António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að Afganistan hangi á bláþræði sex mánuðum eftir valdatöku Talibana.
„Fyrir Afgani er daglegt líf frosið helvíti,” sagði Guterres á fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í dag.
„Þeir eru nú í helgreipum enn eins fimbulveturs með hvínandi vindi, kulda og snjó. Margir hafa orðið að brenna eigur sínar til að lifa af kuldann.”
Hann fagnaði tillögu um að gerð yrði undantekning frá efnahagsþvingunum til þess að greiða fyrir mannúðaraðstoð.
„Við verðum að fella úr gildi reglur sem eru ekki aðeins hindrun fyrir efnahag Afganistans, heldur einnig viðleitni okkar til að bjarga mannslífum,” sagði Guterres. „Nú á þessari ögurstundu verður að endurskoða þessar reglur af mikilli alvöru. Það verður að leyfa að greiða opinberum starfsmönnum laun úr alþjóðlegum sjóðum. Hvort heldur sem er skurðlæknar eða hjúkrunarfræðingar, rafvirkjar eða fólk í hreinlætisgeiranum, allt er þetta fólk nauðsynlegt til að halda kerfinu gangandi.”
Fjölskyldur selja börn sín
Aðalframkvæmdastjórinn dró upp afar dökka mynd af ástandinu. Meir en helmingur Afgana horfist í augu við alvarlegan sult.
Benti Guterres á ekki aðeins COVID-19 herjaði á landsmenn heldur fyrirbyggjanlegir sjúkdómar á borð við mislinga, niðurgangspest og jafnvel lömunarveiki.
Á sama tíma er heilbrigðiskerfið að hruni komið og sjúkrahús rafmagnslaus meðal annars vegna hækkaðs orkuverðs.
Sama máli gegnir um menntakerfið. Milljónir barna, ekki síst stúlkur, njóta ekki lengur kennslu. 70% kennara eru launalausir.
Áhyggjur af mannréttindum
Aðalframkvæmdastjórinn kvaðst hafa þungar áhyggjur af nýlegum fréttum af handahófshandtökum og mannránum þar sem baráttukonur fyrir réttindum kvenna eiga í hlut. Mannréttindasérfræðingar Sameinuðu þjóðanna hafa gagnrýnt Talibana harðlega fyrir að troða mannréttindum fótum.
Noregur er í forsæti Öryggisráðsins í janúarmánuði, en sendinefnd Talibana er nú í Osló og ræðir við fulltrúa nokkura ríkja þar á meðal Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Þýskalands og Evrópusambandsins.