
António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna gagnrýndi í dag auðug ríki fyrir að hamstra bóluefni gegn COVID-19.
„Það er siðferðilegt hneyksli að ekki skuli hafa verið gætt jafnræðis í bólusetningar-viðleitni,“ sagði Guterres í dag á ráðherrafundi Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna.“
„75% allra bólusetninga við COVID-19 hafa verið í aðeins tíu ríkjum. Á sama tíma hafa 130 ríki ekki fengið einn einasta skammt.
Réttlæti í bólusetningum snýst þegar upp er staðið um mannréttindi. Þjóðernishyggja í bólusetningum brýtur í bága við það. Bóluefni ber að vera almennings eign jarðarbúa, aðgengileg og á verði sem allir ráða við.“

Guterres lýsti einnig áhyggjum sínum yfir því hvernig veiran hafi sýkt pólítisk og borgaraleg réttindi og að enn sé gengið á borgaralegt rými. Hann benti á að heimsfaraldurinn væri notaður sem skálkaskjól. Ríkisstjórnir skýldu sér á bakvið hann til að beita harkalegum öryggis-aðgerðum og bæla niður andóf, glæpavæða grundvallarréttindi, þagga niður í óháðri fréttamennsku og vængstýfa almannasamtök.
Stafræn tækni
Aðalframkvæmdastjórinn hvatti aðildarríki Sameinuðu þjóðanna til að setja mannréttindi í Forgan í reglu- og lagasetningu um stafræna tækni.
Hann minnti á að Sameinuðu þjóðirnar hefðu þróað „Vegvísi um stafræna samvinnu“ (Roadmap for Digital Cooperation) til að kortleggja vandann.
„Við þurfum á öruggri, réttlátri og opinni stafrænni tækni að halda í framtíðinni þar sem hvorki er gengið á einkalíf né sæmd mannsins,“ sagði Guterres í ræðu sinni.
Guterres sagði að lífsnauðsynlegum upplýsingum um COVID-19 hefði verið stungið undir stól og banvænar rangfærslur um veiruna blásnar upp meira að segja stundum af valdhöfum.
„COVID-19 upplýsinga-faraldurinn hefur vakið okkur af værum blindi. Stafræni vetttvangurinn vex sífellt og ástæða til að gefa gaum að notkun og misnotkun upplýsinga.”
Ekki vísindaskáldskapur heldur hversdagur

Oddviti Sameinuðu þjóðanna lýsti áhyggjum sínum af því gagnamagni sem safnað væri um hvert okkar fyrir sig.
Gegnsæi skorti um hvernig upplýsingum væri safnað, af hverjum og í hvaða tilgangi. Hann benti á að kortlagt hegðunarmynstur okkar væri til eins og hver önnur vara.
„Gögnin um okkur eru einnig notuð til að móta og ráðskast með skynjun okkar án þess að við áttum okkur á því,“ sagði Guterres.
„Ríkisstjórnir geta nýtt sér þessar upplýsingar til að stjórna hegðun sinna eigin borgara og brotið mannréttindi einstaklinga eða hópa.
Þetta er hvorki vísindaskáldskapur né spá um framtíðarhelvíti á 22.öld. Svona er þetta hér og nú og krefst umræðu.”
Fagnar nýrri vakningu
Aðalframkvæmdastjórinn lýsti einnig djúpum áhyggjum af þrálátu ójafnrétti kynjanna og kynþáttahatri.
„Ég fagna nýrri vakningu í alheimsbaráttunni fyrir kynþátta-réttæti,“ sagði Guterres og hvatti til aðgerða gegn haturs-hópum. „Allt of oft njóta slíkir hópar hvatninga frá fólki í áhrifastöðum með þeim hætti sem ekki hefði verið hægt að ímynda sér fyrir skemmstu. Við þurfum á samstilltu alþjóðlegu átaki að halda til að sigrast á þessari vaxandi og brýnu hættu.“