ólíkan bakgrunn.
SADA samvinnufélag kvenna var valið eitt af 10 árangursríkustu verkefnum af 100 á Friðarþinginu í París á síðasta ári. Að sögn Írisar Bjargar hefur því enn vaxið fiskur um hrygg og er orðinn mikilvægur þáttur í samfélagi og vernd sýrlenskra kvenna.
Jafnrétti er framlag Norðurlanda
Að hennar mati er margt ógert en að sama skapi margt áunnist.
„Jafnrétti kynjanna snýst ekki eingöngu um kynin heldur um jafnrétti almennt og alla hópa og alla einstaklinga. Það skilar sér að auki í meiri þjóðfélagslegum jöfnuði allra, jafnt hópa sem einstaklinga sem hafa af ýmsum ástæðum staðið andspænis sérstökum hindrunum eða skorti á aðgengi. Og í þessu samhengi er ástæða til að minnast á mismunun, stéttarlega eða þjóðfélagslega jaðarsetningu. Og á þessu sviði geta Norðurlönd verið þakklát. Við ættum ekki að þurfa að fara til útlanda til að kilja hversu mikilvægt það er að hafa jafnan aðgang að hverju sem er.“
Vinna hjá Sameinuðu þjóðunum
Hvað myndi hún ráðleggja ungu fólki sem sækist eftir að starfa á vettvangi Sameinuðu þjóðanna?
„Þessi spurning er mér mjög kær. Ég vildi gjarnan sjá fleira ungt fólk og ungar konur frá Norðurlöndunum, þar á meðal Íslandi, ganga til liðs við Sameinuðu þjóðirnar. Ég tel að við notum ekki þau öll tækifæri sem bjóðast eins vel og við getum,“ segir hún.
Hún mælir með því að fylgjast með auglýsingum um starfsnám, jafnvel snemma á námsferlinum. Starfsnám er í vaxandi mæli borgað, þannig að auðveldara er en áður fyrir hina efnaminni að sækjast eftir þeim. Hún telur jafnframt að það sé gagnlegt að hafa samband við fólk sem hefur unnið sambærileg störf. Hún segir að oftast nær sé það mjög fúst til að veita upplýsingar og gefa góð ráð. Að lokum segir hún að fólk megi ekki gefast upp.
„Það mun ekki takast í fyrstu tilraun. Þetta getur tekið tíma,“ bætir hún við.
Og hvað finnst henni mest aðlaðandi við starf hjá Sameinuðu þjóðunum.
„Hvað mig varðar eru það margir ólíkir og áhugaverðir þættir. Í starfi mínu fæ ég tækifæri til að vinna að jafnréttismálum og valdeflingu kvenna um allan heim. Jafnrétti kynjanna er mannréttindamál og við eigum margt ógert. Sameinuðu þjóðirnar eru líka vinnustaður þar sem fræði, stjórnsýsla og praktískari hlutir tvinnast saman og maður getur lagt á ráðin um aðgerðir sem byggja á sannreyndum gögnum.
Maður fær tækifæri til að vinna með fólki alls staðar að úr heiminum, kvennasamtökum og heimamönnum á hverjum stað fyrir sig og vinna í sameiningu að þýðingarmiklum breytingum í lífi fólks. Hvort heldur sem er fyrir líðandi stundu eða til lengri tíma litið. Það sem heldur manni gangandi er að geta opnað dyr fyrir stúlkum og konum, geta skapað möguleika eða einfaldlega draga úr skaða sem kringumstæður valda þeim.
„Ég vinn í þessu umhverfi því ég vil sjá raunverulegar breytingar í lífi fólks og stuðla að breytingum til batnaðar,” segir hún að lokum.