António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur endurnýjað ákall sitt til Ísraels og Hamas að ganga frá samkomulagi um vopnahlé á Gasasvæðinu og lausn gísla. Guterres hvetur stríðandi fylkingar til að „sýna pólitískt hugrekki og láta einskis ófreistað til að tryggja samkomulag nú þegar.”
„Til þess að stöðva blóðsúthellingar. Til að frelsa gíslana. Og leitast við að koma á stöðugleika í heimshlutanum sem er við það að springa.“
Hann lýsti áhyggjum sínum yfir því að þróunin væri því miður í ranga átt.
„Nýjar hernaðaraðgerðir Ísraelshers í Rafah vekja ótta og ugg. Lokun Rafah og Karem Shalom landamærastöðvanna veldur miklum usla, nú þegar mannúðarástandið er skelfilegt. Þær ber að opna á ný tafarlaust. Sem dæmi má nefna að hætta er á að eldnsneyti verði á þrotum í kvöld. Ég hvet ríkisstjórn Ísraels til að stöðva stigmögnun og taka virkan þátt í diplómatískum viðræðum, sem nú standa yfir.”
Vinir Ísraels leggist á árarnar
Aðalframkvæmdastjórinn varaði við allsherjarárás á Rafah sem myndi valda miklum hörmungum.
„Meira að segja bestu vinir Ísraels eru ómyrkir í máli: árás á Rafah væru strategísk mistök, pólitískur afleikur og martröð mannúðar. Ég hvet alla sem geta haft áhrif á Ísrael til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að leggjast á árarnar til að koma í veg fyrir enn meiri harmleik. Það er kominn tími til fyrir báða deilendur til að grípa tækifæri og tryggja samkomulag í þágu þjóða sinna.“