Samþykkt Knesset, ísraelska þingsins við starfsemi Palestínu-flóttamannahjálparinnar (UNRWA) í Ísrael hefur verið fordæmt af fjölda aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna allt frá Vestur-Evrópuríkjum og Bandaríkjanna til Kína og Rússlands. Yfirmenn mannúðarsamtaka Sameinuðu þjóðanna segja að enginn valkostur sé við UNRWA og bannið kunni að hafa hörmulegar afleiðingar.
Lagasetningin tekur gildi innan þriggja mánaða. Starfsemi UNRWA er að mestu bundin við vesturbakka Jórdanar og Gasasvæðið. Hins vegar er stofnunin verulega háð Ísrael til að geta starfað, ekki síst til að geta flutt mannúðaraðstoð um landamærastöðvar til Gasasvæðisins. Þá banna nýju lögin öll samskipti ísraelskra embættismanna og UNRWA.
Hungursneyð yf
Um sama leyti og atkvæðagreiðslan fór fram í Ísrael á mánudag varaði Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) við því að fæðuóöryggi á Gasasvæðinu gæti stigmagnast og orðið að hungursneyð nema gripið verði til tafarlausra aðgerða.
„Alvarlegar skorður sem settar hafa verið við mannúðaraðstoð gera illt verra,” sagði WFP á samskiptamiðlinum X (Twitter).
„UNRWA er ómissandi í að koma til skila lífsnauðsynlegri aðstoð og sjá um félagslega þjónustu á Gasa,” sagði Cindy McCain forstjóri Matvælaáæstlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP). „Ef lagasetningin tekur gildi hefur hún skelfilegar afleiðingar á fæðuöryggi og margt annað fyrir berskjaldaðasta fólkið.“
Nærri allar þær tvær milljónir, sem búa á Gasasvæðinu, hafa reitt sig á aðstoð og þjónustu frá UNRWA frá upphafi átakanna. Íbúarnir hafa fengið brýnustu nauðsynjar, þar á meðal matvæli, vatn og hreinlætisvörur frá stofnuninni.
Þá hafa heilbrigðisstarfsmenn sex milljón sinnum sinnt veikum og slösuðum frá því átökin brutust út.
Líflína Palestínumanna
„UNRWA er óbætanleg líflína til Palestínumanna,” sagði Tedros Ghebreyesus forstjóri Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinanr (WHO). „Að meina UNRWA að sinna starfi sínu við að bjarga mannslífum og vernda heilsu milljóna Palestínumanna mun hafa skelfilegar afleiðingar.”
Rúmlega 200 starfsmenn UNRWA hafa verið drepnir við skyldustörf í árásum Ísraelsmann frá því í október 2023.
„Það liggur í augum uppi að ef lögunum verður framfylgt muna það hafa skaðvænleg áhrif á mannúðarástand Palestínumanna,“ sagði Stéphane Dujarric talsmaður aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.
Hann segir að aðalframkvæmdastjórinn hafi glaðst yfir þeim mikla stuðningi sem UNRWA hafi verið sýndur af ríkjum heims. Sá stuðningur hafi komið frá ólíkum ríkjum „sem oftast eru ósammála um hvaðeina.“ Þar á meðal má nefna Norðurlöndin, Evrópusambandið, Bretland og Bandaríkin, Kína og Rússland.
Enginn valkostur við UNRWA
Í lagasetningunni segir ekkert um hvað koma skuli í stað UNRWA.
„Þessi ákvörðun er hættuleg og hneykslanleg. Það er enginn valkostur við OCHA,“ sagði Joyce Msuya starfandi framkvæmdastjóri mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum (OCHA). Amy Pope forstjóri Alþjóða fólksflutningastofnunarinnar (IOM) tekur undir: „UNRWA er óbætanleg,” segir hún. „Hún er ekki aðeins hjálparstofnun. Hún sinnir menntun, heilsugæslu, félagslegri aðstoð og vernd fyrir palestínska flóttamenn. Við verðum að styðja og vernda stofnunina.“