Martin Griffiths framkvæmdastjóri hjálparstarfs hjá Sameinuðu þjóðunum bendir á í blaðagrein sem birtist í nokkrum stórblöðum að þótt þótt þær upphæðir sem samtökin hafi beðið um til hjálparstarfs virki háar, séu þær aðeins lítið brot þess fjár sem varið er til hernaðar.
Griffiths er framkvæmdastjóri OCHA, Samræmingarskrifstofu mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum.
Grein Griffiths sem birtist meðal annars í Morgunblaðinu fer hér á eftir.
Hjálparstarf er aldrei of dýru verði keypt
Það ætti ekki að koma neinum á óvart að margir heimshlutar glíma við erfiða tíma. Skuggi heimsfaraldursins hvílir á okkur öllum. Hiti, regn og ofsaveður herja á okkur nú þegar loftslagskreppan herðist.
![Afganistan](https://unric.org/is/wp-content/uploads/sites/10/2021/09/image1170x530cropped-2-392x178.jpg)
Sameinuðu þjóðirnar og samstarfsaðilar okkar telja að 274 milljónir manna þurfi fé, mat, lyf, skjól og aðra mannúðaraðstoð í 63 ríkjum. Þetta er 17% aukning.
Fjáröflunarstarf okkar miðar að því að tryggja að fólk lifi af, öðlist von og geti lifað við reisn. Þeir sem við hjálpum hafa orðið fyrir hamförum, orðið fyrir barðinu á átökum eða verið stökkt á flótta einfaldlega vegna fæðingarstaðar síns.
Afganistan þarfnast nú 4,5 milljarða. Það þarf 2,8 miljarða til að hjálpa Eþíópíubúum að sigrast á þurrkum og átökum. Það kostar 10 milljarða að koma flóttamönnum víða um heim til hjálpar.
Að hjálpa þeim sem eru í mestri hættu
![](https://unric.org/is/wp-content/uploads/sites/10/2022/01/COX_1-385x308.jpg)
Áætlanir okkar byggjast á félagslegum og efnahagslegum staðreyndum. Við reynum að forðast tvítalningu og erum meðvituð um kostnað. Við gerum okkur grein fyrir að við getum ekki gert allt. Við stefnum að því að hjálpa tveimur þriðju hlutum þeirra sem eru í mestri lífshættu eða hafa tapað öllu.
Í mannúðarstarfi Sameinuðu þjóðanna og samstarfsaðila okkar er tekist á við margs konar aðstæður og oft er um líf eða dauða að tefla. Árið 2021 útveguðum við 10 milljónum Jemenbúa heilsugæslu og komum í veg fyrir hungursneyð í Suður-Súdan. Okkur hefur tekist að verða klókari og skilvirkari. Við notumst í ríkari mæli við peningaflutninga og að koma aðstoð til fólks áður en neyðin nær heljartökum. Við vitum að hamfarir og stríð herja öðru vísi á konur en karla. Þær eru útsettari í ríkari mæli fyrir kynferðislegu ofbeldi og verða að leggja meira á sig til að sjá sér farborða.
Verkefnin eru stundum mjög sértæk. Nýlega heimsótti ég athvarf fyrir fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis í Eþíópíu. Það lætur lítið yfir sér, stendur rótum í nærsamfélaginu og bjargar bókstaflega lífi kvennanna sem ég hitti. Þær höfðu verið misnotaðar í hatrömmu borgarastríði.
Annars staðar í áætlun okkar fyrir árið 2022 er að finna aðstoð við Afganistan. Við sjáum um helmingi Afganistans fyrir mat og við sjáum sýrlenskum flóttamönnum fyrir hita í vetrarkuldum. Við bólusetjum milljónir í Mjanmar fyrir Covid-19 á sama tíma og við tryggjum skólagöngu barna annars staðar eftir jarðskjálfta eða fellibylji.
![](https://unric.org/is/wp-content/uploads/sites/10/2022/01/COX_2-385x308.jpg)
Við erum þakklát fyrir að hafa náð að safna 17 milljörðum dala til sameiginlegs mannúðarstarfs okkar. Stærstur hluti þess fjár kemur úr vasa skattgreiðenda í auðugum ríkjum. Þetta er sérstaklega rausnarlega í ljósi Covid-19-faraldursins.
Að festa fé þar sem það skilar mestu
Engu að síður þurfum við að minna ríku löndin á að þessi fjárútlát eru aðeins lítið brot þess fjár sem varið er til hernaðar. Einnig að ef við ráðum ekki niðurlögum veirunnar alls staðar, snýr hún aftur til að ógna okkur. Barnabörn okkar munu ekki fyrirgefa okkur ef við gerum ekki meira til að koma í veg fyrir og búa okkur undir loftslagshamfarir.
Við höfum á að skipa öflugu hjálparstarfsbandalagi. Það skipa jafnt samtök heimamanna á hverjum stað sem öflugar sérstofnanir Sameinuðu þjóðanna. Ég er stoltur af því að vinna með þessari fjölbreyttu og samviskusömu sveit hjálparstarfsmanna sem flestir koma úr röðum þeirra samfélaga sem við þjónum.
Til þess að hjálparstarfsmenn geti leyst verkefni sín af hendi verðum við að treysta á að ríkisstjórnir, fyrirtæki, sjóðir og einstaklingar láti fé af hendi rakna til þeirra markmiða sem tilgreind eru í áætlun okkar um mannúðarstarf í heiminum 2022 (2022 Global Humanitarian Overview).
Mannúð og auðmýkt
Auk þess að halda í við síbreytilegt neyðarástand víða um heim, ber hjálparstarfi að líta sjálft sig gagnrýnum augum. Okkur ber að hlusta í ríkari mæli á nauðstatt fólk og gefa því kost á að vera með í ákvarðanatöku. Alþjóðlegu hjálparstarfi ber að sýna auðmýkt og virðingu í samstarfi við staðbundnar stofnanir og stíga til hliðar þegar þess er ekki þörf.
Við verðum að skera upp herör gegn kynþáttahyggju og hugsunarhætti nýlendustefnu innan vébanda stofnana okkar. Slík hugsun er svik við gildi okkar og grefur undan lögmæti okkar. Við verðum líka að bregðast harðar við misferli og misnotkun.
Nútímamannúðarstarf á rætur að rekja til blóðugra styrjalda í Evrópu á nítjándu öld. En aðstoð við bágstadda stendur sterkum rótum í öllum menningarheimum og heimshlutum. Við erum öll hjálparstarfsmenn.
Auðug ríki hafa varið trilljónum í aðstoð við þegna sína tengslum við Covid-19, hvort heldur sem er atvinnuleysisbætur eða ókeypis bólusetningar. Þetta er mannúðarastoð eða hjálparstarf í þágu eigin borgara. Í samanburði er 41 milljarðs dala ákall til langtíma hjálparstarfs aðeins dropi í hafið. Víða felst langtímalausn vanda í friðarsamningi eða langvinnri og kostnaðarsamri efnahagslegri þróun. En í millitíðinni þurfum við á mannúðaraðstoð að halda til þess að halda fólki á floti og bjarga lífi þess.
Slíkt er aldrei of dýru verði keypt.
Höfundur er framkvæmdastjóri hjálparstarfs Sameinuðu þjóðanna.