Í þýðingarmikilli ræðu til að minnast 75 ára afmælis fyrsta fundar Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna hvatti António Guterres aðalframkvæmdastjóri samtakanna til metnaðarfyllri aðgerða og öflugra alþjóðasamstarfs í endurreisnarstarfi í kjölfar COVID-19 faraldursins.
Aðalframkvæmdastjórinn fór í ræðu sinni yfir árangur af starfi Allsherjarþingsins. Hann minnti á að starf þess á undanförnum áratugum hefði greitt fyrir árangri „í að bæta heilbrigði jarðarbúa, læsi og lífskjör, eflt mannréttindi og jafnrétti kynjanna.“
Norsk kona, fyrst kvenna til að ávarpa þingið
![Fyrsta Allsherjarþingið](https://unric.org/is/wp-content/uploads/sites/10/2021/01/friedadalen.jpg)
Fulltrúar fimmtíu og eins ríkis hittust á fyrsta Allsherjarþinginu sem haldið var í Lundúnum 1946 fáum mánuðum eftir lok Síðari heimsstyrjaldarinnar og stonfunar Sameinuðu þjóðanna. 193 ríki sitja nú á Allsherjarþinginu. Danmörk og Noregur áttu sæti á því frá byrjun en Ísland og Svíþjóð bættust í hópinn síðar á árinu 1946 og Finnland 1955.
Langflestir þátttakenda í fyrsta Allsherjarþinginu voru karlmenn. Norska konan Frieda Dalen markaði tímamót þegar hún ávarpaði þingið fyrst kvenna. Það var viðeigandi að Dalen kom úr röðum andspyrnunnar gegn hersetu Þjóðverja í Noregi. Hún gat sér gott orð fyrir störf sín við kennslu og í félagsmálum, en hún lést nærri eitt hundrað ára gömul árið 1995.
Miklar áskoranir
Í ræðu sinni til að minnast fyrsta Allsherjarþingsins sagði Guterres að þrátt fyrir árangurinn stæðu Sameinuðu þjóðirnar andspænis alvarlegum úrlausnarefnum. Þar á meðal væru aukin fátækt og fæðuóöryggi í kjölfar COVID-19 faraldursins. Þá væru auknar viðsjár á alþjóðavettvangi áhyggjuefni og hætta á útbreiðslu kjarnorkuvopna. Enn mætti nefna þá hættu sem fælist í tölvuárásum og villandi og röngum upplýsingum á netinu.
Aðalframkvæmdastjórinn benti á að flestir þeirra sem svöruðu alheimskönnun Sameinuðu þjóðanna um alþjóðamál í tilefni af 75 ára afmælinu á síðasta ári, hefðu talið loftslagsbreytingar mesta vanda sem steðjaði að mannkyninu.
Loftslagsváin
„Loftslagsváin herjar nú þega á okkur og viðbrögð heimsins hafa verið algjörlega óviðunandi. Undanfarinn áratugur var sá heitasti sögu mannkyns. Aldrei hefur verið meiri kolvtísýringur í andrúmsloftinu. Þetta er stríð gegn náttúrunni -stríð þar sem enginn fer með sigur af hólmi,“ sagði Guterres.
Næsta Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna (COP26) fer fram í Glasgow í nóvember á þessu ári. Aðalframkvæmdastjórinn segir að kolefnisjafnvægi fyrir 2050 verði helsta forgangsmál samtakanna á þessu ári.
Hann varaði við alvarlegum afleiðingum aðgerðaleysis.
„Ef við sveigjum ekki af leið stefnir í algjört óefni því hiti mun þá hækka um þrjár gráður á öldinni. Fjölbreytni lífríkisins er að hruni komið. Ein milljón tegundar er í útrýmingarhættu og heilu vistkerfin eru að horfa fyrir framan nefið á okkur.”