COP28, Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna. Loftslagsbreytingar. António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að á COP28 hafi í fyrsta skipti verið viðurkennt að umskipti frá jarðefnaeldsneyti séu nauðsynleg, eftir áralangar umræður þar sem engin niðurstaða fékkst.
Samkomulag náðist um niðurstöðu á COP28, Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna aðfararnótt 13.desember í Dubai. Í lokaskjali ráðstefnunnar var nauðsyn umskipta viðurkennd en hins vegar var felld út hvatning um að hætta algjörlega í áföngum notkun jarðefnaeldsneytis. Fulltrúar borgarlegs samfélags og berskjaldaðra ríkja vegna loftslagsbreytinga brugðust ókvæða við þeirri ákvörðun.
Óumflýjanlegt að hætta notkun jarðefnaeldsneytis
„Þeim sem stóðu gegn skýru orðalagi um að hætta í áföngum notkun jarðefnaeldsneytis segi ég: slíkt er óumflýjanlegt hvort sem menn vilja það eða ekki. Við skulum vona að það takist áður en það verður of seint,“ sagði Guterres aðalframkvæmdastjóri í yfirlýsingu sinni að ráðstefnunni lokinni. „Tíma jarðefnaeldsneytis verður að ljúka og slíkt verður að gera með réttlæti og jöfnuð að leiðarljósi.“
Í yfirlýsingunni sagði Guterres að vísindamenn teldu að það væri ómögulegt að halda hlýnun jarðar innan við 1.5 gráðu á Celsiu án þess að hætta í áföngum notkun jarðefnaeldsneytis tímanlega.
Guterres fagnaði ýmsums árangri sem náðst hefði á COP28, til dæmis:
• COP28 náði samkomulagi um að þrefalda framleiðslu endurnýjanlegrar orku og tvöfalda orku-skilvirkni fyrir 2030.
• Nokkur árangur náðist varðandi aðlögun og fjármögnun.
• Sjóður til að bæta tjón og tap getur hafið starf þótt fjármögnun sé skammt á veg komin.
• Fyrirheit um fjárveitingar í Græna loftslagssjóðinn nema nú 12.8 milljörðum Bandaríkjadala sem munu renna til þeirra ríkja sem berskjölduðust eru gagnvart loftslagsbreytingum.
Aðalframkvæmdastjórinn sagði að á næstu tveimur árum bæri ríkisstjórnum að undirbúa nýjar landsáætlanir um loftslagsaðgerðir, sem nái til allra geira hagkerfisins. Slíkar áætlanir verði að vera í takt við 1.5 gráðu markið og ná til allra gróðurhúsalofttegunda.
„En miklu meira er þörf til að halda lífi í von um að hlýnun jarðar verði innan við 1.5 gráðu markið, og að þeir sem eru fremstir á víglínu loftlagsbreytinga njóti loftslagsréttlætis,“ sagði Guterres.
„Heimurinn hefur ekki ráð á frestun, hálfkáki og stefnuleysi. Ég er sannfærður um að þrátt fyrir marga erfiðleika, geti heimurinn sameinast og tekist á við áskoranir loftslagshamfara,“ sagði Guterres.
Við erum enn með í kapphlaupinu
Simon Stiell yfirmaður Loftslagsstofnunar Sameinuðu þjóðanna sagði í lokaræðu sinni á COP28 að ráðstefnan hefði þurft að senda skýr skilaboð um að tekið yrði á kjarna loftslagsvandans: jarðefnaeldsneyti og mengandi bruna þeirra.
„Okkur tókst ekki að marka þáttaskil um jarðefnaeldsneyti hér í Dubai, en niðurstaðan markar upphaf endaloka þeirra,“ sagði Stiell.
„Að lokum hvet ég venjulegt fólk til að láta rödd sína heyrast í þágu breytinga. Öll ykkar getið lagt lóð ykkar á vogarskálarnar og stuðlað að breytingum. Á næstu árum verða raddir ykkar og ákveðni mikilvægari en nokkru sinni fyrr og ég hvet ykkur til að gefast aldrei upp. Við erum enn ekki úr leik í baráttunni.“