António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna tilkynnti í dag að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefði verið skipuð staðgengill sérstaks fulltrúa hans í Írak. Hún mun stýra pólitiskri deild og hafa kosningamál á sinni könnu í UNAMI, Aðstoðarsendisveit Sameinuðu þjóðanna í Írak (Deputy-Special Representative of the Secretary General).
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir tekur við af Alice Walpole frá Bretlandi.
Ingibjörg Sólrún er fyrrverandi borgarstjóri, utanríkisráðherra og alþingismaður. Hún starfaði hjá UN Women í Kabúl og stýrði skrifstofu sömu stofnunar fyrir í Istanbúl. Nú síðast var hún yfirmaður lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu Öryggis og samvinnustofnunar Evrópu (OSCE).
Ingibjörg Sólrún er með BA gráðu í sögu og bókmenntum frá Háskóla Íslands og stundaði framhaldsnám í sögu við Kaupmannahafnarháskóla.