Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs: Hraun í skapalón og endurnýtt efni

Arnhildur Pálmadóttir á arkitektastofu sinni í Reykjavík. Mynd: Aldís Pálsdóttir/með góðfúslegu leyfi.
Arnhildur Pálmadóttir á arkitektastofu sinni í Reykjavík. Mynd: Aldís Pálsdóttir/með góðfúslegu leyfi.

Arnhildur Pálmadóttir arkitekt hefur teiknað hús, sem skilja eftir sig um fjörutíu prósent af kolefnisfótspori sambærilegar byggingar gera almennt. Hún fékk á dögunum Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir viðleitni sína til að auka sjálfbærni í hinum þýðingarmikla byggingargeira.

Lykillinn að þessu er að endurnýta byggingarefni. Hún lætur sér hins vegar ekki nægja að stuðla að skilvirkari nýtingu núverandi byggingarefna, því hún hefur bryddað upp á byltingarkenndri aðferð sem kallast hraunmyndanir eða „lavaforming”. Hún felst í því að nýta hraunflæði og láta það renna í eins konar skapalón til að framleiða sjáflbæra byggingareiningar.

Vefsíða UNRIC ræddi við Arnhildi Pálmadóttur á arkitektastofu hennar í Reykjavík. Hún starfrækir Íslandsdeild dönsku arkitekta- og nýsköpunarstofunnar Lendager, sem sérhæfir sig í sjálfæbrni og hringrás í byggingariðnaði.

Arnhildur Pálmadóttir tekur við Umhverfisverðlaununum úr hendi Anders Hansen forseta Norðurlandaráðs æskunnar. Mynd: Norden.org/Magnus Fröderberg
Arnhildur Pálmadóttir tekur við Umhverfisverðlaununum úr hendi Anders Hansen forseta Norðurlandaráðs æskunnar. Mynd: Norden.org/Magnus Fröderberg

Mest losun CO2

Þótt athyglin beinist í ríkum mæli að millilandaflugi, eru mannvirki og byggingariðnaðurinn stærsta uppspretta losunar gróðurhúsalofttegunda. Að mati UNEP, Umhverfisáætlunar Sameinuðu þjóðanna,  má rekja hvorki meira né minna en 37% af heildar losun í heiminum til bygginga og framkvæmda.

2.) Arnhildur fékk umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs m.a.fyrir viðleitni sína til að minnka losun koltvísýrings og auka hringrás í byggingariðnaði. Mynd: Aldís Pálsdóttir.
Arnhildur fékk umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs m.a.fyrir viðleitni sína til að minnka losun koltvísýrings og auka hringrás í byggingariðnaði. Mynd: Aldís Pálsdóttir.

Þýðingarmikið er að ná árangri á þessu sviði. Fram kom í opnunarræðu António Guterres aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna á COP29, Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, að skera þarf niður losun um 9% á ári til 2030 ef það markmið á að nást að halda hlýnun jarðar innan við 1.5 gráðu á Celsius.

„Það er munur til dæmis á Íslandi og Danmörku en almennt má gera ráð fyrir að helmingur losunar þessa geira komi frá framleiðslu byggingarefna,“ segir Arnhildur í viðtali við UNRIC. „Íslenska talan er aðeins lægri eða 45%, Áður var losun sem átti sér upphaflega stað t.d. í Kína ekki tekin með í reikninginn. Af þeim sökum leit þetta betur út hjá okkur en nú erum við hreinskilnari og því er þetta svona há tala.”

Vanmetinn hluti

Samkvæmt nýrri skýrslu UNEP hefur náðst töluverður árangur í að minnka losun frá byggingum. Sú viðleitni hefur einkum beinst að hitun, kælingu og lýsingu. Hins vegar hefur sú losun sem rekja má til hönnunar, framleiðslu og notkunar efna, á borð við sement, stál og ál, setið á hakanum.

Og það er einmitt hér sem Arnhildur kemur til skjalanna.

Byggingarframkvæmdir í Reykjavík: Mynd: Yadid Levy / Norden.org
Byggingarframkvæmdir í Reykjavík: Mynd: Yadid Levy / Norden.org

Að endurnýta efni til að minnka losun

 Hún vitnar einmitt í nokkrar skýrslur Sameinuðu þjóðanna, þar sem sýnt er fram á að ef G7 ríkin, félagsskapur ríkustu þjóða heims, einbeittu sér að því að láta endurnýta byggingarefni, sem þegar hefur losað koltvísýring, mætti lyfta grettistaki. Til þess þyrfti þó kerfislægar breytingar. „Við erum að brjóta niður fjöll og nota kol og olíu til þess að búa til byggingarefni,” minnir Arnhildur á. „Að nýta efnið sem er búið að losa kolefni skiptir bara öllu máli.”

Þetta er hins vegar síður en svo reglan. Alls staðar má sjá krana rífa niður steinsteyptar byggingar og tæta niður veggi og flytja síðan steypu og gler, timbur, járn og stál í einni bendu í næstu landfyllingu.

Þetta er mikil skammsýni að mati Arnhildar.

Úthverfi í Helsinki. Mynd: Benjamin Suomela / Norden.org
Úthverfi í Helsinki. Mynd: Benjamin Suomela / Norden.org

Við þurfum að brjóta upp mynstrið

 „Danska arkitektafyrirtækið, sem ég starfa með, hefur með góðum árangri tekið gamlar iðnaðarbygginar og breytt þeim í skrifstofur eða íbúðir. Einnig hefur það tekið tvö gömul hús frá mismunandi tímabilum, tekið í sundur, og notað byggingarefnið aftur til að byggja úr því nýjan leikskóla.”

Hún bendir á nokkur séríslensk dæmi. „Ef maður skoðar bara timbur þá er svakalega miklu hent. Einungis timbrið í umbúðunum utan um byggingarefnið, sem flutt er til landsins, eru fleiri tonn á viku. Það er síðan kramið til að minnka pláss og endar á haugunum eða er notað í kurl. Þetta mætti nota sem byggingarefni. Til dæmis mætti smíða glugga, nota í klæðingu og fleira.

Sama gildir um málma, þeir eru fluttir út til bræðslu, sem er afar orkufrekt ferli.

Arnhildur stýrir Íslandsdeild dönsku arkitektastofunnar Lendager.
Arnhildur stýrir Íslandsdeild dönsku arkitektastofunnar Lendager. Mynd: Lendager

„Við getum gert margt með þetta en það eru kerfin sem þarf að breyta.”

Hún bendir á Íslandsbankareitinn. Þar var vissulega mygla í lífrænum efnum frá þeim tíma sem þar var rekið frystihús. „En með því að opna og hreinsa til hefði mátt nota styrkinn í steypunni sem grunn, það væri ekkert mál að nota það aftur.”

Þegar tryggingarnar hafa borgað út

Dæmi um vandann er að í sumum tilfellum hafa tryggingafélög metið byggingar ónýtar og borgað út tryggingafé.

Arnhildur Pálmadóttir verður fyrsti fulltrúi Íslands á arkitektúr tvíæringnum í Feneyjum. Mynd: Aldís Pálsdóttir.
Arnhildur Pálmadóttir verður fyrsti fulltrúi Íslands á arkitektúr tvíæringnum í Feneyjum. Mynd: Aldís Pálsdóttir.

„Hugsaðu þér hvað við fengjum miklu fallegri hús og áhugaverðari íbúðir ef við værum að byggja okkur inn í burðarkerfi í eldra húsi og þyrftum allt í einu að hafa súlu inn í miðjunni og eitthvað svona öðruvísi,” segir Arnhildur. „En stundum er komið svo langt í ferlinu að trygingarnar eru búnar að borga skaðann. Þegar húsið hefur verið dæmt ónýtt, get ég get ekki komið og sagt ég ætla að

endurnýta hluta af því þegar búið er að greiða út tryggingarféð. Þetta er dæmi um ýmislegt sem stoppar okkur.”

Hún nefnir einnig niðurrif.

„Niðurrifsverktakar bjóða í verk og koma með niðurrifskrabbann. Það sem við vildum er að þeir hringdu í okkur og við fengjum að nota efnið í okkar byggingar en þá þarf að taka þetta öðru vísi niður og það er kostnaðarsamt. Til að nota spýturnar þarf að losa þær og halda þeim heilum. Þá þurfum við að koma fyrr inn í það ferli líka. Því miður er ástandið þannig að við  ryðjumst áfram, kaupum bara nýtt og hendum því gamla. Það þarf að brjóta þetta upp og skilgreina upp á nýtt. Ég held ekki að hagnaðurinn muni neitt minnka við að gera hlutina með nýjum hætti, heldur færast til, að því ógleymdu að það verður til nýsköpun.”

COP29 er haldin í Bakú í Aserbædjan
COP29 er haldin í Bakú í Aserbædjan. Mynd: UN Climate Change/Habib Samadov

Lífsferilsgreining

 Danir hafa gengið á undan með góðu fordæmi sem er lagasetning um lífsferilsgreiningu (Life Cycle Assessment (LCA)). Enn sem komið er nær hún aðeins til opinberra nýbygginga. „Þetta felur í sér að það þarf að reikna út kolefnissporið af losun. Það er það skársta sem við höfum núna,” segir Arnhildur.  „Búið er að ákveða tiltekna tölu um hámarkslosun byggingar. Þótt þetta eigi aðeins við um opinberar byggingar, á hámarkstalan eftir að lækka og ná til fleiri bygginga. Með þessu móti má skattleggja hús sem nota mengandi efni og umbuna þeim sem nota minna af slíku.“

Lífsferilsgreining verður tekin upp í byggingarreglugerð á Íslandi að ári, en það er ekkert þak ennþá að sögn Arnhildar.

Svokallað “Lavaforming” er ný og byltingarkennd hugmynd. Mynd: Aldís Pálsdóttir.
Svokallað “Lavaforming” er ný og byltingarkennd hugmynd. Mynd: Aldís Pálsdóttir.

Vísindaskáldskapur?

Næsta vor verður Arnhildur Pálmadóttir fulltrúi Íslands, sem tekur þátt í Feneyja-tvíæringnum í arkítektúr í fyrsta skipti. Þótt innlent steinefni sé notað í ríkum mæli í  byggingar á Íslandi er það mulið niður og vinnslan er orkufrek, auk þess sem sement er innflutt. Leir til múrsteinagerðar er lélegur og innlent timbur sjaldséð. Af þeim sökum þurfti Arnhildur að leita annað þegar hún leitaði að nýju og sjálfbæru efni í byggingar.

Og af hverju er nóg á Íslandi? Til dæmis hrauni! Alltaf hefur verið til nóg af því og gosið í Holuhrauni varð um það leyti sem hún hóf að kanna málið. Og svo bættust við Reykjanes-eldarnir á síðustu árum.

„Náttúran formar sig sjálf,” segir hún, „en spurningin er hvort við getum gert sambærilega hluti með því að stýra hraunrennsli, búið til mót eða skapalón, sem hraun rennur í. Eftir, því sem við skoðum þetta meira, hefur flækjustigið minnkað.”

Hún minnir líka á að samkvæmt nýju stjórnarskránni, tilheyri allt sem komi upp úr jörðinni landsmönnum öllum. “Í samræmi við það er hugmyndin sú að búa til einingar, sem hver og einn gæti sótt og púslað saman.”

Tölvugerð mynd af hraunmyndunum.
Tölvugerð mynd af hraunmyndunum.

En er þetta ekki eins og hver annars vísindaskáldskapur?

Arnhildur vitnar í samstarfsmann sinn Andra Snæ Magnason, sem benti á að sama gilti um gufuaflið fyrir hundrað árum.„Þá var litið á það sem fjarstæðukendan vísindaskáldskap en nú þykir sjálfsagt að nota það til orkuframleiðslu.”

Og hugmyndin sem nefnd er hraunmyndun, gengur ekki aðeins út á að nýta  „byggingarefni jarðar” heldur einnig að nýta afl jarðarinnar. Niðurstaðan er sjálfbærari en notkun stáls og steypu.

„Við tökum yfir hið langa byggingarferli jarðarinnar og stýrum því. Hugsanlega mætti skapa heila borg á fáum vikum,“ segir Arnhildur. „Við búum til sjálfbæra uppsprettu byggingarefnis, sem einnig útvegar þá orku sem til þarf að móta og vinna efnið.“

Hraunmyndanir voru fyrst kynntar til sögunnar á sýningu í tengslum við Hönnunarmars 2022, en frumsýning á alþjóðlegum vettvangi verður í Fenyjum í vor. Kannski er það viðeigandi að Ítalía verði fyrir valinu, land sem er ekki síður þekkt fyrir eldfjöll sín en Ísland.

Sjá nánar um Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs hér.