A-Ö Efnisyfirlit

Helförin var hátindur aldagamals gyðingahaturs

Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að ekki megi líta svo á að helförin hafi einungis verið geðbiluð illvirki nasista. Hún hafi verið hátindur aldagamals gyðingahaturs. Í dag er alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb helfararinnar.

Helförin
Helförin í hnotskurn

„Það er hættuleg villa að halda að Helförin hafi einfaldlega verið árangur geðbilunar glæpahóps nasista. Þvert á móti var helförin hátindur þess sem nú er kallað gyðingahatur. Það er árþúsunda gamals hatur þar sem gyðingar voru gerðir að blórabögglum og mismunað.“

Frelsun Auschwitz

Aðalframkvæmdastjórinn António Guterres lét þessi orð falla í ávarpi í tilefni af Alþjóðlegum minningardegi um fórnarlömb Helfararinnar. Hann er haldinn 27.janúar ár hvert en þann dag árið 1945 frelsaði Rauði herinn Auschwitz-Birkenau útrýmingarbúðirnar í Póllandi úr höndum nasista og batt þar með endi á Helförina.

Til að minnast 75 ára afmællis þessa atburðar er dagsins minnst með þemanu „75 árum eftir Auschwitz. Menntun og minning Helfararinnar í þágu hnattræns réttlætis“. Með vali þessa þema er hnykkt á mikilvægi áframhaldandi sameiginlegra aðgerða gegn gyðingahatri og hvers kyns hlutdrægni til að tryggja virðingu fyrir reisn og mannréttindum fólks hvarvetna.

Í ávarpi sínu minnir á að jafnvel eftir að hörmungar Helfararinnar urðu öllum ljósar, sé gyðingahatur enn þrálátt.

Gyðingahatur tekur á sig nýja mynd

„Stundum tekur það á sig nýjar myndir og finnur sér farvegi með nýrri tækni, en það er alltaf sama gamla hatrið. Við megum aldrei sofna á verðinum. Undanfarin ár höfum við horft upp á aukningu árása sem rekja má til gyðingahaturs bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, sem er hluti af ógnvekjandi uppgangi útlendingahaturs, hommahaturs, mismununar og haturs af ýmsu tagi. Jafnvel nasismanum vex fiskur um hrygg, stundum opinskátt, stundum í dulargervi.”

Minning og menntun er snar þáttur í viðleitni okkar til að hindra að sagan endurtaki sig, því fávísi skapar frjóan jarðveg fyrir rangar frásagnir og ósannindi. Við tengjumst kjarnanum í sammannlegum gildum á borð við sannleika, virðingu, réttlæti og samlíðan með því að skilja sögu okkar. Helförin markaði þáttaskil í mannkynssögunni og heimurinn brást við með því að segja: „aldrei aftur.“

 

Fréttir