António Guterres aðalaframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna kom í gær til Danmerkur í opinbera heimsókn í fyrsta skipti frá þvi hann tók við embætti 2017. Aðalerindi hans er að sækja fund C40, samtaka borgarstjóra sem beita sér fyrir loftslagsaðgerðum.
„Það er viðeigandi að fyrsta heimsókn mín til ríkis eftir Loftslagsaðgerðafundinn í New York skuli vera til Danmerkur. Kaupmannahöfn er í forystusveit í loftslagsaðgerðum. Og C40 er vettvangur borgarstjóra heimsins til að sýna að þeir séu í fremstu víglínu í baráttunni við loftslagsvána,“ sagði Guterres á blaðamannafundi með Michael Bloomberg sérstökum erindreka Sameinuðu þjóðanna í loftslagsaðgerðum.
Ráðstefna C40
Aðalframkvæmdastjórinn ávarpaði í morgun ráðstefnu borgarstjóranna í C40 samtökunum. Hann benti á að loftslags-fótspor borga væri afar stórt. Tveir þriðju hlutar orku í heiminum er neytt í borgum eða sem samsvarar 70% af losun koltvísýrings í heiminum.
„Við skulum ekki fara í grafgötur með að við stöndum frammi fyrir djúpstæðri vá,“ sagði Guterres. „Loftslagsváin ógnar lífsmöguleikum mannlegs samfélags á jörðunni. Parísarsamkomulagið er vissulega öflugt tækifæri til breytinga en ekki hefur verið staðið við fyrirheitin. Og það sem meira er: núverandi loftslagsaðgerðir eru hvergi nærri fullnægjandi. Útlit er fyrir að hlýnun jarðar muni nema þremur gráðum eða meira sem felur í sér hreinar hamfarir. Þetta hefði skelfilegar afleiðingar í för með sér fyrir mannkynið og koma algjörlega í veg fyrir að Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun myndu nást.”
Loftslagsaðgerðir
Aðalframkvæmdastjórinn fagnaði loftslagsaðgerðum C40 hópsins og kvaðst sammála orðum danska forsætisráðherrans um að endurnýjanleg orka myndi skapa fleiri störf en jarðefnaeldsneyti og kol.
„En það er erfitt að sannfæra kolanámumann um slíkt,“ bætti hann við. „Þannig að við verðum að tryggja að félagslegum úrræðum sé beitt til að koma til móts við kvíða og áhyggjur þeirra sem gætu borið skarðan hlut frá borði í loftslagsaðgerðum, jafnvel þótt þær séu brýn nauðsyn til að bjarga plánetunni og leysa vanda okkar.“
Guterres átti viðræður í gær við Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur, sat fund utnaríkismálanefndar þingsins, heimsótti birgðastöðvar UNICEF, og sótt opnun nýs gagnabanka Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðabankans um farandfólk og flóttamenn.
Guterres sat í gær kvöldverðarboð Friðriks krónprins og gekk í dag á fund Margrétar Danadrottningar.