Gasasvæðið. Hungur. Átök hafa verið „sérstaklega hörð“ í borginni Khan Younis í suðurhluta Gasasvæðisins, að sögn UNRWA, Palestínuflóttamannahjálparinnar. Fjórum sinnum fleiri hafa leitað skjóls í húsakynnum UNRWA en hægt er að hýsa með góðu móti.
„Það er einfaldlega ekki nægur matur til skiptanna,“ sagði í tísti frá UNRWA.
Samræmingarskrifstofa mannúðarmála Sameinuðu þjóðanna (OCHA) segir að átök hafi verið nærri tveimur sjúkrahúsum í Khan Younis. Á Nasser-sjúkrahúsinu „er ekki hægt að hjúkra sjúklingum vegna harðra átaka og sprengjuárása,“ en þar er þeim sinnt sem særast í átökunum.
Fréttir berast af straumi Palestínumanna til Rafah, „sem er þegar ofsetin þrátt fyrir öryggisleysi.“
Úttekt
UNRWA hefur ítrekað að allt verði gert til að hjálpa íbúum Gasa, þrátt fyrir andstreymi vegna alvarlegra ásakana á hendur nokkrum starfsmönnum um þátttöku í árásinni á Ísrael 7.október. UNRWA eru stærstu hjálparsamtök á Gasa.
Hungur blasir við
Tedros forstjóri Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) varaði við því að niðurskurður fjárframlaga til UNRWA myndi „eingöngu bitna á íbúum Gasa.“
Þeir standa frammi fyrir hættu á hungursneyð, farsóttum og uppflosnun eftir nærri fjögurra mánaða sprengjuárásum Ísraels eftir hryðjverkaárás Hamas. Hún kostaði 1200 manns lífið, auk þess sem 250 voru teknir í gíslingu.
Rúmlega tvær milljónir Gasabúa treysta á mannúðaraðstoð. Mannnúðarstarfið er, hins vegar, „að hruni komið“, að sögn Philippe Lazzarini forstjóra UNRWA.
UNRWA hefur að jafnaði þrettán þúsund manns í vinnu við að sinna Palestínumönnum á Gasasvæðinu. Enn eru þrjú þúsund að störfum á átakasvæðinu. Þeir hafa frá upphafi átakanna séð um að útvega rúmlega einni milljón Palestínumanna húsaskjól og sjá óbreyttum borgurum fyrir mat, eftir föngum, og heilbrigðisþjónustu.
26.420 hafa verið drepnir á Gasa frá 7.október að sögn OCHA, sem hefur tölur sínar frá heilbrigðisráðuneyti Gasa. 220 ísraelskir hermenn hafa verið drepnir í átökum að sögn Ísraelshers.