UN Habitat, Búsetustofnun Sameinuðu þjóðanna, ýtir í dag úr vör fimm vikna herferðinni „Húsnæði fyrir alla” þar sem hvatt er til úrbóta í húsnæðimálum um allan heim.
Herferðin hefst í dag 5.október á Alþjóðlega búsetudeginum.Kjarninn í herferðinni er sá að húsnæði sé meira en þak yfir höfuðið. Húsnæði er mannréttindi og stuðlar að heilbrigði, mannlegri reisn, öryggi og vellíðan.
Þessar fimm vikur frá og með Alþjóða búsetudeginum stendur öllum til boða að sjá nýja heimildamynd danska leikstjórans Boris B. Bertram, “Skjól mannsins” ( The Human Shelter) en í henni er brotið til mergjar hvað húsnæði felur í sér fyrir fólk og samfélög.
„Skjól mannsins” er tekin á fjórum meginlöndum. Hún sýnir húsnæði fólks sem býr við sérstakar félagslegar, efnahagslegar og umhverfislegar aðstæður um víða veröld. Rætt er við fólk og brugðið ljósi á ýmsar víddir mannlegrar tilveru.
Búseta á fjórum meginlöndum
Skyggnst er inn á heimili fólks í flóttamannabúðum nærri Mosul í Írak, í kofabyggð í Lagos, og sex fermetra húsnæði í Tókíó í Japan. Þá heimsækir leikstjórinn Sama á hreindýraslóðum við heimskautsbauginn. Einnig kynnir hann sér tilraunir Geimferðastofnunar Bandaríkjanna með húsnæði fyrir plánetuna Mars á Hawaii.
Hér má sá brot úr henni:
„Hverjum stað sem við heimsækjum og hverju atriði í myndinni er ætlað að koma áhorfandanum á óvart,“ segir leikstjórinn Boris B. Bertram. „Við gerð myndarinnar hitti ég fólk sem lifir á næstum því engu. Samt reynir það að lifa á ljóðrænan hátt í síbreytilegum heimi. Það er hvetjandi!“
Heimildamyndin sem IKEA fjármagnaði er árangur tveggja ára vinnu. Kafað var djúpt ofan í kjarna þess hvað felst í búsetu. Á meðal margra viðmælenda er Andri Snær Magnason rithöfundur.
Almenningi stendur til boð að horfa á myndina ókeypis frá 5.október til 6.nóvember 2020 á Youtube rás UN Habitat, hér.
1.8 milljarðar í fátækrahverfum
COVID-19 minnir okkar á að heimili er miklu meira en þak yfir höfuðið. Að hafa sómasamlegt húsnæði er nú meir en nokkru sinni fyrr spurning um líf og dauða. Fólk er hvatt til að vera sem mest heima á meðan COVID-19 faraldurinn stendur yfir en slíkt er ekki heiglum hent fyrir þá sem ekki hafa sómasamlegt húsnæði.
Talið er að 1.8 milljarður manna búi í fátækrahverfum eða ósamþykktum byggðum eða sé húsnæðislaus í borgum um allan heim – áður en faraldurinn skall yfir. Um þrjá milljarða manna skorti einföldustu aðstöðu til handþvotta.
„Aðgerða er þörf til að útvega lágtekju fjölskyldum og fólki sem stendur höllum fæti husnæði á viðráðanlegu verði og tryggja búsetuöryggi og greiðan aðgang að vatni, hreinlætisaðstöðu, samgöngum og annari grundvallar þjónustu,“ segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi sínu á Alþjóðlega búsetudeginum.
„Til að mæta þörfinni í heiminum þarf að leggja lokahönd á 96 þúsund húseininga á hverjum degi – að því ógleymdu að slíkt verður að vera hluti af grænum umskiptum.“
COVID-19 hefur dregið fram í dagsljósið viðvarandi ójöfnuð og hafa minnihlutahópar, frumbyggjar og farendur orðið hlutfallslega harðast úti vegna lélegs húsnæðis, þrengsla og húsnæðisleysis. Að mati Alþjóða vinnumálstofnunarinnar njóta 55% jarðarbúa eða 4 milljarðar manna engrar félagslegrar verndar.
Húsnæði eru mannréttindi og stökkpallur margra annara grundvallarréttinda.
Sjá nánari upplýsingar um Alþjóðlega búsetudaginn hér.
Heimildamyndina „Skjól mannsins“ ( “The Human Shelter”) má nálgast hér.