Hvað er Leiðtogafundurinn um framtíðina?

Veggmynd eftir Eduardo Kobra við höfðustöðvar SÞ í New York.
Veggmynd eftir Eduardo Kobra við höfðustöðvar SÞ í New York. Mynd: UN Photo/Rick Bajornas

Leiðtogafundur um framtíðina 

Oddvitar ríkja og ríkisstjórna aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna koma saman til Leiðtogafundar um framtíðina á vettvangi Allsherjarþingsins 22.-23.september næstkomandi. Markmiðið er að samþykkja Sáttmála framtíðarinnar, Samning um stafræna tækni og Yfirlýsingu framtíðarinnar. En hvers vegna er þörf á leiðtogafundi um framtíðina?

Sögulegt samhengi

Þegar Sameinuðu þjóðirnar fögnuðu 75 ára afmæli sínu árið 2020 hófst umræða á heimsvísu um þær vonir sem bundnar væru við framtíðina og þann kvíðboga sem margir bera fyrir henni.

Þannig hófst ferli, sem leiddi til þess að fjórum árum síðar er boðað til Leiðtogafundar um framtíðina. Þetta er þýðingarmikill viðburður, sem haldinn verður 22.-23.september rétt áður en leiðtogar aðildarríkjanna koma saman á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Leiðtogafundur um framtíðina

Hugmyndin um leiðtogafundinn fékk byr undir báða vængi á meðan COVID-19 heimsfaraldurinn var í hámarki. Þá fannst mörgum hjá Sameinuðu þjóðunum að sameiginleg hnattræn ógn sundraði frekar en sameinaði ríki og þjóðir.

„Sameinuðu þjóðirnar hafa boðað til þessa einstaka leiðtogafundar vegna þeirrar alvarlegu staðreyndar að hnattræn vandamál aukast hraðar en þær stofnanir sem ætlað er að takast á við þau, ráða við,“ skrifar António Guterres í grein sem birst hefur í fjölmiðlum víða um heim, þar á meðal á vísir.is.

 Guterres heimsækir GPS Fasi skólann í Nuku'alofa. á Tonga.
Guterres heimsækir GPS Fasi skólann í Nuku’alofa. á Tonga. Mynd:
UN Photo/Kiara Worth

Ginnungagap á milli væntinga og raunveruleika

„Við okkur blasti ginnungap á milli vona stofnenda samtakanna, sem við heiðruðum á 75 ára afmælinu, og raunveruleika dagsins í dag,“ segir Michele Griffin stefnumótunarstjóri leiðtogafundarins.

Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna fólu António Guterrres aðalframkvæmdastjóra samtakanna að taka saman skjal sem fæli í sér framtíðarsýn hnattrænnar samvinnu. Skýrslan sem hann tók saman Sameiginleg verkefni okkar (Our Common Agenda), var tímamótaverk. Þar voru teknar saman tillögur um endurnýjaða samvinnu á heimsvísu til að takast á við ýmsa hættu og ógnanir og lagt til að halda leiðtogafund um framtíðina 2024.

„Alþjóðleg ákvarðanataka er föst í fortíðinni,“ skrifaði Guterres i kjallaragrein sinni.  „Margar alþjóðlegar stofnanir og úrræði eiga rætur að rekja til fimmta áratugar tuttugustu aldar. Þá var nýlendustefnan enn við lýði og hnattvæðing ekki til. Mannréttindi og jafnrétti kynjanna höfðu ekki rutt sér til rúms og mannkynið hafði ekki náð út í geim hvað þá netheim.“

Leiðtogafundur um framtíðina
Leiðtogafundur um framtíðina

1 Hvað er leiðtogafundurinn?

 Atburðurinn mun standa saman af málþingum og allsherjarfundum um fimm höfuðmálefni. Þau eru sjálfbær þróun og fjármögnun; friður og öryggi; stafræn framtíð fyrir alla; æskan og kynslóðir framtíðarinnar og alheimsstjórnunarhættir. Ýmis málefni ganga svo þvert á þessa málaflokka, og allt starf Sameinuðu þjóðanna, og má þar nefna mannréttindi, jafnrétti kynjanna og loftslagsvána.

Niðurstöðurnar verða teknar saman í Samkomulagi framtíðarinnar (Pact for the Future), Stafrænum alheimssamningi (Global Digital Compact) og Yfirlýsingu fyrir kynslóðir framtíðarinnar (Declaration for Future Generations) í viðaukum. Búist er við að allt þetta verði samþykkt af aðildarríkjunum á fundinum.

Gervigreind er á meðal viðfangsefna leiðtogafundarins.
Gervigreind er á meðal viðfangsefna leiðtogafundarins.

2 Af hverju skiptir Leiðtogafundurinn máli?

Þessi málefni hafa vissulega verið brotin til mergjar áður. Samkomulög á borð við Parísarsamninginn um loftslagsmál (Paris Agreement) og Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun (Sustainable Development Goals), hafa vissulega náðst. Hins vegar er það útbreidd skoðun að áratugagömul uppbygging Sameinuðu þjóðanna sé hvorki nægilega skilvirk né réttlát.

Leiðtogafundurinn um framtíðina (Summit of the Future) er tækfifæri til að standa fyllilegar við loforð sem þegar hafa verið gefin um að aðlaga alþjóðasamfélagið að komandi tímum og endurreisa traust.

„Traust er öllu öðru mikilvægara í alþjóðlegri samvinnu,“ segir Michele Griffin. „Traust á hverju öðru. Sú tilfinning að við séum öll eitt mannkyn og innbyrðis tengd. Og leiðtogafundinum er ætlað að minna okkur öll á að við höfum verk að vinna í sameiningu til að leysa stærstu sameiginlegu vandamál okkar. Og þetta á ekki einungis við þá sem sækja fund Sameinuðu þjóðanna í september, heldur alla.”

Ungmennafulltrúar á þingi í Katar um minnst þróuðu ríki heims.
Ungmennafulltrúar á þingi í Katar um minnst þróuðu ríki heims. Mynd: UN News/Anold Kayanda

 3 Hverjir gegna lykilhlutverki?

Tveir aðgerðadagar (Action Days) verða haldnir í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna fyrir fundinn. Þar munu fulltrúar borgaralegs samfélags, einkageirans, fræðaheimsins, landshluta- og sveitastjórna, ungmenni, aðildarríki og margir aðrir, fá tækifæri til að brjóta til mergjar helstu þemu fundarins.

„Þegar fólk hugsar um Sameinuðu þjóðrnar, þá finnst því þær vera mál ríkisstjórna,“ segir Griffin. „Og það er vissulega rétt, því fulltrúar þeirra sitja við samningaborðið, en þau gera það í umboði þjóða sinna.“

„Fulltrúar borgaralegs samfélags og ungmenni hafa verið virk í aðdragandanum og verða til staðar á leiðtogafundinum,“ segir Griffin. „Einkageirinn verður hér í viðurkenningarskyni við hið mikla hlutverk sem hann hefur að gegna í að móta líf fólks og tækifæri í dag. Leiðtogafundurinn er fyrir alla og allir ættu að sjá sig endurspeglast í honum.“

Great Thunberg tók þátt í mótmælum við höfuðstöðvar SÞ þegar hún var 16 ára.
Great Thunberg tók þátt í mótmælum við höfuðstöðvar SÞ þegar hún var 16 ára.Mynd: UN Photo/Manuel Elías

 4 Hvað gerist næst?

Fundarboðendur hafa ekki dregið dul á að umræðunni lýkur ekki þegar fjögurra daga fundahaldi lýkur.

Michele Griffin líkir þessu við upphaf ferlis. „Þau fræ, sem sáð verður á leiðtogafundinum, munu blómgast hægt og bítandi,“ segir hún. „Okkur ber öllum að draga ríkisstjórnir til ábyrgðar og sjá til þess að þær standi við skuldbindingar sínar á alþjóðlegum vettvangi.“

Að leiðtogafundinum loknum mun kastljósið beinast að því að hrinda í framkvæmd ráðleggingum og skuldbindingum í samningnum um framtíðina.

Aserbædjan heldur Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í nóvember (COP29), en þar verður fjármögnun loftslagsaðgerða í brennidepli.

Í desember er ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um landlukt ríki í Botswana þar sem leitað verður lausna um sjálfbæra þróun.

Í júní er svo röðin komin að uppbyggingu alþjóðlega fjármálageirans, þegar Alþjóðleg ráðstefna um fjármögnun þróunar (Ffd4) verður haldin á Spáni. Á meðal þeirra stofnana sem um ræðir eru Alþjóðabankinn og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn. Þeir ráða miklu um hvernig og með hvaða skilyrðum lán, styrkir og tæknileg aðstoð eru veitt þróunarríkjum.

5 Hvernig get ég verið virk(ur)?

 Act Now er alheimsherferð Sameinuðu þjóðanna til að virkja almenning í baráttu fyrir friðsælli og sjálfbærari framtíð. Markmið þessa vettvangs er að fjölga þeim sem láta til sín taka á jákvæðan hátt, hvort heldur sem er með sjálfboðaliðastarfi  í heimahéraði, að leggja lóð á vogarskálarnar í ákvarðanatöku í nærumhverfinu eða með því að breyta neyslu sinni til umhverfisvænni vegar.

Ungmennaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna reynir einig að virkja ungt fólk með því efna til herferðarinnar #YouthLead. Það er ákall til veraldarleiðtoga um stuðla að því að hnattræn ákvarðanataka endurspegli betur þau samfélög sem þeir starfa fyrir.

Sérstaka síðu um Leiðtogafundinn má sjá hér.