Jarðarbúar verða orðnir 8 milljarðar 15.nóvember næstkomandi og Indland skýtur Kína aftur fyrir sig og verður fjölmennasta ríki heims á næsta ári, 2023.
Þetta eru sannarlega tíðindi, en kannski eru það enn meiri fréttir að frjósemi er í sögulegu lágmarki. Tveir þriðju hlutar mannkyns búa nú í landi eða svæði þar sem tíðni fæðinga er aðeins 2.1 barn á hverja konu.
Mannfjöldastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNFPA, hefur tekið saman þessa tölfræði. Margt kemur til. 6 milljónir manna hafa látist af völdum COVID-19 heimsfaraldursins, aldrei fleiri eða 100 milljónir hafa verið flæmdir að heiman vegna ofbeldis, ofsókna og átaka, svo ekki sé minnst á loftslagsbreytingar.
Framfarir
Á hinn bóginn má líta á þessi tímamót með bjartsýnum augum. Það er vissulega til marks um framfarir læknavísinda og heilbrigðiskerfa, menntunar og þróunar, að átta milljarðar manna búi á sama tíma á jörðinni.
Þá bendir fækkun barneigna til að konur og stúlkur ráði í vaxandi mæli sjálfar hvort og hversu mörg börn þær eignist.