Kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna (CSW68) hefur komið saman til 68.árlegs fundar síns í New York (11.-22.mars). Þetta er stærsta árlega samkoma Sameinuðu þjóðanna um jafnrétti og valdeflingu kvenna. Fundarefnið að þessu sinni snýst um að hraða þróun í átt til jafnréttis kynjanna og efla og auka fjármagn til stofnanna sem sinna kynjamálefnum.
Lausnir til að vinna gegn fátækt kvenna í heiminum eru almennt viðurkenndar. Nauðsyn krefur að fjárfest sé í stefnumótun og áætlunum til að takast á við kynbundinn ójöfnuð og efla starf og forystu kvenna.
![Kynning á málefnum afganskra kvenna. Fatima Gailani fyrrverandi forseti afganska Rauða hálfmánans, Fawzia Koofi, fyrrv. varaforseti afganska þingsins, Asila Wardak, fyrrv. yfirmaður SÞ-sviðs afganska utanríkisráðuneytiisins. og Naheed Sarabi, fyrrv. vara-fjármálaráðherra. og Margot Wallström, fyrrv.utanríkisráðherra Svía](https://unric.org/is/wp-content/uploads/sites/10/2024/03/432540310_811530624336298_5986767879039387099_n-1-392x261.jpg)
Slíkar fjárfestingar geta skilað miklum ágóða. Losa má rúmlega 100 milljónir kvenna úr fátæktargildru ef ríkisstjórnir setja menntun og fjölskylduáætlanir í forgang, og auka félagslega aðstoð.
Skapa má hundruð milljóna starfa
Skapa má nærri 300 milljónir starfa fyrir 2035 með fjárfestingum í umönnunarþjónustu. Með því að jafna atvinnuþátttöku kynjanna má auka þjóðarframleiðslu í öllum heimshlutum um 20%.
Ríkisstjórnir, aðilar borgaralegs samfélags, sérfræðingar og baráttufólk alls staðar að kemur saman á CSW68-fundinum til að komast að samkomulagi um aðgerðir og fjárfestingar til að binda enda á fátækt kvenna og kynjamisrétti.
![Einn af fundum í tengslum við þing kvennanefndarinnar (Commission on the Status of Women (CSW68)).](https://unric.org/is/wp-content/uploads/sites/10/2024/03/432626803_811530721002955_1537804925337065595_n-392x261.jpg)
Heimurinn stendur nú á tímamótum þegar jafnrétti kynjanna er annars vegar. 10.3% kvenna búa við sárafátækt í dag og þær eru snauðari en karlar. Hraða þarf árangri við að vinna á fátækt tuttugu og sexfalt ef Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun eiga að nást fyrir 2030.
Að hraða framþróun krefst fjárfestinga. Tölur frá 48 þróunarríkjum sýna að þörf er á 360 milljarða dala fjárfestingum aukalega á ári ef markmið um jafnrétti og valdeflingu kvenna innan helstu Heimsmarkmiðanna eiga að nást, þar á meðal hvað varðar fátækt og hungur.
Vert er að hafa í huga að í ár munu 2.6 milljarðar manna greiða atkvæði í kosningum og hafa í hendi sér að krefjast aukinna fjárfestinga í jafnréttismálum.
![António Guterres á fundi samtaka innan raða borgaralegs samfélags í tengslum við fund kvennanefndarinnar (CSW68).](https://unric.org/is/wp-content/uploads/sites/10/2024/03/432865614_811530664336294_1218316919427460502_n-392x261.jpg)
Konur deyja í stríðum karla
António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði í ræðu sinni á fundi Kvennanefndarinnar að brýnt væri að verja réttindi kvenna sem væru nú í hættu. Hann sagði að bakslag hefði orðið á sumum sviðum þar sem árangur hefði náðst með harðfylgi. Ofbeldi gegn konum færðist í vöxt og stafræna bilið breikkaði.
Hann lagði áherslu á að konur yrðu hlutfallslega harðar úti í styrjaldarátökum en karlar.
„Á átakasvæðum í heiminum verða konur og stúlkur fyrir barðinu á styrjöldum karla,“ sagði hann. Guterres hvatti til tafarlauss vopnahlés á Gasasvæðinu og að mannúðaraðstoð yrði leyfð.
Hann sagði ástandið þar skelfilegt og minnti á að tveir þriðju hlutar látinna og særðra í árás Ísraels væru konur og stúlkur. Hann benti á hræðilegar frásagnir af kynferðislegu ofbeldi sem palestínskar konur hefðu sætt í haldi Ísraela, í húsrannsóknum og á vegatálmum á herteknu svæðunum í Palestínu.
Guterres sagði að ný skýrsla Pramilla Patten sérstaks erindreka Sameinuðu þjóðanna sýndi fram á hryllilegt kynferðislegt ofbeldi og pyntingar sem Hamas-samtökin og aðrir vígahópar hefðu beitt konur í árásinni á Ísrael 7.október.