Allt frá því landamæri voru fundin upp hefur fólk ekki látið þau hindra sig í að heimsækja erlend ríki, ekki bara til að svala forvitni sinni heldur einnig til að setjast að og leita sér að atvinnu. Oftar en ekki hefur þetta fólk tekið áhættu, staðráðið í að vinna bug á mótlæti í þágu betra lífs.
Slíkar vonir hafa alltaf verið drifkraftur framfara mannkynsins. Sögulega séð hafa fólksflutningar ekki aðeins aukið velmegun þeirra sem flutt hafa sig um set, heldur einnig mannkynsins í heild.
Og þetta á enn við rök að styðjast. Í skýrslu sem ég hef kynnt á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, hef ég dregið saman nigurstöður rannsókna sem sýna að, að minnsta kosti þegar best lætur, hagnist ekki aðeins aðkomumennirnir heldur einnig löndin sem þeir setjast að í og heimalönd þeirra.
Hvernig má þetta vera?
Í þeim löndum sem þeir setjast að, taka innflytjendurnir að sér störf sem fólk sem fyrir er, vill síður vinna. Þeir sinna að stórum hluta þjónustu sem þjóðfélagið getur ekki verið án. Þeir sinna börnum, sjúkum og öldruðum, koma uppskeru í hús, sinna matseld og þrífa skrifstofur og heimili
Og þeir stunda ekki aðeins líkamleg störf. Nærri helmingur aðfluttra 25 ára og eldri í iðnríkjum á tíunda áratugnum, var á einhvern hátt sérhæft starfsfólk. Hvort sem fólkið býr yfir sérstökum hæfileikum eða ekki eru innflytjendur oft athafnamenn sem hleypa af stokkunum nýjum fyrirtækjum, allt frá kaupmanninum á horninu til upphafsmanna Google, leitarvélarinnar. Enn aðrir eru myndlistarmenn, tónlistarmenn eða rithöfundar sem hleypa nýju lífi menningar og sköpunar í sína nýju heimabæi.
Innflytjendurnir auka einnig eftirspurn eftir vörum og þjónustu, auka þjóðarframleiðslu og greiða almennt meira í skatta en þeir fá til baka í gegnum velferðarkerfið og aðra styrki. Og í til dæmis í Evrópu þar sem fólki fjölgar mjög hægt, ef nokkuð, leggur ungt aðkomufólk fram sinn skerf til að leiðrétta halla á fjárvana lífeyrissjóðum.
Þegar öllu er á botninn hvolft eru þau ríki sem taka á móti innflytjendum opnum örmum og tekst að aðlaga þá samfélaginu, með þeim öflugustu, efnahagslega, félagslega og menningarlega í heimi
Á sama tíma hagnast heimalöndin á því fé sem þetta fólk sendir heim en alls námu heimsendingar 232 milljörðum dala á síðasta ári. Þar af fóru 167 milljarðar til þróunarlanda en það er meira en öll samanlögð opinber þróunaraðstoð. Það eru ekki aðeins viðtakendur fjárins sem hagnast, heldur líka þeir sem útvega þá vöru og þjónustu sem keypt er fyrir þetta fé. Þetta hefur þau áhrif að þjóðartekjur aukast og fjárfesting eflist.
Fjölskyldur sem sem státa af einum eða fleiri fjölskyldumeðlimum í vinnu erlendis, verja meira fé til menntunar og heilsugæslu heima fyrir. Ef fólkið er fátækt eins og í hinni sígildu mynd Le Mandat frá Senegal, kynnist fjölskyldan fjármálaþjónustu eins og bönkum, sparisjóðum og smáfjármálastofnunum við það að fá fé sent að utan. Ríkisstjórnir gera sér líka betur og betur grein fyrir því að brottfluttir borgarar geta nýst þróun heima fyrir og rækta tengls við þá. Margar ríkisstjórnir reyna að ýta undir þessi tengsl með því að leyfa tvöfaldan ríkisborgararétt, leyfa utankjörstaðaratkvæðagreiðslur erlendis, efla starfsemi ræðismanna og vinna með útflytjendum við að efla þróun í heimahéruðum þeirra. Í sumum ríkjum hafa samtök innflytjenda tekið að sér að fjármagna þróunarverkefni í smáum stíl í heimahögunum.
Innflytjendur sem hafa haslað sér völl á nýjum slóðum, fjárfesta oft í heimalöndum sínum og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama. Þar að auki njóta heimalöndin góðs af áunnum hæfileikum þeirra og tæknikunnáttu. Forritunariðnaður Indlands á að miklu leyti rætur að rekja til samskiptatengsla Indverja erlendis, innflytjenda sem snúið hafa heim og indverskra athafnamanna heima og erlendis. Að sama skapi hafa Albanir sem unnið hafa í Grikklandi, flutt með sér heim landbúnaðarþekkingu sem stuðlað hefur að auknum afköstum í landbúnaði. Og svona mætti lengi telja.
Já, vissulega eru slæmar hliðar á fólksflutningum á milli landa. Það er hins vegar kaldhæðnislegt að sum vandamálin eiga rætur að rekja til tilrauna til að hindra þá; þannig á fólk sem ekki hefur tilskylda pappíra mest á hættu að lenda í klóm ófyrirleitinna smyglara og verða ýmiss konar misnotkun að bráð. Og vissulega er spenna á meðan rótgrónir íbúar og innflytjendur eru að venjast hverjir öðrum, ekki síst þegar trúarbrögð, siðir og menntunarstig eru mismunandi. Og því er ekki að leyna að fátæk ríki líða fyrir það, þegar hæfileikaríkasta fólkið, til dæmis heilbrigðisstarfsmenn í sunnanverðri Afríku, sækjast eftir betri launum og aðstæðum erlendis.
En ríki eru stöðugt að læra að taka á þessum vandamálum og það er auðveldara ef þau taka höndum saman og læra af reynslu hvers annars. Slíkt er einmitt markmið samræðna hátt settra ráðamanna um fólksflutninga og þróun á vettvangi Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna nú í september. Það er ekki ætlast til þess af neinu ríki að það hætti að gæta landamæra sinna eða framselji öðrum stefnumörkun sína. En öll ríki og ríkisstjórnir hagnast á því að ræða málin og skiptast á hugmyndum. Þess vegna vona ég að fundurinn í september marki nýtt upphaf. Svo lengi sem ríki eru til, mun fólk flytjast á milli ríkja. Hvað sem hverjum finnst eru fólksflutningar staðreynd. Það er engin ástæða til að reyna að stöðva fólksflutninga, heldur til að koma stjórn á þá og auka samvinnu og skilning af beggja hálfu. Fólksflutningar á milli ríkja geta verið öllum til góðs.
Kofi A. Annan er framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.